27. nóvember 2012

Gelgjur snúa bökum saman í Svíþjóð

Mér finnst alltaf svolítið vandræðalegt að skrifa um bækur sem mér finnast frábærar, því einhverra hluta vegna finnst mér eitthvað pínulítið glatað við það að skrifa umfjallanir sem eru eintómar lofrullur. En stundum er það bara þannig að maður rekst á bækur sem maður finnur eiginlega ekkert til foráttu, sama hvað maður reynir. (Ég tek samt fram að ég á auðvitað ekkert við að bækurnar séu fullkomnar, heldur frekar að þær standast fullkomlega þær væntingar sem ég hafði til þeirra áður en lesturinn hófst og gott betur.)

Ég lauk í gærkvöldi við Hringinn eftir Mats Strandberg og Söru Bergmark Elfgren, sem er nýkomin út hjá Bjarti, og hef mikið verið að reyna að finna eitthvað til að kvarta yfir í þessari bloggfærslu. Að lokum varð ég að horfast í augu við að ég yrði að verða mjööög smásmuguleg og draga fram einhvern algjöran tittlingaskít sem skipti mig engu máli við lesturinn ef ég ætlaði að fara að fetta fingur út í eitthvað.

Mér fannst Hringurinn semsagt alveg ógeðslega skemmtileg. Þetta er fyrsta bókin í þríleik og hún fjallar í stuttu máli um nokkrar unglingsstúlkur í smábæ í Svíþjóð sem komast að því að þær búa yfir dularfullum kröftum og þrátt fyrir að vera mjög ólíkar og alls engar vinkonur (og sumar þeirra eru beinlínis óvinkonur) þá tengjast þær allar órjúfanlegum böndum. Þeim er sagt að þær verði að vinna saman gegn illum öflum sem eru að reyna að ná völdum, en þær eiga erfitt með að fyrirgefa gamlar syndir og yfirstíga allskonar gelgjutakta og fýluköst. En þegar þær komast að því að einhver dularfull vera er að reyna að taka allar í hópnum af lífi eina á fætur annarri neyðast þær til að horfast í augu við að þær verði annað hvort að útkljá vandamálin sín á milli eða hreinlega verða drepnar. Bókin er mjög spennandi og hæfilega ógeðsleg (þetta eina sem mér datt í hug að ég gæti kannski látið fara í taugarnar á mér ef ég virkilega reyndi var að mér fannst á köflum sumar persónurnar alltof rólegar yfir allskonar ógeði og krípí atburðum, en að sama skapi væri það ábyggilega pirrandi líka ef þær væru alltaf að velta sér uppúr því hvað þær væru hræddar) og ég fékk næstum því gæsahúð yfir fyrsta kaflanum, sem er mjög hrollvekjandi. En mér finnst aðalstyrkur sögunnar samt liggja í persónusköpuninni. Það eru margar aðalpersónur sem sjónarhornið flakkar á milli, og þær eru eiginlega allar mjög trúverðugar. Eineltisfórnarlambið Anna-Karin er til dæmis mjög eftirminnileg og lýsingarnar á niðurlægingunni sem hún hafði mátt sæta alla skólagönguna og allri innbyrgðu reiðinni sem síðan braust út voru mjög vel unnar. Bókaormurinn og besserwisserinn Minoo var líka skemmtilega komplexeruð týpa. Það var eiginlega bara Ída sem var svolítið ótrúverðug og illskiljanleg persóna, enda var sjónarhornið aldrei hjá henni heldur hjá persónum í bókinni sem hafa flestar óbeit á henni. Vonandi fáum við að kynnast henni betur í næstu bókum.

Hringurinn er löng, rétt rúmar 500 síður, en ég hefði ekkert viljað hafa hana styttri. Ég er nefnilega mjög hrifin af löngum bókum, sérstaklega þegar þær eru svona skemmtilegar. Ég hlakka mikið til að lesa hinar bækurnar í seríunni og bið ykkur því náðarsamlegast að fara og kaupa þessa bók eða gefa hana í jólagjöf og tryggja þannig að forlagið gefi líka út næstu tvær.

P.S. það er svo auðvitað okkar eigin Þórdís Gísladóttir verðlaunaskáld, barnabókahöfundur, stjörnuþýðandi og druslubókabloggari sem þýðir með glæsibrag!

1 ummæli:

Kristín sagði...

Ég fór eiginlega beinustu leið út í bókabúð hér í Svíþjóð og keypti bókina eftir að hafa lesið dóminn og varð ekki fyrir vonbrigðum. Ferlega skemmtileg - takk fyrir tipsið :D