16. mars 2009

Skotin/n í skáldsagnapersónu?

Um daginn las ég einhversstaðar innlegg frá íslenskum blaðamanni þar sem hann játaði ást sína á Lisbeth Salander. Sænsku bókahórurnar (það er krækja á þær á hægri vængnum) fjölluðu líka um daginn um ástir lifandi fólks á skáldsagnapersónum. Þær hafa að eigin sögn m.a. verið ástfangnar af Jonna í bókum Enidar Blyton, Tuma Sawyer og Gilberti í Önnu í Grænuhlíð. Lesendur hafa skrifað fjölmargar athugasemdir við færsluna (aðallega konur sýnist mér) og hafa að sögn elskað í leyni allskonar sögupersónur allt frá Herra Rochester, langa Jóni Silver og Sherlock Holmes til Síríusar Black og Jónatans Ljónshjarta. Þetta eru auðvitað áhugaverðar vangaveltur og því spyr ég: Hefur þú verið ástfangin/n af skáldsagnapersónu eða persónum og þá hvaða? Svör óskast í athugasemdakerfið - undir nafni eða ekki.

24 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Nú líst mér á ykkur! Já, það gerðist oftar en einu sinni á mínum yngri árum. Því miður man ég ekki nafnið á þeim sem ég var lengst ástfangin af. Hann var fiðluspilandi sígauni í bókinni Glitra daggir, grær fold eftir Selmu Lagerlöf. Ég átti með honum ógleymanlegar stundir í draumum, nætur sem daga :o)

Nafnlaus sagði...

Smá leiðrétting og viðbót - bókin er eftir Margit Söderholm. Fiðluleikarinn mun heita Jón.

Erna Erlingsdóttir sagði...

Ég kannast vel við hrifninguna á Jóni fiðlara í Glitra daggir, grær fold (sem er eftir Margit Söderholm).

Svo fæ ég alveg í hnén yfir myndinni sem fylgir þessum pistli, en þori ekki að fullyrða hvort ég er beinlínis skotin í Mr. Darcy eða hvort það er aðallega Colin Firth sem Mr. Darcy sem hefur þessi áhrif (úff, hvað ég er mikil klisja).

Svo eru að sjálfsögðu ýmsir kandidatar í Ísfólksbókunum. Villimey og Dominic eru meðal þeirra sem koma fyrst upp í hugann, held að það megi vart á milli sjá í hvoru ég hef verið skotnari.

Mér á ábyggilega eftir að detta eitthvað fleira í hug. Framhald síðar ...

Nafnlaus sagði...

Ég man eftir bíómyndinni, þar var Jón leikinn af Alf Kjellin, kv. Á.

Erna Erlingsdóttir sagði...

Er til bíómynd?!!!

Nafnlaus sagði...

Ég var skotin í Jesú í Biblíusögunum.

Erna Erlingsdóttir sagði...

Því má kannski bæta við að ég hef aldrei verið skotin í Jóni á Nautaflötum í Dalalífi, ólíkt mörgu kvenfólki sem ég þekki (og þrátt fyrir allar dásemdir Dalalífs). Ég er sennilega ekkert sérlega veik fyrir drykkfelldum flögurum.

Nafnlaus sagði...

Eftirminnilegasta persónan og sú sem ég hef verið skotin í lengst samfleytt er klárlega Jondalar í bókum Jean M. Auel um Þjóð bjarnarins mikla o.s.frv. Enda las ég allar þær bækur tvisvar og sumar þrisvar á tímabili...

Mjög skemmtileg pæling. En ég segi eins og Erna, framhald síðar!

Nafnlaus sagði...

Þetta átti alls ekki að vera nafnlaust, ég rak mig í takka.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ég er búin að liggja með hausinn í bleyti í ediki í allan dag og held að ég hafi aldrei orðið ástfangin af skáldsagnapersónu.
Ef Snúður í múmínálfunum væri ekki augljóslega náttúrulaus þá myndu hvatir mínar beinast til hans.

Nanna sagði...

