21. nóvember 2010

Hrá hjörtuMér finnst yfirleitt mun erfiðara að segja eitthvað um bækur sem mér finnst góðar en bækur sem mér finnst lélegar eða bara svona la-la. Það er ekki – eða allavega ekki bara – vegna þess að ég uni mér best við að níða skóinn af öðrum, heldur af ótta við að skemma eða gengisfella þessar góðu bækur á einhvern hátt með banal athugasemdum eða klisjum sem þær hefðu vel getað verið án. Ég ætla að reyna að gera það ekki, og lýsi því einfaldlega yfir til öryggis að ég var mjög hrifin af Doris deyr eftir Kristínu Eiríksdóttur.

Bókin er safn tíu smásagna sem fjalla allar um manneskjur. Þetta eru ekki bara karakterar sem eru þarna af því að einhver þarf að segja eitthvað eða gera eitthvað í sögunni heldur fjalla sögurnar beinlínis um það að vera manneskja, með öðrum manneskjum, í ólíku samhengi. Þær eru vægðarlausar (svo ég noti sama orð og textinn á bókarkápunni, með þeirri afsökun að hann er óvenju vel heppnaður) að fleira en einu leyti; aðstæður eru oft erfiðar og drungalegar, jafnvel fullar af ofbeldi, og frásögnin mjög afhjúpandi gagnvart þeim breysku manneskjum sem lenda í þessum aðstæðum, af eigin hvötum eða annarra. Hins vegar er sagan líka sögð af skilningi í garð persónanna, sem skapar jafnvægi i frásögninni og ljáir þeim reisn og von – og kannski manni sjálfum sem lesanda í leiðinni.

Eins og eðlilegt er með flokk af sögum sitja þær missterkt í manni, en þegar ég ætlaði að fara að telja þær upp sem mér fannst bestar voru þær samt of margar, sem hlýtur að vera góðs viti. Stelpan með hráa hjartað sem fer afsíðis og þambar bjór, Evelyn sem fer að gráta yfir niðurlægingu stelpunnar sem á alveg eins úlpu og hún, saga af flugmanni og flugfreyjum sem gerði það að verkum að ég horfði sjúklega tortryggin á alla starfsmenn flugvélarinnar þegar ég fór til útlanda um daginn og ímyndaði mér um þá alls konar hluti.

Ég veit aldrei hvernig ég á að enda svona, en þetta er frábær bók, og sönn, mér þykir strax vænt um hana og mér finnst að þið ættuð að lesa hana. Ég sá að Kristín sagði í DV um daginn að af frægum manneskjum vildi hún helst hitta Britney Spears til að geta skrifað ævisögu hennar og ég held að það væri í fúlustu alvöru mjög góð hugmynd. Fyrir utan það hvað „ljóð – smásögur – ævisaga“ væri skemmtilegt tvist held ég að niðurstaðan gæti orðið verulega töff.

Kristín Svava

Engin ummæli: