11. júní 2010

Reyfarajúní ... glæpir í Skandinavíu

elsku_poona_fossumraudbrystingur0069
Fast á hæla reyfaramaí fylgir að sjálfsögðu reyfarajúní. Síðan skóla lauk um miðjan maí hef ég kastað frá mér í fússi nánast öllum bókum sem ekki innihalda alla vega eitt gróft morð – ég vil ekki sjá efnahagsbrot eða fíkniefnamisferli – morð skal það vera.

Ég hef fleygt mér skammlaust í faðm skandinavískra glæpahöfunda sem þýðir að sjálfsögðu að miklum tíma hefur verið eytt í félagsskap drykkfelldra, þunglyndra lögreglumanna sem ekki spila alltaf eftir leikreglunum og eru undantekningalítið upp á kant við yfirboðara sína.

Í maí lokaði ég með söknuði Stieg Larsson hringnum þegar ég las loksins síðustu bókina í Millennium séríunni – ég sá nú meira eftir Lisbet Salander en Michael Blomkvist en ég er varla sú eina sem þreyttist örlítið á yfirgengilegri kvenhylli hans – látum vera að þær svæfu allar hjá honum  - en að hver ein og einasta yrði líka ástfangin af honum fannst mér orðið dáldið vandræðalegt. Þegar þessi aríska útgáfa af Grace Jones úr öryggislögreglunni horfði á hann sofandi með tárvotum augum áður en hún fór í ræktina að beygja stál með berum höndum var mér eiginlega allri lokið. En samt...leiðinlegt að vera búin með þessar bækur – Salander er stórskemmtileg og sagan hörkuspennandi!

Á eftir Larsson kom Karin Fossum með Elsku Poona – afskaplega niðurdrepandi samfélagsádeila þar sem ég gat ómögulega ákveðið mig hvort væri skuggalegra – rasisminn eða kvenhatrið í þessum huggulega smábæ í Noregi. Þrátt fyrir þunglyndið var hún þó ekki gersneydd húmor og endirinn skemmtilega/óþægilega opinn.

Rasisminn og kvenhatrið halda svo áfram að blómstra í Rauðbrystingi Jo Nesbö og fullkomnast næstum í framhaldinu Nemesis. Þar er lögreglumaðurinn Harry Hole ekki bara drykkfelldur heldur blússandi alkóhólisti sem getur ekki einu sinni verið viss um að hafa ekki framið morð í blakkáti. Þorgerður sagði réttilega að plottið væri hin sterka hlið Nemesis og það sama á við um Rauðbrystinginn sem er brjálæðislega spennandi. Hins vegar varð ég næstum jafn æst yfir öllum innsláttarvillunum sem eru ekki eins mikil meðmæli – útgefendur: PRÓFARKALESA – ég bið ykkur á hnjánum! Þriðja bókin um Harry Hole er ekki væntanleg fyrr en 2011 svo ég sprakk á limminu og keypti fjórðu bókina á ensku – þriðja var ekki til. Nú er bara að vona að þessi uppstokkun eyðileggi ekki undirliggjandi auka atburðarás sem virðist ætla að halda áfram út í gegnum bækurnar...

Það er ófögur mynd sem Larsson, Fossum og Nesbö draga upp af skandinavísku samfélagi – en þó birtist vonin alltaf í formi þunglyndra og alkóhólíseraðra lögreglumanna (og stöku kvenna) sem þrátt fyrir allt eru prinsipp fólk sem leggur allt í sölurnar til þess að eitthvað réttlæti megi ná fram að ganga.

Maríanna Clara

4 ummæli:

Erna sagði...

Ég er alveg á móti endinum á Elsku Poonu. Það er bara bannað að upplýsa lesandann ekki um það hver morðinginn er! Ég er ennþá pirruð við höfundinn þótt það séu orðin þónokkur ár síðan ég las bókina.
Í vetur tók ég góða törn í Jo Nesbø eftir að hafa uppgötvað að það getur þrælvirkað að gera innkaupatillögur á Borgarbókasafninu. Nú á aðalsafn Bbs. flestar bækurnar eftir hann á norsku (svo eru þær sennilega til líka í Norræna húsinu).

Þórdís sagði...

Mér finnst Elsku Poona ansi góð og Karin Fossum fínn höfundur. Rauðbrystinginn á ég eftir (en þú ert ekki sú fyrsta sem ég heyri nefna innsláttarvillur í þeirri bók.)

Hafdís sagði...

Þetta eru allt eðalbókmenntir. Hrifnari var ég þó af Nemesis en Rauðbrystingi og dauðlangar einmitt að lesa meiri Harry Hole. Alveg lélegt að geyma næstu þar til 2011. Tek líka undir með Ernu um endinn á Poonu.

bokvit sagði...

ok. endirinn er á Poonu er dáldið erfiður...kannski hélt ég að bókin væri svona hálft í hvoru í séríu eins og Harry Hole en svo er víst ekki oder was? En hún er samt góð! Að bíða til 2011 er gjörsamlega út úr kortinu - þá verð ég búin að gleyma öllu...svo ég pantaði bara þrjú á amazon á ensku og keypti fjögur út í búð...á ensku!

Maríanna