9. desember 2008

The Hour I First Believed

Rithöfundurinn Wally Lamb varð fyrir þeirri listrænu ógæfu að Oprah Winfrey tók ástfóstri við bækurnar hans. Fyrstu skáldsögurnar hans, She’s Come Undone (1992) og I Know This Much Is True (1998) voru báðar valdar í Oprah’s Book Club en sá vafasami heiður veldur gjarnan gífurlegum sölukipp og umtali, bækur Lambs sátu lengi í efstu sætum erlendra metsölulista og til stendur að gera kvikmyndir eftir þeim. Eftir að Oprah æðinu lauk tók við níu ára ritstífla hjá Lamb. Í millitíðinni ritstýrði hann tveimur smásagnasöfnum eftir fangelsaðar afbrotakvensur, I Couldn’t Keep It To Myself: Testimonies From Our Imprisoned Sisters (2003) og I’ll Fly Away (2007) en fyrir mánuði síðan kom loks út hin langþráða The Hour I First Believed.

Skáldsögur Wally Lambs eru gersamlega ófráleggjanlegar vegna þess að höfundurinn hefur á valdi sínu sérkennilega blöndu af litríkri frásagnargáfu og mikla þekkingu á goðsögnum. Hann fer þó laumulega með goðsögurnar, vefur þeim saman við söguþráðinn textarýnum til ánægju og yndisauka. Í The Hour I First Believed er viðfangsefnið skotárásirnar við Columbine gagnfræðaskólann árið 1999, þar sem árásarmennirnir Dylan Klebold og Eric Harris eru tákngerðir sem eins konar tvíhöfða Mínótárus. Þeseifur bókarinnar er uppdiktaður kennari við Columbine, Caelum Quirk, sem ásamt eiginkonu sinni berst á næstu árum við að komast upp úr því völundarhúsi sem áfallinu fylgir. Mjög merkingarþrungið allt saman en um leið afskaplega spennandi og áhugavert.

Wally Lamb spilar á löngun manneskjunnar til að gægjast inn í hugarheim skepnunnar og skilja hana. Á þeim næstum tíu árum síðan tveir táningspiltar skutu sig í hausinn inni á bókasafninu í Columbine eftir að hafa myrt 13 manns og sært 23 aðra hefur sankast saman ótrúlega mikið efni um árásirnar. Gus Van Sant gerði kvikmyndina Elephant (2003) byggða á atburðunum í Columbine, á blessuðu internetinu er hægt að skrá sig í aðdáendaklúbb þeirra Klebold og Harris, hægt er að hlusta á símtöl kennara til neyðarlínunnar þar sem heyrast öskur og köll fórnarlambanna og þar má fara ofaní saumana á hinum ýmsu skýrslum um málið. Í sjálfu sér bætir þessi skáldsaga Lambs skiljanlega ekki mikið við þá vitneskju, hann hefur hins vegar eytt gífurlegum tíma í rannsóknir á árásunum og tekst að sigla framhjá (næstum) allri melódramatík í umfjöllun sinni. The Hour I First Believed er alveg biðarinnar virði, nú er óskandi að Oprah láti Wally Lamb í friði svo hann geti farið að vinna að næstu skáldsögu.

1 ummæli:

ÞES sagði...

Já, svona er máttur fjölmiðlanna...það var einmitt búið að selja mér þá hugmynd að þessi höfundur væri lúði en nú hef ég séð ljósið...