20. mars 2012

Ókeypis rauðvín og brostnar vonir: sannleikurinn um bókmenntaverðlaunaathafnir.

Ég sá ekki fólkið á sviðinu fyrir fólki.
Í dag birtist á bókablogginu Subbuskapur og sóðarit skemmtileg færsla eftir Þórarin Leifsson um það þegar hann fékk ekki menningarverðlaun DV. Þegar ég las lýsingar Þórarins á stemmingunni í Iðnó varð mér hugsað til þess þegar ég fékk að fara sem deitið hennar Kristínar Svövu í Listasafn Íslands þegar tilkynnt var um tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Ég var náttúrulega gífurlega spennt yfir þessu öllu saman enda hafði ég aldrei áður verið í herbergi með jafnmörgum risum hins íslenska bókmenntaheims, skjálfandi lítið eitt með ókeypis rauðvínsglas í hönd. Upplifun mín var eðli málsins samkvæmt ólík upplifun Þórarins – ég þekkti frekar fáa sem þarna voru mættir og enn færri þekktu mig (allavega þannig að þeir segðu hæ, skiljiði). Maður átti nú samt nokkur góð augnablik þar sem maður náði augnsambandi, brosti vandræðalega en horfði snögglega undan og flýtti sér að fylla á glasið. Það var gaman.

Skemmtilegast þótti mér þó að tala við skáldin sem voru ekki tilnefnd og stóðu lúpuleg aftast með mér. Þau sáu ekki sviðið (vildu það heldur ekki) og frussuðu út úr sér víninu á meðan þau baktöluðu hin skáldin. Sum þeirra töluðu um samsæri, önnur voru sannfærð um að enginn myndi nokkurn tíma kunna að meta þau. Ég fékk nokkur þeirra til að stilla sér upp á mynd með því skilyrði að hún yrði ekki birt á netinu, en ég get bara ekki setið á mér lengur.

Skáld í fýlu.
Lesendur Druslubóka og doðranta verða að fá að vita hversu harður íslenski bókmenntaheimurinn er.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

"Var fýlan slík og fnykurinn að frá þeim lagði móðu svo mikla, að engin skáld náðust óbjöguð á mynd."