10. desember 2008

Léttúð, afleiðusamningar, refsileysi og rænuskerðing

Lestur orðabóka er góð skemmtun. Kannski er þetta ekki nógu alkunn staðreynd en þá er löngu tímabært að breiða út fagnaðarerindið. Skemmtigildið felst ekki eingöngu í öllum fróðleiknum sem finna má í bókunum því að þær eru gullnáma fyrir orðafíkla af öllu tagi, meira að segja bókmenntaunnendur. Uppflettiorðin birtast oft í nýju ljósi við að standa ekki í samfelldum texta, þau verða gjarnan framandi þegar eina samhengið er stafrófsröðin. Önnur tegund framandgervingar getur birst í orðskýringunum því að þótt markmiðið sé að færa orðin nær lesendum gefur það orðunum oft nýja og sérkennilega vídd að vera útskýrð ofan í kjölinn. Auk þess þurfa orðskýringarnar að uppfylla formkröfur af ýmsu tagi, t.d. verða þær að vera knappar. Formkröfurnar koma einnig fram í fyrrnefndri stafrófsröð uppflettiorðanna. Textinn miðlar því oft nýstárlegum blæbrigðum: þegar best tekst til má jafna honum við afbragðs ljóð.

Lögfræðiorðabók – með skýringum kom út nýverið og uppfyllir allar fyrrgreindar væntingar. Opinber tilgangur bókar sem þessarar er að sjálfsögðu að vera fróðleg og gagnleg og þeim hlutverkum gegnir bókin með prýði. Eftir að fletta henni er ég t.d. töluvert nær því en áður að hafa vott af hugmynd um hvað afleiðusamningur er en hingað til hefur umfjöllun um það fyrirbæri – jafnvel orðið eitt – valdið svimaköstum og jafnvel rænuskerðingu.

Svo skemmtilega vill til að síðastnefnda fyrirbærið, rænuskerðing, er einnig útskýrt í bókinni. Einnig má fræðast um ósanngirni, aðlægt belti, skilmerki dauða, listgagnrýni, kvíðaröskun, atvinnuköfun, kvótahopp, kvalalosta, almenna gáleysisheimild og algjöra staðreyndavillu, svo fátt eitt sé nefnt.

Mikill kostur er hvað orðaforðinn er fjölbreyttur. Þarna er fjöldinn allur af orðum og hugtökum sem eru alltumlykjandi í samtímanum, eins og endurhverf viðskipti og fljótandi gengi, en einnig gnægð orða úr aldagömlu lagamáli, t.d. knérunnur, frilla og flím. Og auðvitað ótalmargt þar á milli. Það vakti til dæmis sérstaka gleði, jafnvel kátínu, að rekast á léttúð meðal uppflettiorða. Þó er rétt að gera þann fyrirvara að útskýringin á léttúð takmarkast við lögfræðilega merkingu orðsins (og bundin við samningarétt) en það er áminning um enn einn áhugaverðan eiginleika orðabóka: hver orðabók um sig er til marks um ákveðna og afmarkaða heimsmynd.

Ýmsar skilgreiningar bókarinnar eru til marks um allnokkurt hugmyndaflug. Sem dæmi má nefna að fasteign er m.a. skilgreind sem „afmarkaður hluti lands ásamt eðlilegum hlutum þess, lífrænum og ólífrænum, og mannvirki sem varanlega eru skeytt við landið“. Hvernig er annað hægt en dvelja allnokkra stund við þessa útlistun? Hún veitir óneitanlega nýstárlega sýn á tilveruna.

Því má ljóst vera að fleiri hvötum en fróðleiksfýsninni má auðveldlega svala við lestur Lögfræðiorðabókarinnar. Áhugafólk um óvænta sýn á tilveruna, ljóðrænan hversdagsleika og súrrealíska málfarsupplifun fær ekki síður fjölmargt fyrir sinn snúð.

5 ummæli:

Þórdís Gísladóttir sagði...

Hjarta míns innri lexíkógrafs missti næstum úr slag. Mig langar í þessa bók.

ÞES sagði...

Já, ég vissi alltaf að listgagnrýni hlyti að teljast lögfræðilegt álitamál.

Erna Erlingsdóttir sagði...

Ég þarf nauðsynlega að eignast bókina. Sem stendur hef ég bara aðgang að henni í vinnunni sem er engan veginn fullnægjandi.

Nafnlaus sagði...

Vá. Þú náðir í alvörunni að sannfæra mig um skemmtigildi bókarinnar. Og ég er enn sannfærðari en fyrr um skemmtigildi þess að vinna á nefndasviði Alþingis :)

Maríanna Clara sagði...

Ég verð að hryggja ykkur með því að þessi stórgóða bók er uppseld...