Ég held ég verði að játa á mig að hafa verið frekar svag fyrir Jóni fiðlara líka á yngri árum. Mikill kvennaljómi, Jón.

Mig minnti að Kristmundur á Sjávarborg hefði þýtt bókina en það var nú ekki, hann þýddi aftur á móti einhverjar aðrar bækur Margit Söderholm.

Gisli sagði...

Best að viðurkenna mikla hrifningu á Ísold svörtu í ævisögu Kristmanns. Reyndar höfðu margar kvenpersónur hans áhrif á mig, barnungan og ómótaðan.

Nafnlaus sagði...

Skemmtilegar svona uppljóstranir! Sem unglingur var ég skotin í píanóleikaranum efnilega Patrik Pennington. Ég renni í gegn um bækurnar um hann reglulega og velti því stundum fyrir mér hvað hann sé að gera í dag. Ég vona svo sannarlega að lífið hafi farið vel með hann, Rut og Lúlla litla.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Þú segir nokkuð Steinunn Þóra, Patrick Pennington kom líka sterkur inn hjá mér. En það sem bremsaði mig í ástinni var ofbeldið - honum var of laus höndin.

Nafnlaus sagði...

Ég var alltaf svolítið svag fyrir Jonna og Finni í Ævintýrabókum Enid Blyton. Þó frekar Jonna, hann átti flottan, talandi páfagauk (Kíkí) en Finnur var alltaf með kóngulær á sér.
Tóti (Þórarinn Þórarinsson) skrifaði bloggfærsluna um ástina til Lisbeth Salander á dv-bloggi sínu.
P.s. Darcy er líklega sá sem mér hefur verið hlýjast til á fullorðinsárum.

Elísabet sagði...

ég var skotin í rauðhærðum rum sem hét Bill Ballantine. hann er, eins og allir vita, besti vinur Bob Morans.

HelgaFerd sagði...

Jónatan Ljónshjarta átti einn mína ást lengi eftir okkar fyrsta fund á jólum 1976. Er ekki frá því að Mark af Flambardssetri eða Patrick píanóleikari hafi haft hjarta mitt af Jónatani, líklega var það seiðandi útvarpslestur Silju sem afvegaleiddi mig.

Maríanna Clara sagði...

hvar á maður að byrja?
Karl Blómkvist (hinn ungi), Fnnur í Ævintýrabókunum (ekki Finnur í Dularfullubókunum) Hann gat talað við dýr for crying out loud! Timmý sem átti Lassie...gat kannski ekki talað við dýr en skildi samt yfirleitt á endanum hvað Lassie var að reyna að segja...Nú Flambardsetrið átti stað í hjarta mínu og þá líka píanóleikarinn Patrick eftir sama höfund.

Ísfólkið er svo bara kapítuli útaf fyrir sig...Tamlin djöfull næturinnar anyone?

Nafnlaus sagði...

Ég var svolítið skotin í Bjarna í Ráðgátubókunum eftir Enid Blyton.

Nafnlaus sagði...

Haha, Patrick Pennington hérna megin líka, og svo pínulítið í Tom Swift.

Þorgerður sagði...

Ég var alvarlega hrifin af Steinþóri í Sölku Völku þegar ég var unglingur...sem er pínu krípí...

Maríanna Clara sagði...

hrmf...það er margt krípí á þessum listum er ég hrædd um...

Erla Elíasdóttir sagði...

kem rosalega seint inn í þessa umræðu... en ég var hrikalega skotin í Jónasi í Ólátagötu - mig langaði hreinlega að heita Jónas á tímabili kringum sex-sjö ára aldurinn. Og er alveg sammála Þórdísi um Snúð.

Æsa sagði...

Þorgerður, sálufélagi minn! Ég hafi líka mikið dálæti á Steinþóri í SV. Datt ekki í hug að deila þeirri perversjón með neinum fyrr en ég sé þig opinbera þetta. Núna er ég hins vegar vaxin uppúr svona skotum og girnist því alls ekki menn eins og Advokat Bjurman...