25. mars 2009

MSG bókmenntir


Eitt er að lesa lélegar bækur sem maður fleygir frá sér fullur vandlætingar að lestri loknum – en hvað með hinar slöppu bókmenntirnar – þær sem maður veit að eru drasl en getur samt ekki lagt frá sér? Þessar ömurlegu sem maður hneykslast jafnvel á meðan maður les en laumast samt sem áður í bókabúðina/bókasafnið um leið og þær klárast til að ná sér í næsta skammt...

Ég held að það sé MSG í sumum lélegum bókum (þetta á reyndar ekki síður við um lélegt sjónvarpsefni – ANTM anyone? CSI? – en við látum það liggja á milli hluta á svona virðulegu bókabloggi). Eins og með allan góðan MSG mat er tilhlökkunin og fyrsti bitinn bestur – síðasti bitinn er svo alltaf verstur og maður hugsar oftar en ekki: hvaða viðbjóð er maður eiginlega að láta ofan í sig? Þetta geri ég ekki aftur! Sú staðfesta helst svo í allt frá tveimur tímum upp í nokkra daga en þá fellur maður aftur!

Flestir ef ekki allir bókaunnendur sem ég þekki eiga sér slíkar sakbitnar nautnir og meðan sumir fara með þær eins og mannsmorð draga aðrir þær glaðhlakkalega að húni. Ósjaldan hefur maður séð sómakært og virðulegt fólk læðupokast fyrir framan glæpasöguhillurnar eða tvístígandi fyrir framan ástarsögurekkann í bókabúðunum. Eins og ein eldri kona sagði við mig á meðan hún hélt fast í Lee Child og Dick Frances: „ég þarf minn skammt!!“ Oftar en ekki finnur fólk sig í einhverri ákveðinni grein eins og reyfurum, chick lit eða fantasíu en einnig hef ég rekist á fólk sem er alætur á lélegar bókmenntir.

Sjálf hef ég ekkert að fela og æði út úr skápnum með Ísfólkið – good times – ásamt stórum haug af mislélegum reyfurum frá Mary Stewart og Phyllis A. Whitney til Josephine Tey, Ngaio Marsh og Kathy Reichs – að ógleymum auðvitað Harry Potter!

11 ummæli:

Erna Erlingsdóttir sagði...

Þetta er skemmtileg kenning. Mér finnst bráðnauðsynlegt að lesa alls konar drasl - en jafnnauðsynlegt að gera greinarmun á góðu drasli og vondu drasli. Þar er ólíku saman að jafna. Hver bók hefur sinn tíma (nema vonda draslið).

En ég veit ekki hvort ég er afbrigðilega forhert eða hvað - ég skammast mín bara ekki fyrir neitt sem ég hef gaman af að lesa. Ég er einlægur aðdáandi Ísfólksins (sem er ekki drasl, treysti mér til að verja það hvar sem er og hvenær sem er), hefur alltaf fundist Harry Potter æði (hann er sko ekkert drasl heldur) og gæti ábyggilega nefnt ótalmargt í viðbót ef ég væri ekki tóm í hausnum og myndi ekki eftir neinu.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Er MSG vanabindandi? Ég minnist þess ekki að hafa langað í mat með MSG - en kannski veit ég bara ekkert í hverju það er. Mig langar hinsvegar stundum í eitthvað sem er kryddað með dilli.

Maríanna Clara sagði...

Já - ég gæti ekki verið meira sammála þér - það er mikill munur á góðu og vondu drasli - og ég er nú reyndar á því að mitt drasl sé flest allt prýðilegt!

Maríanna Clara sagði...

Wake up and smell the coffie Þórdís! Það er MSG í skuggalega miklu - öllu snakki, mörgu nammi og kökum...hamborgurum og flestum skyndibita og Kínverskum mat...ah já - og svo var ég að komast að því að chili og engifersúpan sem ég ELLLLSKA á Asíu er líka með MSG...What´s a girl to do?

Nafnlaus sagði...

kynlífslýsingar heilla mig alltaf, sama hvursu léleg bókin er.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Kynlífslýsingar eru alltaf skemmtilegar. Mér finnst tilfinnanlegur skortur á þeim í nýlegum íslenskum skáldsögum. Ég á örugglega eftir að gera amatörlega úttekt á málinu einhverntíma en kynkulda tel ég eitt af vandræðaheilkennum íslenskra bókmenntapersóna.

Nafnlaus sagði...

gæti ekki verið meira sammála. hafa íslenskir rithöfundar ekki kynhvöt?

kynlífslýsing má vera helvíti léleg til að ég lesi hana ekki tvisvar (eða þrisvar).

Þórdís Gísladóttir sagði...

Nú er að spyrja skáldin og höfundana: Eruð þið nokkuð náttúrulaus krakkar?

Nafnlaus sagði...

Mér dugar nú alveg erótíkin sem bíður mín í hvert skipti sem ég fer á Borgarbókasafnið og er beðin um að stinga kortinu í rifuna.

Nafnlaus sagði...

Lítið er ungs manns gaman.

Hildur Lilliendahl sagði...

Bíddu, dularfullt. Annað hvort er athugasemdin mín horfin eða ég hef hætt við að skrifa hana. Ég vildi allavega segja að mér finnst (og takið eftirfarandi með fyrirvara) vera lesbískar kynlífssenur í hverri einustu nýju íslensku skáldsögu sem ég les. Og það fer óheyrilega í taugarnar á mér.