8. nóvember 2010

Franskt reyfarahaust með Fred Vargas

Fred-Vargas-001bchhhcegcfEftir að hafa helgað líf mitt skandinavískum reyfurum í sumar setti ég í annan gír þegar fór að hausta og las tvær bækur eftir frönsku skáldskonuna Fred Vargas í prýðilegri þýðingu Guðlaugs Bergmundssonar. Þetta eru reyndar líka reyfarar en gjörólíkir norrænum frændum sínum – hér erum við víðsfjarri skandinavíska myrkrinu, kuldanum og alkahólismanum, í staðinn er hiti og ryk og já- reyndar eru aðalpersónurnar sötrandi vín meira eða minna frá fyrsta til síðasta kafla en í Frakklandi er það ekki alkahólismi heldur menning!

Fyrri bókin, Varúlfurinn, hefst í afskekktu þorpi í frönsku ölpunum – í takt við hitastigið og rykið er tempóið hægt. Helsta ógnin virðist til að byrja með vera hitinn en persónur eru í sífellu að hóta því að núverandi veður sé „bara byrjunin“. Í raun og veru byrjar bókin svo rólega að ég gleymdi því eiginlega að ég væri að lesa spennusögu og fór að gefa meiri gaum að persónu- og landslagslýsingum sem kom alls ekki að sök. Það kemur þó að því að ókyrrð kemst á þorpið vegna dularfulls vargs sem leggst á sauðfé og síðar fólk en það er hins vegar komið fram í miðja bók áður en áþreifanlegur glæpur er framinn og áður en stjarna séríunnar – Adamsberg lögregluforingi – stígur fram á sjónarsviðið.

Adamsberg er skemmtilega ólíkur Erlendi, Harry Hole og í raun helstu rannsóknarmönnum bókmenntanna. Sherlock Holmes hefði varla virt hann viðlits þar sem Adamsberg gefur lítið fyrir rökvísi og afleiðuaðferðina frægu. Í staðinn treystir hann alfarið á innsæi sitt og leið hans til að leysa málin má helst líkja við það þegar maður horfir á 3D mynd í bók og veit að myndin verður fyrst greinileg þegar hægt er að horfa á hana nógu lengi til að hún fari úr fókus. Adamberg er sífellt að fara í langar gönguferðir og leyfa huganum að fljóta til að þess að hann geti séð mynstrið sem óumflýjanlega finnst í þeim flóknu glæpamálum sem á fjörur hans rekur. Þetta ferli tekur mjög á taugar hans helsta aðstoðarmanns sem líður ekki verulega vel nema hann geti skrifað allt í exel.

En Adamsberg er skemmtileg týpa og lesandinn kynnist honum enn betur í næstu bók – Kallaranum – sem kom út í sumar. Þar er hann nýfluttur í nýjar bækistöðvar – búið að hækka hann í tign og hann reynir eftir nýstárlegum leiðum að leggja andlit og nöfn undirmanna sinna á minnið: „-Noel, endurtók Adamsberg um leið og hann reyndi að leggja andlit hans á minnið. Ferkantað höfuð, fölur á vanga, ljóst burstaklippt hár og eyru í stærra lagi sama sem Noel. Þreyta, dramb, hugsanlegur hrottaskapur sama sem Noel. Eyru, hrottaskapur, Noel“ (bls. 39 í Kallaranum). Þar eru það ekki varúlfar sem fólk þarf að óttast heldur plágan, svartidauði, sem lagði Evrópu nánst í rúst fyrr á öldum og hefur nú óvænt látið á sér kræla aftur.

Það er þó ekki endilega Adamsberg, skemmtilegur sem hann er, sem stendur upp úr persónugalleríi bókanna. Í hvorri bók fyrir sig skapar Vargas lokaðan heim sérkennilegra en sannfærandi persóna og lesandinn fylgist með áhrifunum sem glæpirnir hafa í þessum litlu samfélögum. Í Varúlfinum leggja ungur ættleiddur drengur, ævagamall fjárhirðir, stór hundur og ung kona uppí langferð en í Kallaranum kynnumst við samansafni af utangarðsfólki sem leigir herbergi hjá dularfullum eldri manni. Það eru þessar persónur, þeirra innra líf og skemmtilegar samræður sem gera bækurnar áhugaverðar. Þær tengjast líka þessu rólega tempói sem einkennir Vargas – það þarf tíma og rúm til að leyfa þessu fólki að lifna á síðunum og á meðan verða allar sprengjur og bílaeltingaleikir bara að bíða róleg.

Maríanna Clara

Engin ummæli: