5. mars 2012

Tumi og Emma - miðaldra börn

Þeir sem hafa eitthvað að ráði umgengist börn undanfarna áratugi (eða sjálfir verið börn) þekkja mjög sennilega bækurnar um Emmu og Tuma eftir Gunillu Wolde. Bækurnar voru flestar skrifaðar á 7. og 8. áratugnum í Svíþjóð og komu fljótlega eftir það út á íslensku og nú er nýbúið að endurprenta nokkrar þeirra. Gunilla Wolde er komin eitthvað á áttræðisaldur en hún skrifaði fyrstu bækurnar um Tuma þegar hún átti ungan son sem var víst stundum dálítið þver og öfugsnúinn (það er bókin sem segir frá því þegar Tumi fer í bað) og síðan fylgdu fjölmargar í kjölfarið. Tumi og Emma hafa bakað, þrifið, ryksugað og farið til tannlæknis, læknis, í leikskólann og tekist á hendur allskonar hversdagsleg verkefni í sönnum raunsæisanda auk þess að hafa þurft að takast á við eigin skapgerðarbresti og þvermóðsku. Ég man að þegar ég kynntist Tuma fyrst hét hann Tóti og var í sjónvarpinu. Hann heitir Totte á sænsku svo þetta var svo sem ágætt val á nafni, en á sama tíma hefur líklega verið búið að ganga frá þýðingu á bókunum þar sem hann heitir Tumi svo það nafn varð ofaná.

Bækurnar um Tuma og Emmu hafa komið út í sautján löndum og eru stöðugt endurprentaðar í löngum bunum, enda handhægar og skemmtilegar og myndir og texti kallast fallega á. En bókmenntagagnrýnendur í Svíþjóð tóku þessum bókum víst ekkert vel til að byrja með, myndirnar þóttu lítið listrænar og textinn ómerkilegur. Það má auðvitað alveg segja að bækurnar um Emmu og Tuma séu ekki neitt merkilegur litteratúr en mér finnst þær samt alltaf standa fyrir sínu og bíð spennt eftir að lítil stúlka sem ég þekki verði nógu stór til að lesa þær með mér.

1 ummæli:

Maríanna Clara sagði...

mér fannst þetta magnaður literatúr þegar ég var lítil og ég hlakka sömuleiðis til að lesa bækurnar með litlum dreng...
ég var einmitt að finna eina í hillu - það vantar reyndar hálfa síðu en mér finnst líklegt að við getum í eyðurnar!