23. mars 2009

mestu ógeðisbækurnar

Nanna matargúrú vísar á síðunni sinni á lista yfir ógeðslegan mat. Svona listar eru auðvitað margir til og sömuleiðis listar yfir vondar (og góðar) bækur. Einhvern slíkan vondubókalista rámar mig í að hafa nýlega séð þar sem Alkemistinn og eitthvað eftir Bukowski tróndu ofarlega ásamt Da Vinci-lyklinum. Það er alltaf gaman að rífast um hvaða bækur séu óbærilega vondar. Þorið þið að nefna mjög slæma bók eða bækur sem þið hafið lesið?

44 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Biblían

Eiríkur Örn Norðdahl sagði...

Ég þori ekki.

Erna Erlingsdóttir sagði...

Danteklúbburinn eftir Matthew Pearl sem Bjartur gaf út fyrir nokkrum árum var ótrúlega vond. Ég hætti næstum eftir 150 síður en þrjóskaðist við og skannaði afganginn í von um að hún myndi skána. Það reyndist borin von.

Af íslenskum skáldsögum síðustu ára kemur Lúx eftir Árna Sigurjónsson fljótt upp í hugann, þótt ég muni eiginlega ekkert eftir henni - fyrir utan hvað mér fannst hún leiðinleg. Mesta þrekraunin var þó sennilega AM 00 eftir Hjört Marteinsson og þá bók kláraði ég reyndar ekki. Ætli ég hafi ekki lesið um 200 síður en í minningunni eru þær á við tvöþúsund.

Gummi Erlings sagði...

Turninn eftir Steinar Braga (ég þori varla að segja þetta undir nafni, en vott the hekk). Tek fram að ég er mjög hrifinn af flestu (ef ekki öllu) öðru sem Steinar Bragi hefur gert.

Sigfríður sagði...

Þetta er eiginlega frekar hvaða bækur hef ég engan vegin getað klárað af einhverjum sökum ... kannski stundum afþví mér hafa fundist þær óbærilega leiðinlegar. Get nefnt nokkrar (þrátt fyrir óendanlega lélegt minni) svo sem Crying of Lot 49 (reyndi ótrúlega oft), Harry Potter (sofnaði alltaf yfir þessum óskupum, Harry bjó í öll skiptin sem mér rann í brjóst ennþá undir stiganum hjá familíunni þarna), og svo allt sem ég hef reynt að lesa eftir Kristínu Ómarsdóttur

Nafnlaus sagði...

Höfundur Íslands eftir Hallgrím Helgason. Ég var í einhverju þrjóskukasti og ÆTLAÐI að klára bókina (vegna þess hve margir voru hrifnir af henni) en komst ekki lengra en á síðu 200, þá missti ég meðvitund af leiðindum.

-þhs

Nafnlaus sagði...

Angels and Demons eftir Dan Brown.
Ég hafði lesið Da Vinci lykilinn í íslenskri þýðingu einn laugardagseftirmiðdag fyrir nokkrum árum síðan og undraðist hversu auðveldar þessar svokölluðu ráðgátur voru, en þær leysti ég allar á nokkrum sekúndum.
Síðan gerist það að ég er á flugvelli og ákveð að kaupa mér einhverja sjoppubók til að stytta mér stundir, en téð bók Browns var þá vinsælasta bókin í búðinni.
Þegar ég hóf lesturinn komst ég fljótlega að því að hún er bók af þeirri tegund sem einhver snillingurinn sagði að "it is not to be tossed aside lightly, but rather thrown at great force" sem ég og gerði í hver sinn sem ég reyndi að lesa þessa hörmung.
Gallar hennar eru tvennskonar: efni og stíll. Mér sýnist augljóst að íslenskur þýðandi Da Vinci lykilsins er stílsnillingur miðað við Brown, sem skiptist á að vera barnalega dídaktískur, heimskulega óljós og klunnalega óþægilegur. Verst af öllu þóttu mér þó staðreyndavillurnar sem öskruðu á mann á hverri síðu. Hvers konar fáviti heldur þessi höfundur að maður sé?

