24. nóvember 2011

Glæsir, eða maðurinn sem aldrei brosir

Aðalpersóna bókarinnar Glæsir eftir Ármann Jakobsson situr í manni lengi eftir lesturinn. Hún er þríklofin – í bola, draug og mann. Hvert brot um sig lifir sinni tilvist eftir lögmálum þess forms sem það hefur tekið. Nautið Glæsir rymur, draugurinn Bægifótur skelfir og maðurinn Þórólfur ágirnist.

Ármann byggir skáldsögu sína á atburðarás í Eyrbyggju sem ég hafði ekki lesið þegar ég fékk Glæsi í hendurnar. Fyrir ykkur sem eru í sömu sporum þá fjallar Eyrbyggja að miklu leyti um Snorra goða Þorgrímsson og hvernig hann kemst með klókindum frá litlum efnum til mikilla metorða á Snæfellsnesi í kringum árið 1000. Eyrbyggja er einnig mikil ættar- og héraðssaga með ógrynni persóna og hliðarfrásagna. Ármann Jakobsson er íslenskufræðingur og kennari við Háskóla Íslands. Hann hefur sérhæft sig í miðaldabókmenntum og hefur yfirgripsmikla þekkingu á efniviði Eyrbyggju og tímabilinu sem Glæsir á að gerast á. Það er því eðlilegt að spá í það hvort lesandinn þurfi að þekkja Eyrbyggju eða vera eitthvað inní fornaldarbókmenntunum til að hafa gaman af sögu Ármanns.

Sagan Glæsir er að hluta endursögn á köflum úr Íslendingasögunni, sums staðar nær bein endurtekning og að hluta nýspunnin frásögn. Glæsir, Bægifótur og Þórólfur eru allir persónur í Eyrbyggju, en í höndum Ármanns stíga þeir fram sem ein og sama veran, eiga sömu minningarnar og hafa sömu harma að hefna.

„En vitaskuld er ég ekkert naut. Ekki maður heldur. Ég er ekki einu sinni ég.

Spurðu mig fremur hver ég var.

Ekkert af þessu skil ég lengur. Þið skuluð ekki halda að skilningur manns á eigin tilvist glæðist eftir dauðann. Hann dofnar ef eitthvað er. Ég veit aðeins hver ég var og þó varla. Ekki veitir af löngum vetrarnóttum í fjósi til að rifja það upp.

Eitt veit ég þó. Ég veit til hvers ég er hérna. Ég er kominn hingað til að drepa.

Það kann ég.“ (8)

Sagan hefst í fjósinu þar sem nautið Glæsir rifjar upp fyrri tilvist sína sem Þórólfur Bægifótur og rekur atburðina sem skópu örlög hans. Nautið man í byrjun óljóst eftir þeim dögum sem það lifði áður og frásögnin kemur í slitrum. Gegnum minningabrot bola eru helstu persónur kynntar til sögunar og byggð upp spenna hjá lesandanum gagnvart þeirri atburðarás sem leiddi til þess að Þórólfur endurholdgast sem Glæsir.

Ármann hefur valið frásögninni óvenjulegt sjónarhorn. Þórólfur Bægifótur er eitt af illmennum fornbókmenntanna. Hann átti sér fáa unnendur og lifði eftir blóðugum lögmálum víkings af „gamla skólanum“. Það er óvænt og hressandi að lesa sögu sem er hvorki sögð frá sjónarhóli hetjunnar né and-hetjunnar heldur illmennis sem hefur fátt sér til málsbóta í misgjörðum sínum. En Þórólfur er erfið aðalpersóna að glíma við enda flestum ógeðfellt að setja sig í spor fámáls ofbeldismanns í sjálfsréttlætingarkreppu.

Höfundur bregður upp napurri mynd af ömurlegri bernsku Þórólfs, sem ætti að vera til þess fallið að kveikja með okkur samúð og leysa þennan fornkappa úr þeim tvíhyggjufjötrum góðs og ills sem Eyrbyggja hefur læst hann í. Þórólfur flúði ungur frá Noregi og lagðist í víking með frændum sínum en elti svo móður sína til Íslands og gerðist þar landnámsmaður, eða réttara sagt skorar hann aldraðan höfðingja á hólm, vegur hann og nær þannig undir sig landnámsjörð. En Þórólfur kemst ekki klakklaust frá hólmgöngunni. Hann hlýtur alvarlegt fótarmein og er uppfrá því kallaður Bægifótur. Þessi fötlun hefur í meðförum Ármanns grundvallaráhrif á persónu Þórólfs sem veitir lesandanum innsýn inn í hugarheim hans.

„Ég skildi ekki þá að örvæntingin grefur sig niður í öndina og jafnvel þegar hún fer skilur hún eftir sig tóm. Í það tóm sáir illskan sér.

