21. mars 2012

Maður selur ekki landið sitt, sama þótt börnin svelti

Getiði ímyndað ykkur hvernig það er að vera vel menntuð og tiltölulega venjuleg manneskja, í flottri vinnu, búa í fínni íbúð og eiga foreldra sem eru hóbóar? Ég reyndi ítrekað að setja mig í þau spor á meðan ég las The Glass Castle, æskuminningar Jeannette Walls, en ég gat það eiginlega ekki.

Fyrsta setning bókarinnar er með þeim áhrifameiri sem ég hef lesið:

I was sitting in a taxi, wondering if I had overdressed for the evening, when I looked out the window and saw Mom rooting through a Dumpster.

Jeannette bregður svo mikið að hún hættir við að fara í boðið og fer í staðinn heim í íbúðina sína á Park Avenue og setur Vivaldi á fóninn til að róa taugarnar.


Jeannette er næstelst af fjórum systkinum. Mamma hennar, Rose Mary, málaði myndir sem enginn keypti og skrifaði bækur sem enginn vildi gefa út. Hún var menntaður kennari, en hafði ekki tíma til vinna, því hún vildi einbeita sér að listinni. Pabbi Jeannette, Rex, vann stundum sem rafvirki og hafði óbilandi áhuga á eðlis- og stjörnufræði og var einn af þessum altmulig-mönnum sem geta gert við allt og hann var sífellt að vinna að einhverjum stórkostlegum uppfinningum sem áttu að breyta heiminum. En þrátt fyrir mikla hæfileika og gáfur drakk hann ótæpilega, steypti sér í skuldir og hélst svo illa á vinnu að fjölskyldan þurfti reglulega að stinga af í skjóli nætur og flytja eitthvert annað.

Rose Mary og Rex kenndu börnunum sínum eðlis-, stjörnu- og stærðfræði, þau voru orðin lesandi og skrifandi mjög ung og vissu miklu meira en jafnaldrar sínir, en á sama tíma voru þau tötrum klædd og soltin, þurftu að stela mat eða borða uppúr ruslatunnum því foreldrarnir máttu ekki vera að því að vinna, eða Rex var búinn að drekka út allan matarpeninginn.

Ég var eiginlega gapandi við lesturinn yfir því að það sé í alvörunni til svona fólk. Í einum kafla segir Jeannette til dæmis frá því að þau systkinin hafi ekki fengið neitt almennilegt að borða í marga daga (þau voru búin að klára kattamatinn), því pabbi þeirra er á drykkjutúr og mamma þeirra neitar að fara að vinna, þó næga vinnu sé að fá. Þau sitja hnípin heima og sjá svo að mamma þeirra er að pukrast með eitthvað undir sæng og smjattar. Og þar liggur hún, les rómansa og hámar í sig súkkulaði á meðan börnin hennar svelta.

Og fátækt þeirra er ekki neyð, heldur val. Þau erfa t.d. stórt hús, búa þar í nokkra mánuði, en fá svo leið á kyrrsetunni og flytja út í rassgat og skilja húsið sem þau hefðu getað selt bara eftir og byrja frekar með tvær hendur tómar, af því það er miklu meira ævintýri. Og þegar bílinn þeirra, með meirihluta af búslóðinni innanborðs, bilar, þá skilja þau hann einfaldlega eftir við þjóðveginn, labba til baka og hirða ekki um að láta sækja hann eða gera við hann.

Ég var á köflum alveg fokreið út í þessa foreldra og það var Jeannette greinilega líka. Það hefði verið auðvelt að gera þau að skrímslum, en henni tekst einhvernveginn að horfa í gegnum reiðina og dæma þau ekki. Og auðvitað eiga þau sínar góðu hliðar líka, sýna á köflum ótrúlegt örlæti og ást.

Af lýsingunum hér að ofan að dæma þá haldiði kannski að þetta sé einhver margra vasaklúta bók á borð við Hann var kallaður þetta, en sú er alls ekki raunin. Þetta er heiðarleg frásögn af fólki sem synti gegn straumnum og neitaði að fella sig að því sem samfélagið hefur ákveðið að sé eðlilegur lífsmáti. Rose Mary og Rex vildu umfram allt vera frjáls og þess vegna kusu þau frekar að búa á götunni í New York og borða uppúr ruslagámum en að selja eignir sínar eða fá sér vinnu og verða þrælar kapítalismans.

En spurningin sem sat í mér eftir lestur bókarinnar er á hvers kostnað þetta frelsi þeirra hafi verið.

Jeannette skrifaði svo aðra bók, Half Broke Horses: A True-Life Novel, sem fjallar um Rose Mary og móður hennar. Hún segist hafa skrifað hana til að fólk skilji móður hennar betur og hvers vegna hún valdi þetta líf. Jeannette segir að fólk skilji Rex, hann sé einn af þessum mönnum sem við höfum lesið svo oft um eða séð í bíómyndum: hæfileikaríkur og sjarmerandi maður sem drekkur allt frá sér og virðist tilbúinn að fórna öllu fyrir áfengið.

En Rose Mary aftur á móti hefur einhverjar allt aðrar ástæður og hún er einhver óskiljanlegasta persóna sem hefur rekið á mínar fjörur. Ég verð eiginlega að tjékka á bókinni um hana líka, því mig langar til að skilja hana betur.

Hvernig manneskja segir einfaldlega: „Maður selur ekki landið sitt,“ þegar dóttir hennar kemst að því að móðir hennar, tötrum klæddi hóbóinn, hefur öll þessi ár átt land í Texas sem hún gæti selt á milljón dali?ÖPPDEIT: Ég var að komast að því að það er búið að þýða þessa bók á íslensku og alles. Glerkastalinn heitir hún og er uppseld hjá útgefanda.

3 ummæli:

beamia sagði...

Hvað eru "hóbóar"?

Nafnlaus sagði...

Hóbóar = hobos = umrenningar, útigangsfólk, flökkufólk, geri ég ráð fyrir, hafandi lesið bókina! ;)

Salka x

Nafnlaus sagði...

Hóbóar voru upphaflega (eða eins og ég veit) þeir sem í kreppunni mikla og jafnvel fyrr ferðuðust á milli staða í flutningalestum og héldu til í flökkumannabúðum á útjöðrum borganna. Sumir þeirra reyndu að komast upp með það að vinna ekki handtak, aðrir voru einmitt í atvinnuleit og unnu oft við uppskeru eða skógarhögg eða annarri erfiðisvinnu, oft eftir vertíðum. John Steinbeck hefur skrifað um þetta, lestarferðanne er einnig getið í Lífsins tré eftir Böðvar.
- Merkileg frásögn, Salka, takk fyrir!

kv. Tapio