14. nóvember 2011

Tvær fréttir frá fréttaveitu Druslubóka

Þórdís og Kristín Svava fóru fyrir hönd druslubókakvenda á fund Síðdegisútvarps Rásar 2 í dag og ræddu stuttlega um bókabloggið og jólabækurnar.

Að öðru leyti er vert að vekja athygli á pistli Stefáns Snævarr um ljóðaupplestur á bókamessunni í Iðnó í gær, sunnudag. Stefán - sem er heimspekingur en hefur einnig gefið út ljóðabækur - er satt að segja ekki par hrifinn. Honum þótti skáldskapur flestra skáldanna keimlíkur og lítið skilið eftir til túlkunar:


„Ferðalög um sveitir landsins koma mjög við sögu, allra helst bílferðir, uppáferðir kannski líka en í hófi.

Ljóðin eru einatt glettnisleg en ögn nostalgísk, smá háð um samtímann í blandi við svo litla sveitarómantík.

Pólitík kemur lítið við sögu og alls ekki stjórnmál í öðrum löndum en Íslandi. Sneitt er hjá frumspekilegum vangaveltum og almannlegum tilvistarvanda.

Ódýrir orðaleikjabrandarar koma í stað myndhverfinga og líkinga, ljóðin eru öldungis laus við seið.“

Druslubókadömur höfðu ekki fulltrúa á staðnum allan tímann og geta því ekki lagt kalt mat á afstöðu Stefáns en vilja gjarnan fá viðbrögð í kommentakerfi (helst aðeins minna biluð komment en á Eyjunni). Eru íslensk ljóð bara eitthvað svona glettnislegt la-la? Er ekkert í þessu?

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hefur Stefán ekki ort ljóð sjálfur? Hvers vegna kemur hann ekki með dæmi um einhverja djúpa snilld frá eigin brjósti?

Kári Tulinius sagði...

Já, vá... þessi Eyjukomment...

Allavega, ljóð... sko... tískan hefur sín átök í ljóðaheiminum, jafnvel hjá staðföstustu skáldum, þannig að það er ekkert skrítið að skáld sem yrki á sama stað á sama tíma virki oft keimlík. Þannig að svo geti verið að rétt sé hjá Stefáni að íslensk staðalljóðabók nútímans sé eitthvað á þá leið sem hann lýsir. Að því sögðu þá get ég hugsað mér slatta af núlifandi ljóðskáldum íslenskum sem hægt væri að raða saman í eitt kvöld án þess að ljóðmál þeirra skaraðist mikið (til að taka sex dæmi: Ragnhildur Jóhanns, Bjarni Gunnarsson, Elías Knörr, Halldóra Thoroddsen, Þorsteinn frá Hamri og Sigurbjörg Þrastardóttir). Hugsanlega gæti þarna verið einsleitri uppröðum verið um að kenna. Reyndar, þegar ég skoða í skápinn hjá mér þá eru ekki margar ljóðabækur sem falla að þessari lýsingu Stefáns, þó hún hljómi ekki ókunnuglega.

Nafnlaus sagði...

Ég var þarna og sá Sigmund Erni, Sindra Freysson og Ingunni Snædal. (Ég þurfti síðan að fara).

Sigmundur og Sindri voru óneitanlega með keimlík ljóð, báðir að setja í orð minningar sínar úr sveitum, myndirnar, hljóðin og upplifanirnar. Báðir lásu af miklu öryggi og það var gaman að hlusta.

Ingunn Snædal las ljóð sem voru hnyttin og fjölluðu um það að alast upp sem "strákaleg" stelpa í sveit. Stundum var eins og hún væri að segja brandara en ekki ljóð. Sem er leiðinlegt af því að fyrsta ljóðið í bókinni hennar er mjög flott, og tengist þessu ekkert.

Það er rétt að ljóðin voru "glettnisleg en ögn nostalgísk, smá háð um samtímann í blandi við svo litla sveitarómantík", ekki er hægt að neita því. En það er ekkert slæmt. Er einhver krafa að ljóð þurfi að vera pólitísk?

Fólk finnur í ljóðum það sem það leitar að, og ég gat ekkert sett út á ljóð þremmeninganna.

Ef til vill ætti Stefán bara að lesa texta hljómsveitarinnar Rage Against the Machine. Nóg af ádeilu og pólitík þar.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ég man eftir þó nokkrum ljóðskáldum sem þessar fullyrðingar Stefáns eiga ekki við um, t.d. Kristínu Svövu og Eirík Örn. En þetta er svosem ekkert algalið hjá honum.

Nafnlaus sagði...

Frumspekilegar vangaveltur og almennur tilvistarandi eiga að mínu mati eingöngu rétt á sér í ljóðum fólks sem er undir 17 ára aldri eða svo. Hins vegar get ég vel skilið að honum hafi leiðst að hlusta á mjög mörg ljóð um bílferðir.

Ragnhildur.

Nafnlaus sagði...

Ég var að lesa þarna sjálf svo ég er kannski ekki alveg hlutlaus (gæti mögulega átt sök á ódýru orðaleikjabröndurunum), en mér finnst þetta bara frekar áhugavert hjá honum Stefáni. Menn leggja ekki oft í svona konkret gagnrýni á innihald ljóða.

-Kristín Svava

Þórdís Gísladóttir sagði...

Mér finnst þetta líka alveg íhugunarvert hjá honum, en það hefði verið mun áhugaverðara ef Stefán hefði tínt til einhver dæmi. Ætli hann sé mjög vel lesinn í íslenskri nútímaljóðlist? Hann á tæpast bara við það sem hann sá í Iðnó, eða er þetta bara svona almennt og illa ígrundað fjas?

Kristín Svava sagði...

Einmitt - ég legg til að við skorum hér með á Stefán að gera meira úr þessu, skrifa helst vandaða bloggfærslu með dæmum!

Þórdís Gísladóttir sagði...

Já, Stefán Snævarr, komdu með dæmi!