Ég sat lengi á mér og engan grunaði neitt. En í hvert sinn sem ég gekk af stað og þurfti að draga á eftir mér fótinn, fylltist ég vonsku sem dreifðist ört um allan líkamann. Það var sú illska sem að lokum heltók mig.“ (69-70)

Ármann Jakobsson hefur víða fjallað um birtingarmyndir fötlunar í skáldskap. Árið 2007 flutti hann á fyrirlestraröðinni Listir, menning og fötlun Í Norræna húsinu erindið „Hver er hræddur við handalausa manninn?“ Í því erindi sagði Ármann: „Fötlun táknar hverfulleika hinnar ímynduðu fullkomnunar okkar og þess vegna ógnar fatlaða manneskjan þeirri ófötluðu. ... Ótti af þessu tagi er drifkrafturinn á bak við fötluð illmenni.“ Fötlun Þórólfs gerir hann að illmenni og með helti sinni ógnar hann veröld hinna fullkomnu. Í sögusviði Glæsis eru það erfðaprinsar Íslands, goðarnir Snorri og Arnkell.

Eftir að hafa haft hægt um sig í áratugi til að stunda búskap og fésöfnun þá er eins og illskan sjóði upp úr eftir að hann lætur eitt sinn draga sig til þings, þá orðinn aldraður maður. Þórólfur unir sér illa á Alþingi þar sem baktjaldamakk og lagaklækir hafa tekið við af heiðarlegu ofbeldi. Valdið er ekki lengur einvörðungu fengið með ofbeldi eða vígum heldur þarf höfðingi að kunna skil á lögum og geta látið þau vinna fyrir sig. Þórólfur, sem hefur lært að treysta á vöðvamátt sinn og herkænsku, er ekki sterkastur á svellinu þegar kemur að lagaklækjum. Hann á því erfitt með að sjá í gegnum flókna kænskuleiki ungu glæsimennanna Snorra og Arnkels. Og allra síst skilur hann hlutverk sitt í þeim.

Þórólfur hefur líka á tilfinningunni að þessir ungu menn hafi sig og fötlun sína að athlægi: „Og nú sá ég að út um allt tjald gutu menn augunum til mín með háðsglott á vörum. Hér var farið með flimtan á minn kostnað. Sat ég þó og enginn gat að þessu sinni fengið ánægju að því að horfa á mig draga fótinn á eftir mér.“ (87) Mögulega voru menn að hlæja að Þórólfi, en hann brosir við engum, er fáorður og gerir sig óárennilegan. Þrátt fyrir það svíður honum að enginn gefi sig á tal við hann. Þórólfur Ármanns er einmana og heftur tilfinningalega. Maður sem sér ekki hið góða þegar það birtist honum og hafnar öllum, jafnvel syni sínum. Hann er meistari sjálfsréttlætingarinnar. Hann réttlætir fyrir sér hvers kyns níðingsskap, morð, nauðganir og stuld. Öll atvik umbreytast í kollinum á honum, minnsta höfnun blæs upp í fjandsamlega lítilsvirðingu, en á sama hátt er honum ómögulegt að sjá eigin misgjörðir réttum augum.

„Ambáttir lét ég aldrei hýða nema eina sem kenndi mér barn sem verkmaður átti. Ég beið uns barnið var fætt og var hún þá hýdd svo rækilega sem karl væri en síðan send burt. Best hefði verið að hýða konuna líka fyrir að senda mér tóninn og trúa þessari kvensnift. En eftir að ég hafði látið hýða ambáttina einn góðan sunnudag sagði konan aldrei neitt framar og mér voru engin börn kennd eftir það.

Þannig var ég sanngjarn og mildur húsbóndi.“ (103-104)

Svona menn geta ekki legið í friði eftir dauða sinn. „Aðeins illmenni verða að tröllum …. Illskan skapar tröllið. Dauðinn einn nægir ekki.“ (158) Þórólfur gengur aftur sem hinn ógurlegi Bægifótur og þá fyrst keyrir illskan um þverbak. Draugalestin ríður húsum og drepur þá sem fyrir verða. Bægifótur, Þórólfur og jafnvel nautið, allir skilja eftir sig blóðuga slóð.

Glæsir var hæg í gang og stíllinn stirður í upphafi þar sem boli rymur á básnum og man lítið eftir sínu fyrra lífi, en eftir því sem líður á liðkast og lyftist frásögnin. Ármanni tekst að mínu viti best upp þegar hann fjarlægist endursögnina og skáldskapurinn verður hans eigin smíði. Hann hefur með frumlegum hætti ofið heilsteypta og spennandi frásögn úr þessum forna efniviði. Maður þarf alls ekki að kunna skil á Eyrbyggju til að kunna að meta Glæsi en hún var samt það næsta sem ég las.

Í lok bókarinnar er farið af mikilli næmni og tilfinningu með lífsuppgjör og yfirbót Þórólfs. Svo mjög að þar náði þessi forni kappi loks tökum á mér og ég táraðist yfir Glæsi og þeim örlögum sem mannskepnan getur skapað sjálfri sér.

Helga Ferdinandsdóttir

1 ummæli:

Arndís Dúnja sagði...

Alveg sammála - karlhelvítið sest að í hausnum á manni!

Ég er búin að vera mjög hugsi eftir lestur bókarinnar, hvað nákvæmlega gerir hana svona flotta. Það er fyrst og fremst persónusköpun Þórólfs, og svo þessi leiftrandi flotti stíll. Söguþráðurinn verður mikið aukaatriði.

Fyrst fannst mér Þórólfur dásamlega skemmtilegt geðvont gamalmenni, svo varð mér svo meinilla við hann að mig langaði að drekkja bókinni og að endingu upplifði ég mjög svipaðar tilfinningar og Helga. Verulega magnað stöff.