12. desember 2008

Vonarstræti

Þrátt fyrir að Ármann Jakobsson sé enginn öldungur hefur hann ritað þykkar fræðibækur og ótrúlegan fjölda greina og bókakafla í íslensk og erlend fræðirit. Hann hefur samið bók um verk Tolkiens, gefið út bloggbókina Fréttir frá mínu landi og skrifað fjölbreyttar greinar um barnabókmenntir í tímaritið Börn og menningu svo fátt eitt sé nefnt. Ármann, sem er kennari við Háskóla Íslands, tók líka nýlega á móti verðlaunum Dags Strömbäcks sem konunglega Gustavs Adolfs-akademían í Uppsölum veitir fyrir framlag til íslenskra og norrænna fræða. Nýjasta bók Ármanns er söguleg skáldsaga sem ber hinn fallega titil Vonarstræti. Í bókinni segir hann frá langafa sínum og langömmu, Theodóru og Skúla Thoroddsen, sem flestir þekkja líklega eitthvað til.

Undirrituð á oft dálítið erfitt með sögulega skáldsagnaformið. Aðdáun höfundanna á persónum er oft yfirdrifin og lygin er svo augljós og kjánaleg þegar verið er að dikta upp koddahjal löngu dauðra persóna. En Vonarstræti gafst ég ekki upp á. Ármann er með eindæmum þægilegur penni og ljúfur og launfyndinn höfundur. Atburðum er fléttað saman að því er virðist af fyrirhafnarleysi (fyrirhafnarleysið er sjálfsagt ranghugmynd lesandans) og höfundurinn hikar ekkert við að nota nútímaleg hugtök í bland við gömul orð þannig að menn sem aka í átómóbíl geta líka verið fréttafíklar.

Sagan gerist árið 1908, hún hefst þegar hjónin Skúli og Theodóra koma til Kaupmannahafnar ásamt millilandanefndinni snemma árs og lýkur þegar Uppkastið er fellt í kosningunum í september um haustið. En aftur og aftur er vísað aftur í tímann eða vikið að því sem síðar á eftir að gerast. Við lesturinn lifnaði Theodóra sérstaklega á síðunum, enda sagan mikið til sögð út frá hennar sjónarhorni. Hjónin eru skondin og áhugaverð, margbrotin, mótsagnakennd og um margt nútímaleg (fólk er auðvitað miklu líkara á öllum tímum en við viljum oft halda). Það háði mér dálítið við lesturinn að ég hef mest af þekkingu minni á pólitíkinni á tíma Vonarstrætis úr Ofvitanum, auk skammarlega yfirborðskenndrar barnaskólaþekkingar á körlum á borð við Hannes Hafstein og Bjarna frá Vogi. Ármann hefur áttað sig á að fólk er misvel að sér þannig að aftast er listi yfir sögupersónur ásamt grundvallarupplýsingum og hann er til hjálpar. Síðan er auðvitað hægðarleikur fyrir fákunnandi lesendur að fletta upp atburðum og fólki, veki bókin löngun til að kynna sér menn og málefni betur.

Vonarstræti er mér, sem áhugakonu um sögu borgarmyndunar og mannlífs í Reykjavík, vænn biti í borgarsögupúslið. Og eins og allar almennilegar sögulegar skáldsögur kallast bókin á við nútímann. Það er áhugavert að bera saman Ísland árin 1908 og 2008. Ágætur samkvæmisleikur gæti verið að setja atburði Vonarstrætis í samhengi við umræðu og atburði okkar daga, hvort sem menn vilja diskútera pólitíska flokkadrætti, mikilvægi inngöngu Íslands í Evrópusambandið eða nauðsyn þess að standa utan við það umdeilda batterí, jafnréttismálin og ójafnréttismálin, fjármálaheiminn eða jafnvel verndun gamalla og sögufrægra húsa í miðborg Reykjavíkur.

7 ummæli:

eidur sagði...

Til hamingju með þetta lofsverða framtak.Eiður Guðnason

Nafnlaus sagði...

Sko mér finst þetta soltið skemmtileg síða en getið þið ekki skrifað um fleiri jólabækur og gefið bókunum stjörnur?

Nafnlaus sagði...

Það er nú það...það er einmitt pælingin að skrifa um bækur hér án þess að vera í kapphlaupi við jólavertíðir og slíkt...enda nóg af miðlum sem er í stjörnustríðinu.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Hvahh, munar þig eitthvað um að sletta í nokkrar gullstjörnur Þorgerður? Ég væri til í að gefa halastjörnur og höfuðkúpur fyrir hárgreiðslu höfundar og fyrir káputexta ;)

ÁJ sagði...

Í gamla daga gat maður fengið stjörnur og bangsa ef maður stóð sig vel. Svo hættu bangsarnir þegar maður var níu ára; þá vorum við orðin of gömul.

ÁJ sagði...

Já, og takk fyrir umfjöllunina.

Nafnlaus sagði...

Tja, það er allaveganna hægt að ætlast til þess að maður drullist til að skrifa nokkurn veginn rétt, burtséð frá stjörnunum...þetta átti auðvitað að vera "enda nóg af miðlum sem eru í stjörnustríðinu"...ussususss
ÞES