Ég get ekki verið sammála mati Sigfríðar. Mér hefur þótt Harry Potter stórskemmtilegur frá fyrstu tíð, en The Crying of Lot 49 er einfaldlega ein besta skáldsaga sem ég hef nokkru sinni lesið.

Nafnlaus sagði...

Belladonna skjölin er án efa einhver allara versta bók sem ég hef lesið.

Ég get ekki tekið undir að Englar og Djöflar sé jafn léleg og látið er að hér að ofan. Harry Potter las ég líka mér til ánægju.

Konungsbók eftir Arnald er með leiðinlegri íslenskum bókum sem ég hef reynt að þræla mér í gegnum.

Guðný

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ertu að grínast Eiríkur Örn? Er allur vindur úr þér?

Nafnlaus sagði...

Guðný: getur verið að þú hafir lesið Engla og djöfla í íslenskri þýðingu? Êg get ekki ímyndað mér að til sé sá þýðandi sem ekki myndi endurbæta þessa bók við að snara henni.

Harpa Jónsdóttir sagði...

Það koma vissulega margar til greina. En ég var reyndar að renna í gegn um bók sem er alveg óskaplegt rusl OG einstaklega illa þýdd líka. Sú blanda var svo skelfilega að hún var næstum heillandi. Þetta er Dauðrabýlið eftir Patriciu Cornwell. Já - gerið bara grín að mér, en ég er lasin og þarf stundum á léttmeti að halda. En þetta var reyndar einum (eða mörgum) of.

Ég komst ekki heldur í gegn um Höfund Íslands.

Eiríkur Örn Norðdahl sagði...

Jæja þá.

Höfundur Íslands.
Allar bækur íslenskra ljóðmódernista eftir 1990 (Hamri, Pétursson o.s.frv.).
Engar smá sögur e. Andra Snæ - henni grýtti ég frá mér í gólfið af feykilegu afli á sínum tíma.
Da Vinci, jamm.
Rauðir dagar Einars Más - og stórir kaflar af síðustu ljóðabók hans voru ólesanlegir (þó stórgott efni væri inni á milli).
Ég er búinn að berjast eins og hetja við að skilja hvað fólk sér við Blysfarir Sigurbjargar Þrastar - vegna þess að mér er ljóst að eitthvað sér fólk við hana. Ég hef enn ekki gefist upp, enda ljóst að ég er að missa af einhverju - en það er samt ansi mikill vindur úr mér og ég veit ekki hvað ég get haldið áfram lengi enn.
Svo er raunar ótrúlega mikið magn af ljóðabókum sem eru bara ekki nógu konsekvent til að maður sé að pönkast á höfundum þeirra. Stundum verða þessar bækur reyndar alveg yndislega góðar, þegar þær verða nógu vondar. Íslensk ljóðskáld mættu alveg vera verri í mörgu sem þau gera (af því svo margt sem þau gera er leiðinlegt).

Eiríkur Örn Norðdahl sagði...

Og jú, helvítis alkemistinn - ég held ég hafi komist á síðu ellefu eða tólf.

Nafnlaus sagði...

"This is not a novel to be tossed aside lightly. It should be thrown with great force."

-- Dorothy Parker (1893-1967)

Nafnlaus sagði...

Daggardropar eftir Kleópötru Kristbjörgu er það hörmulegasta sem ég man þessa stundina eftir að hafa lesið. Bókin er svo svakalegur hroðbjóðsmassi að hún nær því ekki einu sinni að vera skemmtilega vond eða fyndin (eins og sumar mjööög vondar bækur).

Nafnlaus sagði...

Lord of the rings.... hlýtur að vera leiðinlegasta bók í heimi.

ig

Þorgerður sagði...

Sammála EÖN, Alkemistinn er með agalegri bókum og það sama má segja um Ellefu mínútur eftir sama höfund. Í meira lagi ofmetið stöff.

Nafnlaus sagði...

Alkemistinn, Ellefu mínútur og Verónika ákveður að deyja eru andstyggilegar. Ég lauk reyndar ekki við þá síðast nefndu, ákvað að nóg væri komið og meintir töfrar Paulo Coelho ekki fyrir hendi. Af íslenskum bókum man held ég að mér þyki Fólkið í kjallaranum eftir Auði Jónsdóttur ein ofmetnasta sem ég hef lesið á síðari árum þótt hún sé nú langt frá því að vera sú lélegasta.

Nafnlaus sagði...

Hvet ykkur til að hlusta á upplestur Thors á Alkemistanum í hljóðbókarútgáfunni. Það er merkilegt reynsla sem ég hélt reyndar ekki út nema í hálftíma. Ekki bara vegna efnis sögunnar, heldur líka af því að karlinn gleymir alltaf að stoppa á punkti og fattar það þegar hann er kominn í miðja næstu setningu og stoppar þá.

Nafnlaus sagði...

Ég held því sama fram um Tryggðarpant og sá/sú á undan mér um Fólkið í kjallaranum, þ.e. hún er mjög ofmetin.

Nafnlaus sagði...

Gullið í höfðinu eftir Diddu ... hjálpi mér hvað það voru ömurleg skrif.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Það eru margar bækur annars ágætra höfunda sem ég hef ekki fallið fyrir. Ævisögu séra Árna Þórarinssonar eftir Þórberg nennti ég ekki að lesa og mér hefur aldrei fundist Sálmurinn um blómið sérlega skemmtileg þótt ég hafi lesið hana amk tvisvar (það er of mikil tilgerð í henni á köflum).

Einni agalega vondri verðlaunabók man ég líka eftir, hún heitir held ég Lífsklukkan tifar (mig minnti í mörg ár að hún héti Haustlaufin falla) og er smásagnasafn sem kom út á síðasta áratug. Algjört drasl sú bók.

Nýlegar ofmetnar bækur þori ég ekki að fara út í ;)

Nafnlaus sagði...

Ég hef lesið vond verk eftirtalinna höfunda sem ég man eftir í svipinn:
Ágúst Borgþór Sverrisson
Hallgrímur Helgason
Kristmann Guðmundsson
Eyvindur Eiríksson
Halldór Kiljan Laxness
Gerður Kristný
Auður Jónsdóttur
Guðrún frá Lundi

Í þessum lista felst þó ekki áfellisdómur yfir öllu höfundarverki þeirra. Snillingum mistekst og lesendur verða að glugga í vondar bækur annað slagið. Þeir kunna betur að meta þær góðu á eftir.

Páll Ásgeir Ásgeirsson

Erla Elíasdóttir sagði...

Murakami finnst mér þvílík leiðindi og Auður Jóns bara ekkert spes. Harry Potter sleppur, las þær allar nema síðustu og hafði nokkuð gaman af, þótt margt við þær fari hrikalega í taugarnar á mér. Og Ellefu mínútur var hroðbjóður!

krummi sagði...

Hobbitinn er jafnömurleg og The devil wears Prada. Alkemistinn held ég að komist líka ofarlega á listann. Mæli heldur ekki með Wonderboy eftir Henrik Langeland.

Gisli sagði...

Vondar/ofmetnar bækur.

Næstum allt sem Hallgrímur Helgason hefur skrifað eftir "Þetta er allt að koma." Höfundur Íslands fór í tunnuna eftir tvær tilraunir til að klára hana. Hr. Alheimur er á leið þangað. Aðrar hef ég snarlesið að hluta fyrir jólin.
Skuggabaldur er stórlega ofmetin.
Himnaríki og helvíti. Því miður. En hún náði mér ekki og ég gafst upp.
Allt sem Dan Brown hefur skrifað er slæmt. Da Vinci lykilinn var forvitnileg framan af en maður þarf víst að vera trúaður til að hafa áhuga á plottinu. Aðrar bækur eftir hann eru hrikalegar vondar.

Las fyrstu 3 Harry Potter bækurnar en gafst upp á fjórðu. Alltof langdregin og efnið löngu orðið óspennandi eftir 200 síður. Tek fram að fyrstu tvær voru frábærar.
Ég henti 20 bókum eftir Dick Francis fyrir 2 árum.
Stephen King hætti að vera góður fyrir löngu. Varla nothæfur í flugvélum. "Shining" var toppurinn.

Ég held hins vegar upp á Kristmann því hann er skemmtilega vondur rithöfundur.

Nafnlaus sagði...

Uss, prófið bara að lesa barna- og unglingabækur eftir nokkra íslenska karlmenn, Eðvarð Ingólfsson, Þorgrím Þráinsson og Helga Jónsson. Þá erum við sko að tala um vondar bókmenntir. Sá sem er þó LANG verstur er Sigurbjörn Þorkelsson.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Er ekki bara komið að góðubókalista?

Maríanna Clara sagði...

Eins og þetta hefðu verið góð lokaorð hjá Þórdísi má ég til með að bæta hér við:

Af barnabókum - Ármann Kr. Einarsson - Óskasteinninn var fyrsta bókin sem ofbauð barninu mér og las ég þó allt sem að kjafti kom.

Margur hryllingurinn leynist í bókaflokknum Unglingabækur og margir skelfilegir rithöfundar hafa þar gert stykkin sín - Fimmtán ára á föstu og Sextán ára í sambúð eru ekki einu sinni verstu dæmin.

Af fullorðinsbókum finnst mér Alkemistinn bera af í ömurlegheitum - ekki hvað síst af því ólíkt Da Vinci lyklinum og Potter (sem ég hafði reyndar mjög gaman af) þá lekur sjálfsánægjan og sjálfbirginsleg viskan af Alkanum - Paulo finnst hann greinilega mjööög djúpur höfundur.

Erna Erlingsdóttir sagði...

Ég hef aldrei lesið Alkemistann og bara ekki neitt eftir Paulo Coelho en fyllist svo mikilli forvitni við öll þessi komment að það kemur sterklega til greina að fara á bókasafnið á morgun og ná í eitthvað af skelfingunni.

En unglingabækurnar, úff, eitthvað af þeim hef ég lesið. Reyndar ekki Sigurbjörn Þorkelsson, það hef ég ekki lagt á mig, en Helgi Jónsson er beinlínis mannskemmandi. Það ætti að hýða hann á almannafæri.

Sigfríður sagði...

Jú, Þórdís - kominn tími á "góðubókalista". Mínar góðbækur eru t.d. þannig að ég drap metnaðarfullan leshring heldri dama þegar kom að því að lesa bókina sem ég valdi. Og olli almennri hneykslan þegar ég kvaðst ekki geta lesið Bill Bryson því hann skrifaði of stuttar setningar.

Erna Erlingsdóttir sagði...

Ég gleymdi að nefna að ég hata Shopaholic-bækurnar eins og pestina. Þótt ég hafi mikla afþreyingarbókaþörf og mikinn smekk fyrir alls konar rusli (þ.e. góðu rusli sem er allt annað en vont rusl, mikilvægt að gera greinarmun), þá meika ég þessar bækur engan veginn. Aðalpersónan er svo yfirgengilegur fáviti að ég ærist úr pirringi við lesturinn

Unknown sagði...

Leiddist Alkemistinn vissulega, og Sjálfstætt fólk hef ég ekki enn getað klárað. Hef gert tvær tilraunir, en bara þoli ekki Bjart í Sumarhúsum. Það reyndar segir kannski meira um þol mitt gagnvart ömurlegum karlmönnum en endilega um bókina sjálfa ...

Þórdís Gísladóttir sagði...

Finnst virkilega engum hér Alkemistinn skemmtilegur? Ég man eftir a.m.k. tveimur sem fannst þetta ágætisbók.

Nafnlaus sagði...

Ég minnist þess ekki að mér hafi þótt Alekmistinn neitt sérstaklega leiðinleg og ég las Engla og djöfla á íslensku í danskri sól og var hörkuspennt. Konungsbók Arnalds var hryllingur sem og Belladonna skjölin og Danteklúbburinn. En ég hef alveg misst af Fimmtán ára á föstu og þeim bókum öllum, og er að hugsa um að láta þær eiga sig, þó ég hafi tekið upp á því á gamals aldri að lesa Múmínálfana sem einhverra hluta vegna höfðu farið fram hjá mér.. Sigríður O

Nafnlaus sagði...

Mikið rétt Elías ég las Engla og Djöfla á íslensku :) Kanski það hafi gert gæfu muninn.

Las Alkemsitann (get lánað þér hana Erna) fannst hún nú langt í frá eins arfaslæm og fólk hér heldur fram. En ég skil heldur ekki hvernig hún gat breytt lífi einhverra algerlega eins og ég sá umfjöllun í Ophru einhverntímann. Allt í lagi saga en ekkert meira en það.

Get tekið undir að bækur eftir Sthephen King eru hreint hrikalega langdregnar og leiðinlegar allar nema Thinner, enda er það smásaga.

Guðný

Helga sagði...

Kvennamaður deyr eftir Óttar Guðmundsson

Nafnlaus sagði...

Ég las Alkemistann tvisvar í röð. það voru reyndar erfiðir tíma, það var ástarsorg og ég var miður mín eftir einhverja hryllingsbók um stríðshrjáða tvíbura í Austur-Evrópu. Alkemistinn róaði mig og gaf mér aftur trú á lífið svo mér þykir alltaf ógurlega vænt um þá bók. Aðrar bækur eftir Coelho hafa hins vegar valdið mér vonbrigðum.
Talandi um vondar bækur má nefna frönsku kvenbókmenntir síðustu ára sem fjalla flestar um kynferðislega misnotkun eða barnsmissi. Hræðilegar.
Góðar bækur. Hm. Dettur ekkert sérstakt í hug, jú, kannski Jón Kalman.
Kristín í París.

HT sagði...

Ég held að versta og leiðinlegasta bók sem ég hef lesið sé An american psycho eftir Bret Easton Ellis. Óbærilega leiðinlegur viðbjóður...

Nafnlaus sagði...

Mér fannst Fólkið í kjallaranum alveg óbærilega leiðinleg og það þarf ansi mikið til þess að ég nenni að lesa aðra bók eftir Auði. Ég reyndi líka einu sinni að lesa Stormland eftir Hallgrím en gafst fljótlega upp á henni. Vona að hætt sé við að gera kvikmynd úr þessum hryllingi. Himnaríki og helvíti var meira helvíti en himnaríki. Alltof tilgerðarleg. Ég var dauðþreytt eftir fyrsta kaflann. Bestu íslensku bækurnar sem ég hef lesið undanfarin ár eru hins vegar Áhyggjudúkkur Steinars Braga, Lömuðu kennslukonurnar eftir Guðberg og Hér eftir Kristínu Ó.

Nafnlaus sagði...

Ófétis Brýrnar í Madisonsýslu.
Ein versta bók sem ég hef klárað að lesa en nokkrar, jafnvel velmetnar verðlaunabækur, hef ég ekki haft af að komast í gegnum, t.d. Fólkið í kjallaranum. Brýrnar höfðu þó þann kost að við systurnar náðum sérlega vel saman í að býsnast yfir ósköpunum.

Þórdís K

Nafnlaus sagði...

Ó já satt segirðu systir ég hugsaði einmitt með mér um daginn að ég hefði gleymt að minnast á þá hreint hroðalegu bók Brýrnar í Madisonsýslu *hrollur*
Það eina góða við þá bók er einmitt hvað er hrikalega gaman að býsnast yfir hversu skelfilega léleg hún er frá A-Ö :)
Guðný

Kári Páll sagði...

Hard Times eftir Dickens. Algjör viðbjóður.

Ágúst Borgþór sagði...

Booker-verðlaunabókin árið 2007 er The Gathering eftir Anne Enright. Sú bók er eins og misheppnað uppkast. Hún nær aldrei flugi, fer aldrei af stað og er fullkomlega áhrifalaus og lífvana. Svona handrit sem hefði verið hafnað á flestum bæjum. Það er óskiljanlegt hvers vegna sú bók fékk umrædd verðlaun, maður spyr sig hvaða pólitík hafi verið þar á ferðinni. Og þetta er ekki bara einhver sérviska í mér. Löng umræða var um bókina á netinu í fyrra þar sem fjölmargir létu sömu skoðun í ljós og furðuðu sig á verðlaununum.