25. mars 2009

My Favourite Wife

Tony Parsons. My Favourite Wife. Harper: London, 2008.
Sumir rithöfundar hefðu átt að kunna sér hóf og jafnvel hætta skrifum eftir fyrstu bókina. Tony Parsons fékk góða hugmynd fyrir tíu árum síðan og gaf út ágætis bók, Man and Boy. Stíll Parsons og umfjöllunarefni þóttu minna á Nick Hornby og þar af leiðandi smellpassa í gaurabókmennta-genruna (lad-lit) sem er auðvitað sambærileg skvísubókmennta-genru (chick-lit) Helenar Fielding og öllum hennar sjöþúsund sporgöngumönnum. Man and Boy er svona feel-good Kramer vs. Kramer, maður á fertugsaldri heldur framhjá eiginkonu sinni og situr svo einn uppi með son þeirra meðan eiginkonan fer að finna sjálfa sig – í millitíðinni finna feðgarnir hvorn annan. Bókin varð feikivinsæl, seldist í milljónum eintaka og var þýdd á fjöldamörg tungumál, og er meira að segja til í vandaðri íslenskri þýðingu.

Tíu árum síðar er Parsons búinn að vinda allan frumleika úr skrifum sínum og bækurnar hans eru allar eins. Vælukjóabókmenntir um karlmenn sem eiga ágætar konur og búlduleitin börn en veröld þeirra er svo ófullnægjandi á einhvern óútskýranlegan (Parsons reynir samt) hátt svo þeir fara að sofa hjá leggjalöngum konum af asískum uppruna. My Favourite Wife er nákvæmlega svona, hún er klisjukennd, melódramatísk og fullkomlega ósannfærandi. Parsons virðist líta svo á að hann sé kominn með skothelda formúlu að metsölubók en þar vanmetur hann vonandi bæði lesendahóp og genruna sjálfa.

Í My Favourite Wife er mikið kraðak af staðalímyndum, líkt og í þríleik Stieg Larsons er aðalsöguhetjan ómótstæðilegur í augum allra kvenna sem á vegi hans verða, þrátt fyrir að hversu lufsulegur hann er í mínum augum. Verst finnst mér þó Parsons fara með samband föður við barn, sem var sá þráður sem hélt Man and Boy á floti. Margir kaflanna enda á merkingarþrungnum símtölum aðalsöguhetjunnar við dóttur sína sem eiga líklega að sýna framá að þegar allt í heimi hans hrynur er ástin til dótturinnar svo sterk að hún stenst allar hörmungar. Dóttirin minnir þó meira á fertuga persónu í sápuóperu en fjögurra ára barn í forræðisdeilu, frasar í líkingu við „Daddy, I will always be yours” og „Daddy, you know I need you to be with me“ hrynja af vörum þessa skilningsríka barns svo hrollur fer um lesandann. Þessi ótrúverða persónusköpun Parsons stuðaði mig alla bókina. Reyndar var það eina sem gladdi mig við lestur My Favourite Wife að nú væri ég loksins komin með bók til að gefa falleinkunn á druslubókasíðunni, annars er ég alltaf að lofa bækur og prísa.

6 ummæli:

Hildur Lilliendahl sagði...

Æ, þetta er leiðinlegt. Mér fannst bæði Man and boy og Man and wife ágætar en svo komst ég yfir einhverja sem heitir eitthvað ... hmm. Eitthvað á borð við stories we could tell eða eitthvað þannig? Virðist við fyrstu sýn segja svipaða sögu og Almost famous, ungur tónlistargagnrýnandi uppúr hippatímanum fer á túr með einhverju bandi eða ekki. Bókin er svo yfirgengilega leiðinleg að mér hefur hvorki tekist að leggja titilinn á minnið né koma mér í gegnum tvær síður af henni í einni lotu. Ef einhver vill eiga þennan kostagrip má sá hinn sami sækja hana til mín í Ráðhúsið.

Maríanna Clara sagði...

já, mjög hressandi að fá svona hakkavélar stundum!

Ég hef annars ekkert lesið eftir Tony og efast um að ég geri það úr þessu....í öllu falli er ég ekki á leið í ráðhúsið að fá lánaða þessa óbærilega leiðinlegu ónefndu bók!

Erna Erlingsdóttir sagði...

Ég er ánægð með þetta hakk. Annars segi ég það sama og Maríanna, ég hef ekkert lesið eftir manninn og efast um að ég eigi það eftir.

Annars finnst mér ótrúlega áhugavert hvernig sumir höfundar byrja stórvel en hrakar svo ýmist smám saman eða óðfluga, en aðrir höfundar byrja ekkert sérlega vel en fer svo fram með hverri bók.

Æsa sagði...

Hildur, Stories we could tell er einmitt eina bókin eftir Tony Parsons sem ég hef ekki lesið - mun ég sleppa henni alveg, að ráði þínu!
Mér fannst Man and Boy bara indæl, Man and Wife lala, One for my Baby frekar slæm og Family Way hreinræktaður hroðbjóður. Í ljósi þessa er nokkuð furðulegt að ég hafi keypt og lesið My Favourite Wife. Ég sé svo á einhverri aðdáendasíðunni að hann er að koma með nýja bók: Starting over. Eitthvað segir mér að þar komi karlmaður í hjónabandsvandræðum við sögu. Ég ætla EKKI að lesa hana.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Starting over er allavega skelfilega klisjukenndur titill. Sem minnir mig samt á eina uppáhaldsbókina; Talking it over eftir Julian Barnes en hún fjallar um mann í krísu því kerlingin er stungin af með besta vini hans...

londonbaby sagði...

Eg er sammala ther med thessa bok, hun er alveg afleit. Parsons er lika alveg dottin i ad nota aftur og aftur somu senurnar, t.d. thegar soguhetjurnar fara alltaf a registry office for births, deaths and marriages og detta ofan i djupar hugleidingar um lifid og daudann (thetta var allavega i tveimur af thessum bokum)...pfff segi eg!

Thordis hin