16. nóvember 2010

Darwin eldist ljómandi vel

170px-Charles_Darwin_by_G._Richmond250px-Charles_Darwin_seated_cropdarwin

Í fyrra voru liðin 200 ár síðan Charles Darwin fæddist í Shrewsbury á Englandi og einnig voru liðin 150 ár frá því verk hans um uppruna tegundanna kom út. Þetta var auðvitað haldið upp á um allar trissur og líka á Íslandi og nú hefur Bókmenntafélagið gefið út bókina Arfleifð Darwins; þróunarfræði, náttúra og menning þar sem þróunarfræðiþráðurinn er tekinn upp þar sem Darwin skildi við hann og raktar ýmsar hugmyndir og niðurstöður rannsókna síðari tíma. Í bókinni eru fjórtán greinar ritaðar af sextán íslenskum fræðimönnum á sviði líffræði, jarðfræði, trúarbragðafræði og vísindasagnfræði.

Lítið hefur hingað til verið skrifað um þróun lífvera á íslensku, en af því litla efni eru þrjár greinar eftir Þorvald Thoroddsen einna merkastar. Greinar hans birtust í Tímariti Hins íslenska bókmenntafélags 1887-1889, en tvær síðari greinarnar eru útdráttur úr 6. útgáfu Uppruna tegundanna. Þær voru endurútgefnar árið 1998 í lærdómsritinu Um uppruna dýrategunda og jurta með skýringum og ítarlegum inngangi eftir Steindór J. Erlingsson. Árið 2004 kom svo Uppruni tegundanna loksins út á íslensku í röð lærdómsrita Hins íslenska bókmenntafélags í þýðingu Guðmundar Guðmundssonar. Arfleifð Darwins ætti að höfða til fólks með áhuga á þróun lífsins og fjölbreytileika þess, sögu hugmyndanna og allra sem hafa áhuga á líffræði mannsins og stöðu hans í náttúrunni.

Ritstjórar bókarinnar eru Arnar Pálsson, Bjarni Kristófer Kristjánsson, Hafdís Hanna Ægisdóttir, Snæbjörn Pálsson og Steindór J. Erlingsson.

Þórdís

2 ummæli:

Sigfríður sagði...

Ótrúlega flott kápa á bókinni! Innihaldið sjálfsagt ekkert síðra þó það sé kannski ekki beint minn tebolli.

Þórdís sagði...

Já, flott er kápan. Hönnuðurinn heitir Bjarni Helgason.