11. nóvember 2010

Graðir andarsteggir og fleiri borgarbúar

hendurÞrjár hendur eftir Óskar Árna Óskarsson las ég með síðbúna morgunkaffinu mínu rétt áðan. Bókin er safn stuttra nafnlausra ljóða, myndir af atburðum og því sem fyrir augu ljóðmælandans ber á ferðum hans, oft er hann á rölti um bæinn. Í því fyrsta segir frá langt að komnum harmónikkuleikara á Laugaveginum sem veltir því fyrir sér af hverju fólki liggi svona mikið á, á næstu síðu er sagt frá auglýsingu um herbergi til leigu í kjallara í Norðurmýri og því að fáum dögum síðar sé búið að líma svartan plastpoka fyrir kjallaragluggann, einhversstaðar er sagt frá þvottaklemmum sem hangið hafa úti allan veturinn, þremur köttum sem læðast í bakgarði og afgreiðslustúlka í Góða hirðinum kemur líka við sögu í bókinni ásamt dulurfullum manni frá Austurlöndum sem ferðast um í Vesturbænum með túrban á höfði.

Þeir sem lesið hafa það sem Óskar Árni hefur áður skrifað kannast við fílgúdd-tóninn í bókum hans. Það er huggulegt andrúmsloft og ljúfur tónn í ljóðunum og ýmislegt skemmtilegt sem kemur á óvart. Ef fólk er að leita að pönki eða byltingu þá eru Þrjár hendur ekki málið en með morgunkaffinu, þegar maður er að róa sig niður eftir að hafa lesið yfir sig af heimskulegum netpistlum og Eyjukommentum, eða rifist við góða feisbúkkvini um bann við hænsnahaldi í borgum, er bókin róandi innspýting frá nærgætnum smáskammtalækni.

Hitti aldrað ljóðskáld í Austurstrætinu
komdu með út í Hljómskálagarð
segir hann og lyftir brúnum bréfpoka
við setjumst á bekk við Tjörnina
súpum á og horfum þegjandi á fuglana
svo togar hann í skeggið
hallar sér að mér og hvíslar
Andarsteggirnir eru víst býsna graðir núna

Þórdís

Engin ummæli: