Kápumynd Haraldar Guðbergssonar á frumútgáfunni sem Mál og menning gaf út 1976 |
Tryggvi fæddist 82 árum áður en ég fæddist en mér líður eins og geimveru frammi fyrir því samfélagi sem hann fæddist í. Áttatíu og tvö ár. Kannski er ekki skrýtið að fólk hræðist að við séum búin að slíta ræturnar við gamla, fátæka Ísland í okkar gjörbreytta heimi. Enda fer fátæka fólkið hans Tryggva ekki hátt. En það ætti að gera það. Tryggvi nýtti sínar fábreyttu aðstæður til fulls og hann lifði. Hann kunni að lifa í endurtekningunni, að þekkja dalinn, fjöllin, hverja einustu hæð og hól, hvert veðurbrigði, hvað hundurinn var að meina, kindin eða hesturinn, hann sá hvernig dýrin hugsuðu. Næmnin fyrir fegurðinni er (náttúrulega) ólýsanleg. Lýsingarnar á Öxnadalnum, tíminn sem hann hafði og nýtti til að velta öllu fyrir sér og komast þannig í djúp tengsl við umhverfið. Þær fengu mig til þess að hugsa um mín eigin tengsl við umhverfið, okkar eigin væntingar, hvað við viljum, hvað þykir kúl. Ég hef komið til Kasmír, ég hef komið til Rómar og ég hef komið til Balí, plánetan er falleg. Það eru ótrúlegir hlutir alls staðar en því fleiri staði sem ég heimsæki, því fleiri fallegar evrópskar borgir, fallega skógardali, fallegar strendur, því meir myndast abstrakt mynd af fallegri evrópskri borg, fallegum skógardal, fallegri strönd í huga mér í stað hins einstaka staðar. Ég ólst líka upp í sveit. En ég hafði sjónvarpið, ég hafði bækurnar, bílinn, snjóþotuna, mér var alveg sama um hundinn, hugsuðu kindurnar? Ekkert af þessu hafði Tryggvi, vart til bók á heimilinu, hann notaði einungis hugann til þess að búa til töfraheiminn, hann talaði við fólk, dýr og jafnvel fjöllin. En það er ekki aðeins næmni Tryggva sem hreif mig heldur einnig réttlát reiðin og skilningur á fólki, góður vilji gagnvart fólki. Lýsingarnar á lífi foreldra hans á eyrinni, þegar faðir hans var veikur og móðirin með mörg börn að reyna að finna mat, hvernig dönsku kaupmennirnir lokuðu dyrunum, arðránið var algert og arðurinn fluttur til Kaupmannahafnar. Presturinn hjálpaði ekki heldur, heldur minnti móðurina á að dýrðina væri að finna í fokking næsta lífi!