22. nóvember 2010

Dekur á Koppi

Kvöldlesningunni á heimilinu áskotnaðist feikna skemmtileg bók á dögunum. Bræðurnir Breki og Dreki frá Furðufirði eftir Aino Havukainen og Sami Toivonen snöruðu sér inn á heimilið og hafa haldið uppi taumlausri gleði með kostulegum uppátækjum sínum.

brekiogdrekiBókin fjallar um ærslabelgina Breka og Dreka sem fyrir misskilning eyða degi á leikskólanum Koppi. Bræðurnir höfðu hugsað sér að eiga dekurdag á baðhúsinu Kroppi og telja sig vera stadda þar. Á baðsloppum með sundgleraugu fara þeir í gegnum fasta liði leikskóladagsins eins og um meðferðir í baðhúsi væri að ræða. Hjá bræðrunum verður sandkassinn að dásamlegu leirbaði og pollagallinn að sérhönnuðum búningi fyrir spa-meðferð. Leikskólabörnin á Koppi taka þessum nýju leikfélögum fagnandi og þegar upp kemst um miskilninginn setja þau alla sína orku í að koma þeim á baðhúsið. Söguþráðurinn er fjörugur og textinn lipur og fyndinn í þýðingu Druslubókadömunnar Þórdísar Gísladóttur.

Hjónin Aino Havukainen & Sami Toivonen eru myndlistarmenntuð og vinna saman bæði texta og myndir í bókum sínum. Það kemur ekki á óvart að þau hjónin segjast halda upp á bækur Richard Scarry því að eins og hjá honum er hver myndaopna fyllt til hins ýtrasta. Hér fær athyglisgáfa lesandans nóg að gera. Það er auðvelt að gleyma sér við að leita uppi fyndin smáatriði í litríkum myndunum. Hliðarfrásagnir leynast einnig víða. Eitt leikskólabarnið getur til dæmis alls ekki talað
fyrir geipilega stóru snuði en reynist ef vel er að gáð tjá sig lipurlega á latínu
með ýmsum ráðum.

DB-har

Breki og Dreki í leikskóla er ekki síst frábær bók fyrir foreldra. Eins og við þekkjum þá er það drep skemmtilegra bóka að þurfa að lesa þær aftur og aftur. En höfundarnir halda áhuga eldri lesenda ekki síður en þeirra yngri með aragrúa af óvenjulegum vísunum. Við höfum nú lesið Breka og Dreka í leikskóla á hverju kvöldi í marga daga og erum enn að uppgötva eitthvað nýtt. Síðast var það bleyjusugan.

Helga Ferdinandsdóttir

2 ummæli:

GH sagði...

Ég bíð enn eftir því að einhver leysi gátuna um Unu.

HarpaJ sagði...

Mikið líst mér vel á þessa!