
En hvað er að marka kannanir á lestrarvenjum? Um daginn fjölluðu spjallarar margra landa, þar á meðal Íslands, um rannsókn þar sem fram kemur að fólk lýgur ótæpilega um eigin lestur og viðurkennir að hafa þóst lesið bækur sem það hefur alls ekki lesið. Er ekki einhver mótsögn í þessu öllu? Gæti ekki fólk sem segist hafa logið bara verið að ljúga enn eina ferðina?
Þeir sem stunda félagsvísindarannsóknir reka sig oft á að lítið er að marka hvað fólk segir um sjálft sig og eigin hegðun. Jafnvel þótt menn trúi því sem þeir segja um sjálfa sig kemur oft í ljós þegar málið er kannað að eitthvað allt annað er í gangi. Þetta hefur til dæmis komið fram í ýmsum könnunum á málfari, fólk sem segist aldrei blóta hefur kannski verið staðið að því að láta út úr sér satanískan hroða og verður jafnvel steinhissa þegar upptaka með bölvinu og ragninu er spiluð fyrir það.
En ef við ákveðum að sleppa gríninu og trúa og leggja út af nýlegum athugunum á bókakaupum og lestrarvenjum þá má sjálfsagt alveg taka undir með þeim lífsstílsspekúlöntum sem segja að bækur hafi í auknum mæli öðlast hlutverk sem snúast ekki bara um að lesa þær. Bækur eru listaverk og safngripir, með bókaeign og lestri vilja menn sýna innri mann og staðfesta eigin sjálfsmynd. Bók getur auðvitað bara verið eins og hvert annað húsgagn sem er lítið notað í bili en á kannski eftir að komast í uppáhald einhverntíma seinna.
5 ummæli:
Þannig að það sé flott að eiga bækur uppi í hillu?
Eins og segir í góðri bók:
,,Fullkomlega ekta - hafa blaðsíður og allt. Ég hélt þetta væru aðeins tóm pappahulstur."
nei andskotinn, það getur ekki verið
Ég sanka að mér bókum sem ýmist hafa komið mér að gagni áður, en ég hef ekki átt, eða sem ég veit að geta komið mér að gagni síðar. Og ég ríf þær ekkert endilega úr plastinu fyrr en ég þarf að nota þær.
Í rauninni kann ég ekki að lesa.
Ég er svo lítið lygin að það háir mér stórlega.
Skrifa ummæli