22. mars 2009

viðvaningabókmenntir

Ágúst Borgþór segir á bloggi sínu að það sé billegt og fyrir viðvaninga að frumbirta skáldverk á netinu. Ég spurði Ágúst í athugasemd hvers vegna hann væri á þessari skoðun en athugasemdin er einhversstaðar á flakki og ósvarað. Á Tregawattasíðunni er málið tekið upp og þetta sögð hörð atlaga.
Í fyrra kom út bók eftir Ármann Jakobsson, þar sem ég held að bróðurparturinn eða mögulega allt, hafi áður verið birt á bloggsíðu höfundarins. Bókin er Fréttir frá mínu landi, sem ég var fyrir tilviljun með á borðinu fyrir framan mig og nýbúin að lesa og njóta þegar ég rakst á færslu Ágústs Borgþórs. Samkvæmt ÁBS hlýtur doktor Ármann að vera viðvaningur á rithöfundasviðinu, því leyfi ég mér auðvitað að vísa alfarið á bug með hnussi.
Þetta er auðvitað aktúellt mál. Sumt sem birt er á bloggsíðum eða öðrum vefsíðum er auðvitað alveg jafn gott og miklu betra en margt sem pappír og prentsvertu er spreðað í, en bloggarar og aðrir höfundar sem hafa bara birt á vefsíðum eru ekki í rithöfundasambandinu, hafa hingað til ekki fengið rithöfundalaun fyrir sín skrif og eru (líklega) almennt ekki taldir til alvörurithöfunda. Því má velta fyrir sér hvort þetta eigi eftir að breytast. Eru skrif Ármanns í Fréttum frá mínu landi verri fyrir að hafa áður verið birt á netinu? Er bókin betri en bloggskrifin? Hvernig getur verk verið billegra hafi það verið birt á netinu áður en það er prentað? Ef ég skrifa góða smásögu og birti hana bara á netinu er hún þá viðvaningsdrasl, en góð ef ég birti hana bara á prenti? Hvers vegna er pappír merkilegri en rafræn birting?

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ætli þetta sé ekki bara vegna þess að netið er bara bóla...

En, annars, snýst þetta ekki aðallega um muninn á því hvort menn ætla að gefa verk sín á netinu, eða selja þau á prenti? Svo hafa líka verið gerðar tilraunir með áskrift að skrifum höfunda, þannig að menn fengu aðgang að næsta kafla, um leið og hann var skrifaður. Var ekki Stephen King í einhverri svoleiðis tilraunastarfsemi einu sinni?

Er nokkuð viss um að gott verk er jafn gott rafrænt og prentað og að lélegt verk skánar ekkert á prenti.

Nafnlaus sagði...

Hugmynd Stephen King var reyndar að fara aftur í tíma, þ.e. herma eftir því að skáldsögur birtust oft sem framhaldssögur í tímaritum.
Annars ætlaði ég bara að segja nákvæmlega það sem Svanhildur bendir strax á. Það er ótrúlega fast í sumum að internetið sé bara einhver bóla.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Hér bjóst ég við magnaðri ritdeildu en fáir nenna að hafa skoðun ... Er fólk orðið varanlega skemmt af pólitísku þrasi og kreppubölmóði?

Þórdís Gísladóttir sagði...

Spurning mín til ÁBS hafði lent við vitlausa færslu. Hér er svar Ágústs Borgþórs við spurningunni hvað sé billegt við að frumbirta á netinu:

"Kannski er þetta bara snobb í mér. En á netið er hægt að ropa og prumpa og garga og gera broskalla. Það er líka hægt að birta skemmtilegar bloggfærslur þar úr Norðurmýrinni. - En smásaga er m.a. vara þó að hún seljist ekki dýrt. Þannig að í frumbirtingu sinni fer hún í gegnum síu ritstjórnar og síðan er greitt fyrir hana. Frumbirt smásaga á netinu er í félagsskap með alls kyns bulli og lesendur hennar setja sig ekki í þær stellingar að þeir séu að fletta bók eða bókmenntatímariti."

Nafnlaus sagði...

Augljóslega er internetið morandi af rusli, en eru ekki flestar bækur sem prentaðar eru á pappír rosalega lélegar?
Ritstjórar prenta viljandi og af yfirveguðu ráði viðbjóðslegt rusl, rauðaserían, tár bros og takkaskór og DV... kommon. Ritstjórar eru aðalega í bissness, spurningin er bara hvort það meiki fjárhagslegt sens.
Það er líka svoldið viðbjóðslegt að heyra hvernig neysluvörugerð listar (eða ekki listar) eigi að hjálpa til við listræna gildið... Þvílíkur öfga kapítalismi.
Umræður um mismun miðla og eðli þeirra eða nýtingu geta verið áhugaverðar, en afhverju skildi umræðan almennt vera á þessu stigi.
ÁBS er samt óhugnalega meðvituð um hvað raunverulega liggur til fyrirstöðu "Kannski er þetta bara snobb í mér".

Kindle tækið frá amazon er núna á leiðinni að verða næsti ipod (sjáiði bara til, égskalveðjafulltafpeningumuppáþað) svo væl um gömlu góðu innbundnu bækurnar frá snobbuðum smáborgurum og öðrum viðvaningum mun verða háværara.
Ekki að það sé sjálfgefin jákvæð þróun, þvert á móti, en smáborgarleg gagnrýni ala ÁBS er ansi rotin.

Ágúst Borgþór sagði...

Gæði verksins sem slíks rýrna ekki við birtingarformið. Ef Sjálfstætt fólk hefði verið frumbirt á netinu væri bókin auðvitað ekkert verri. En það fer illa með góð verk að frumbirta þau á netinu því almennt frumbirtist ekki þrautunnið og alvarlegt efni á netinu. Það er í það minnsta vond meðferð á góðu, frumsömu bókmenntaefni. Ekki ætla ég að lasta umrædd ljóð Ármann Jakobssonar en ég stórefast um að hvarflað hafi að honum að frumbirta skáldsöguna sína, sem kom út fyrir síðustu jól, á bloggsíðu. - Mig er m.a.s. farið að gruna að það sé vond hugmynd að endurbirta skáldverk á netinu, því ég var ekki fyrr búinn að setja "Hverfa út í heiminn" á bloggsíðuna mína þegar þar birtist gamalkunnur þrasvinur minn, fór að hnýta í söguna og ráðleggja mér um hvernig mætti laga hana. - Þá vantaði ekkert nema eins og 20 Vísis- eða Moggabloggara sem kunna ekki stafsetningu til að slást í hópinn. - Umframt allt er bloggið svo aktúelt og háð augnablikinu, sem skáldskapur er ekki.

Svo veit ég ekki betur en ég hafi fyrir löngu verið búinn að svara athugasemdinni þinni.