16. mars 2009

Kæra Astrid Lindgren, því miður ...

Í síðustu viku birti danska Information dálítið skemmtilega grein eftir Rasmus Bo Sørensen undir yfirskriftinni „Því miður Dan Brown.“ Greinin fjallar um það sem kallað er martröð hvers forleggjara; að afþakka handrit sem síðan verður metsölubók hjá öðru forlagi. Árið 2002 afþakkaði Gyldendal The Da Vinci Code, sem þá var óútgefið verk óþekkts höfundar. Ungum ritstjóra í starfsþjálfun fannst bókin drasl sem ekki væri samboðið forlaginu að gefa út. Margir eru sjálfsagt sammála honum en síðan bókin kom út árið 2003 hefur hún engu að síður selst í yfir 60 milljónum eintaka, þar af 600 þúsund í Danmörku, en bókin er gefin út hjá forlagi sem Information kallar „lilleputforlaget Hr. Ferdinand.“ Þegar Mikael Kristiansen, sem stóð fyrir því að afþakka bókina, eða einhver annar segir þessa sögu hlær fólk gjarna óskaplega yfir hvað hann hafi nú verið mikill bjáni. En í greininni í Information er bent á að málið sé nú ekki sérlega einfalt, markaðurinn sé sumpart óútreiknanlegur og auk þess seljist bók betur eftir því sem fleiri eintök seljist, það er að segja það sem er mikið tekið er tekið meira. Það er vitað að fólk sem að jafnaði les lítið eða ekkert hefur jafnvel tekið upp á því að kaupa og lesa Da Vinci lykilinn, Harry Potter eða Twilight-seríuna sem nú flæðir úr prentvélum um víða veröld.

Í greininni eru nokkrir metsöluhöfundar og metsölubækur nefndar sem útgefendur afþökkuðu. Þannig munu 38 forlög hafa afþakkað Gone With the Wind og 16 forlög neituðu að gefa Dagbók Önnu Frank út. Harry Potter hafði verið margsinnis afþökkuð áður en forleggjari beit á agnið og sömuleiðis Lolita Nabokovs og Frú Bovary Flauberts. Stephen King fékk víst líka í upphafi ferilsins handritin sín í hausinn aftur og aftur því verkin þóttu ekki söluvænleg. Árið 1944 fékk Bonnier-forlagið sent handrit að bók um sögupersónuna sem heitir á íslensku Lína langsokkur. Handritinu var hafnað og Rabén og Sjögren sem þá var nýstofnað forlag gaf bókina út. Samtímis var höfundurinn, Astrid Lindgren, ráðin ritstjóri barnabóka hjá forlaginu þar sem hún starfaði í áratugi og forlagið gaf út allar bækur hennar sem selst hafa í skrilljónþúsundmilljónum eintaka á sextíu tungumálum.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ef útgefnir íslenskir höfundar kynnu almennt á internetið þá væru hér búnar að birtast ýmsar sögur af afþakkandi forlögum. En þeir eru flestrir örugglega bara í naflaskoðun og einangrun að skrifa um mjálmandi sveitafólk.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Haha, já með blýantinn sinn einhversstaðar að hringja á skífusíma ;)

Sigfríður sagði...

Allavega eins gott að ég er ekki ritstjóri hjá forlagi sem vill græða feitt - hefði pottþétt afþakkað bæði Da Vinci Code og Harry Potter hryllinginn. Hef ekki heyrt um þetta Twilight dæmi en ef það líkist hinu dótaríinu þá hefði ég örugglega afþakkað pent.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Þú hefur greinilega ekkert bissnissnef Sigfríður. Ég hefði sko strax gefið þessar bækur út. Ég las Da Vinci-lykilinn í flugvél og steingleymdi að vera flughrædd.

Sigfríður sagði...

Eins gott að þú verður ritstjórinn og ég konan með excelskjölin í Druslubókaútgáfunni;)

Svanhildur Hólm Valsdóttir sagði...

Ég verð einmitt að gangast við að hafa notið mikillar ánægju við að lesa allar þessar vinsældabókmenntir. Búin að lesa þetta allt, sjá myndirnar og guðmávitahvað...