Í tilefni umræðu við síðustu færslu var ákveðið að rifja upp kafla úr handriti útvarpsþáttar sem tvær okkar gerðu fyrir nokkru og var fluttur á Rás 1:
Mest selda unglingabókin fyrir jólin 1984 var Fimmtán ára á föstu eftir Eðvarð Ingólfsson. Bókin seldist í stærra upplagi það ár en Bróðir minn Ljónshjarta. Eðvarð Ingólfsson hóf að gefa út unglingabækur árið 1980 þegar Gegnum Bernskumúrinn kom út. Bókin fjallar um afar heiðvirðan og siðavandan grunnskóladreng, Birgi að nafni, en fjölskyldulíf hans er slæmt, móðirin áfengissjúklingur og faðirinn fjarlægur. Birgir kynnist Ásdísi, gullfallegri og sómakærri stúlku sem býr með góðum foreldrum. Aðrir unglingar bókarinnar eru ekki jafn vel lukkaðir, strákarnir drekka sumir og vinkona Ásdísar verður ólétt á fylleríi. Eðvarð Ingólfsson varar við áfengisnotkun, þeir sem þess neyta eru oftast brjóstumkennanlegir og trúarlegur tónn er undirliggjandi í verkunum.
Persónur Eðvarðs eru ákaflega fullorðinslegar, þrátt fyrir að vera jafnvel á grunnskólaaldri, og þeim liggur mikið á að komast í tölu fullorðinna. Í Fimmtán ára á föstu segir frá samdrætti Árna og Lísu, sem eru bæði þroskuð miðað við aldur og nota hátíðlegt tungumál sem minnir lítið á tungutak raunverulegra unglinga. Í upphafi bókar er Lísa í sambandi við hinn mótorhjólaakandi Kidda, sem er mikill töffari, en hún efast um að hann sé framtíðarmaður lífs hennar þar sem hann skortir ýmsa æskilega eiginleika þess karlmanns sem í hennar augum er vænlegur til sambúðar og frambúðar. Kiddi er nefnilega flippaður pönkari og dreymir um að breyta heiminum en Lísu dreymir um að giftast kurteisum, yfirveguðum og tillitssömum strák: „Hann átti að vera hærri en hún, ljóshærður og með blá augu, mikið í íþróttum og hugsa vel um hana.“
Persónur Eðvarðs eru afturhaldssamar, á köflum svo að jaðrar við forpokun. Unglingarnir í þeim tveimur bókum hans sem hér eru nefndar hafa ekki snefil af hneigð til uppreisnar og efast lítt um smáborgaraleg gildi. Þegar Birgir í Gegnum bernskumúrinn spyr Ásdísi hvernig stærðfræðinámið eigi eftir að nýtast honum þegar út í lífið er komið svarar hún: „Ég veit það ekki. Kerfið hefur sína kosti og galla eins og með allt annað í þjóðfélaginu. Mín trú er sú að ef við göngum alltaf með jákvæðu hugarfari til námsins, þá vefjast gallarnir ekki fyrir okkur, ég held að við verðum bara að sætta okkur við námið eins og það er. Ef við ætlum okkur að hætta því vegna einhverra komplexa þá náum við okkur aldrei í neina starfstitla og verðum undir í skiptingu veraldlegs auðs.“
Í lok Fimmtán ára á föstu er ákveðið að Árni og Lísa hefji sambúð, þá er hún óvart orðin ólétt eftir fyrstu samfarir þeirra í tjaldútilegu. Það verður seint hægt að segja um Eðvarð Ingólfsson að hann velti sér upp úr lýsingum á lystisemdum holdsins. Ástarnótt Árna og Lísu í tjaldinu er lýst með einungis sextán orðum þar sem hneggjandi hrossagaukur gegnir afar táknrænu hlutverki og menn geta velt því fyrir sér hvort samförum hefur verið fagnað með eftirminnilegri hætti í íslenskum bókmenntum: „Þetta var þeirra nótt. Þau voru tvö ein. Í fjarska hneggjaði hrossagaukur til að fagna því.“
Þorgerður og Þórdís
9 ummæli:
Það er náttúrulega alveg voðalegt að verða undir við skiptingu veraldlegs auðs.
Mér finnst hrossagaukur eiginlega of veimiltítulegur fugl til að gagn sé að honum í þessu táknfræðilega samhengi. Sennilega hefur höfundur ætlað að láta graðhest hneggja í fjarska en heykst á því í próförk.
Svo hefði óneitanlega farið betur á því að segja að hnegg hrossagauksins heyrðist hátt í lofti því gaukurinn sá hneggjar aldrei á jörðu niðri.
Já ég veit þetta er orðhengilsháttur.
Páll Ásgeir Ásgeirsson
Kynslóðin sem þetta las er sú gráðugasta í sögunni.
Vá, þetta er frábært. Kemur mér á óvart að þetta hafi komið út á sama tíma og Bróðir minn Ljónshjarta, ég hef alltaf talið þetta eldra en svo og fyrir mína tíð. Sem það er auðvitað, og sem Astrid Lindgren verður sennilega aldrei.
I do not think that was as bad as 'helpful and participatory in the initial process', a sentence an anthropologists used when describing a subject's first sexual encounter.
Í þessari bók er lýst gamlárskvöldi ungmennanna. Ég las þann kafla fyrir nemendur mína fyrir löngu, þeim til gífurlegrar kátínu.
Sítatið um skiptingu veraldslegs auðs er svo stórfenglegur hryllingur að ég fyllist löngun til að sauma það út og ramma inn.
Mig minnti reyndar að gamlárskvöldið hefði verið í framhaldsbókinni, sextán ára í sambúð. Þau eru að minnsta kosti farin að búa. En það er virkilega, virkilega eftirminnileg sena. Þau dreypa á kakói. Eins og maður gerir á gamlárskvöld þegar maður er fimmtán.
Er það ekki í þessum bókum þar sem "vonda" fólkið þekkist á því að það drekkur kók?
Skrifa ummæli