7. desember 2008

Konur Steinars Braga

Um daginn fékk ég ógeðslega gubbupest. Ég engdist í rúminu með magaverki á milli þess sem ég lufsaðist fram á baðherbergi og ældi. Eftir eina af nokkrum krampakenndum gubblotum sofnaði ég og fékk martröð sem ég hrökk uppaf við að eitthvað kom inn um bréfalúguna og féll á forstofugólfið. Þar sem þetta var á laugardagseftirmiðdegi bjóst ég ekki við pósti og staulaðist því niður stigann til að athuga málið. Þar beið bókin Konur eftir Steinar Braga, sem einhver hafði augljóslega séð ástæðu til að gauka að mér. Og ég gladdist mjög – það er alltaf tilhlökkunarefni að lesa texta eftir Steinar Braga. Ég ákvað að láta eldsúrt gubbið ekki stoppa mig heldur las bókina samstundis, tók bara nokkar ælupásur öðru hverju þegar maginn snerist við.

Sögusviðið er Reykjavík útrásarmanna, bankastráka og vaðandi yfirborðsmennsku. Strax á fyrstu síðunum sogaðist ég inn í spennandi atburðarás þar sem ráðvillt, einmana og drykkfelld kona, Eva Einarsdóttir, er í aðalhlutverki. Einkennilegar og verulega ógeðfelldar persónur verða hvarvetna á vegi hennar, maður sem Evu finnst hún kannast við veitir henni eftirför og hún kemst að því að konan sem bjó á undan henni í lúxusíbúðinni sem hún hefur að láni fyrirfór sér. Smám saman tekur gjörsamlega botnlaus hryllingur yfirhöndina. Þegar líður á opinberast lesandanum og aðalpersónunni hverskonar öfl eru að verki og hvílíka gildru er búið að veiða konuna í. Konur er hrollvekja þar sem uppdiktaðar persónur jafnt sem þekktar verur koma við sögu, allt frá hundinum Lúkasi til Hannesar listfræðings. Þarna er fjallað um fólk í þjóðfélagi þar sem peningar, frægð og yfirborðsmennska gegnumsýra alla tilveruna með tilheyrandi siðblindu og subbuskap. Algjörlega klikkað ...

Síðan ég las Konur með uppköstum fyrir tveimur vikum hefur hún hvað eftir annað sótt á mig. Ég sniðgeng Sæbrautina meðvitað líkt og þar um slóðir sé ekkert nema uppsafnaður viðbjóður og þegar ég sá fyrrnefndan Hannes listfræðing á Mokka um daginn fór um mig hrollur. Ég ætla að lesa bókina aftur fljótlega – það verður spennandi að sjá hvort gubbið hefur aukið á eða dregið úr áhrifamætti textans.

Mér finnst kápa umræddrar bókar óspennandi og eiginlega beinlínis ljót. Þess vegna birti ég þokukennda mynd af Steinari Braga þar sem hann situr á tröppum húss í miðborg Reykjavíkur. Mér finnst ólíklegt að rithöfundurinn hafi vitað af því að myndin var tekin.

10 ummæli:

Þórdís Gísladóttir sagði...

Hér má alveg kommentera með látum!

Harpa Jónsdóttir sagði...

Þá verður maður helst að hafa lesið bókina - eða að minnst kosti hafa séð hana í búð...

Þórdís Gísladóttir sagði...

Þú segir nokkuð. Nýhil gefur út, ætli hún fáist ekki í bókabúðum?

Nafnlaus sagði...

Andskoti er þetta mögnuð bók - svona sem mann langar að láta alla sem maður þekkir lesa, svo maður geti talað um hana eins og maður þarf.

Til hamingju með bókabloggið, þetta er gott og göfugt framtak.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Já Konur er einmitt svona "tala um bók", minnir að því leyti á Samkvæmisleiki Braga Ólafssonar.

Nafnlaus sagði...

ég hef einsett mér að tala ekki um þessa bók, en hún kom einmitt inn um lúguna hjá mér eins og hjá þér!

Þórdís Gísladóttir sagði...

Haha, en ertu búin að lesa hana Silja?

Silja Bára Ómarsdóttir sagði...

jebb, las hana í síðustu viku. En ég ætla ekki að tala um hana.

Nafnlaus sagði...

Myndin er skemmtileg. Ég þarf greinilega að verða mér úti um þessa bók.

Nafnlaus sagði...

Ég er mjög ósammála um kápu bókarinnar, að hún sé óspennandi og ljót. Þvert á móti finnst mér hún spennandi: í gegnum hulu sér maður loks af hverju myndin er, rétt eins og við að lesa bókina, við lestur er hulunni svipt frá. Dimm og nakin, fallega ljót.