3. mars 2012

Tvær (mis)hressar ævisögur

Winters með Coleman (hér er hún greinilega komin yfir feimnina)
Frá síðustu færslu um Stephen Fry stíg ég skref aftur um áratugi í ævisögur leikkvenna sem löngu eru horfnar af sjónarsviðinu. Ég hef verið spennt fyrir skemmtilegum æviminningum frá því að ég var barn – ekki endilega íslenskum (þótt þær séu nokkrar frábærar) en sérstaklega þeim sem lýstu á lifandi hátt heimi sem var fjarlægur en ég þó tengdi við. Íslensku minningarnar voru oft hvorugt – ég tengdi lítið við þær (vissi ekki hverjir Ási í Bæ eða Jónas frá Hriflu voru) en þótti þær heldur ekki nógu framandi þar sem þær sögðu gjarnan frá böllum á Borginni og spássitúrum niður Laugaveginn. Hrifnust var ég af æviminningum gamalla Hollywoodleikara enda var ég mikill aðdáandi þeirra og safnaði úrklippum af stjörnum eins og hinum fögru hjónum Vivien Leigh og Laurence Olivier, Grace Kelly, Audrey Hepburn og Cary Grant.


Shelly Winters í góðum gír
Ellen Terry er hugsi...
Fyrsta bókin sem ég las á ensku var 500 síðna doðrantur - ævisaga leikkonunnar Shelley Winters sem ég hafði aldrei heyrt um (mig grunar að myndirnar hafi verið hvatinn að lestrinum). Ég var 11 ára og það tók mig um hálft ár að bögglast í gegnum bókina og þegar ég svo las hana aftur mörgum árum síðar kom hún mér dálítið á óvart – það var ansi margt sem ég hafði ekki skilið eða gjörsamlega misskilið. Bókin er hins vegar stórskemmtileg og þótt maður kannist ekkert við Winters kemur það varla að sök þar sem hún er bráðfyndin penni (hún skrifaði þetta sjálf án hjálpar draugapenna). Í upphafi bókar lýsir hún því þegar hún tók upp sviðsnafnið Shelley Winter og bætir svo við: „Years later, in their infinite wisdom, Universal Studios addad an S to “Winter” and made me plural“ (bls. 4). Ekki spillir svo fyrir að hún umgekkst allar helstu stjörnur samtímans og kunni svona ljómandi skemmtilegar sögur af þeim! Hún leigði með Marlyn Monroe, fór á deit með Clarke Gable og hélt við John F. Kennedy. Winters fékk Óskarinn tvisvar (fyrir myndirnar Diary of Anna Frank og A Patch of Blue) en margir kannast sjálfsagt frekar við hana sem ömmu Roseanne úr samnefndum þáttum sem voru sýndir hér á rúv fyrir mörgum árum.

Terry í hlutverki Lafði Macbeth
Sjálfsævisögur skortir (af skiljanlegum ástæðum) oft fjarlægð á atburði og stundum forðast þær allt það áhugaverðasta (aftur af skiljanlegum ástæðum) og festast jafnvel í leiðigjörnum smáatriðum og upptalningum (sem er hreint ekki skiljanlegt og ritstjórar ættu að sjá sóma sinn í að neyða höfunda til að stytta slíkt). Hins vegar kemur á móti að þær geta leyft sér að hæðast að viðfangsefninu (sjálfu sér) og skálda í eyðurnar á máta sem ævisagnaritari sem skrifar um annað fólk og styðst við heimildir getur varla leyft sér. Winters hikar ekki við að gera grín að sjálfri sér eins og t.d. í lýsingum á fyrsta stóra kvikmyndahlutverkinu en þar lék hún þjónustustúlku á diner sem afgreiðir mann leikinn af stjörnunni Ronald Coleman. Winters var svo starstruck yfir mótleikara sínum að það tók heilar 96 tökur áður en henni tókst að hella vatni í glas fyrir hann og segja línuna sína: “well it’s your stomach”.

Húmorinn er svo aftur það sem helst vantar í ævisögu hinnar frægu ensku leikkonu Ellen Terry – sem lést átta árum eftir að Shelley Winters fæddist. Bókin, Love or Nothing – The Life and Times of Ellen Terry eftir Tom Prideaux kom út árið 1975 og þótt höfundur dragi svo sem ekkert undan í litríkri ævi Terry (sem var ein ástsælasta leikkona Breta á 19. öldinni) þá saknar maður sjálfshæðni Winters. Þess í stað má reyndar hafa gaman af sumum fullyrðingum Prideaux á borð við: „If it seems shocking that such arrant hokum should beguile large audiences, it should be considered that most Englishmen are born laugther-prone.“ (bls. 37) Engu að síður dregur hann líflega mynd af leikhúsi Viktoríu-tímabilsins og fjörlegu lífi Terry sem eignaðist tvö börn utan hjónabands, sat fyrir á málverkum og ljósmyndum ýmissa meistara og umgekkst meðal annars rithöfundana Lewis Carroll, Tennyson og George Bernard Shaw auk þess sem Oscar Wilde var aðdáandi. Terry þótt einstök gamanleikkona sem og Shakespearetúlkandi og á ferli sem spannaði næstum sjötíu ár vann hún stóra sigra á leiksviðinu bæði í Bretlandi og í Bandaríkjunum þótt hún sé sennilega frægust fyrir samstarf sitt við leikhúsmanninn Henry Irving. Terry skrifaði raunar sjálf sögu sína The Story of My Life by Ellen Terry árið 1908 og það væri fróðlegt að lesa hana – miðað við ritunartíma getur þó verið að hún hafi neyðst til að skauta yfir hitt og þetta úr lífi sínu til að friða almenning svo mögulega er bókin ekki beinlínis sjálfshæðin og djúsí lesning...hins vegar skrifaði Winters framhald af ævisögu sinni sem mig dauðlangar að komast yfir.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er á sömu línu, mér finnst miklu skemmtilegra (yfirleitt) að lesa um einhverja mjög framandi lífsreynslu í svona ævisögum. Þegar ég var svona 12 ára spændi ég einmitt í mig ævisögu eins Marx-bræðranna sem var skrifuð af dóttur hans. Ég hafði ekki einu sinni séð mynd með Marx-bræðrum á þessum tíma.

Salka