16. mars 2012

Heteróið og normatívisminn

Sé setningarupphafið „How do I know if I'm“ slegið inn í leitarvél Google og tillögur vélarinnar að framhaldi skoðaðar, trónir á toppnum setningin „How do I know if I'm in love“. Fast á eftir fylgir svo „How do I know if I'm gay“ (mikið er annars gaman að því að sumir ávarpi netleitarvélar svona eins og þær séu véfréttin í Delfí). Ég hef ekki kynnt mér hvaða svör internetið býður við þessum brennandi spurningum, en ætli samkynhneigðarspurningunni yrði ekki best svarað með öðrum spurningum: Hefurðu orðið skotin/n í einhverjum af sama kyni? Hefuruðu fantaserað kynferðislega um einhvern af sama kyni?

Í umræðu um samkynhneigð gegnum tíðina hefur gjarnan verið átt við samlíf karla fremur en kvenna – lög sett gegn „sódómsku“ og þess háttar, sem endurspeglar rótgróin viðhorf til mismunandi kynlífsfúnksjónar kynjanna; konan var lengst af ekki talin til gerenda og (karl)menn hafa líklega oft átt erfitt með að hugsa sér að kynlíf gæti yfirhöfuð verið stundað án hlutdeildar reðurs.


Samfara því að dregið hefur úr tabúinu yfir samkynhneigð og málefnum tengdum henni hefur auðvitað æ meira verið rætt, ritað og spáð í hana fyrir opnum tjöldum. Síðan er líklega viðbúið, þegar um er að ræða minnihlutahóp gagnvart meirihluta sem hefur „normið“ sín megin, að töluvert minna sé rætt um eðli gagnkynhneigðar enda hún einfaldlega verið álitin nokkurs konar eðlilegt ástand eða „default setting“ og varla meira um það að segja. Einhvernveginn liggur í augum uppi að fólk er síður líklegt til að velta fyrir sér hugsanlegri gagnkynhneigð sinni heldur en samkynhneigð (hvað ætli fjölskyldan segði?!). Staðsetningu gagnkynhneigðar sem norms gegn fráviki samkynhneigðar fylgir sú almenna ætlun samfélagsins að allir séu gagnkynhneigðir uns annað kemur í ljós, sem stundum hefur verið nefnt því þjála nafni heterónormatívismi.

Að minnsta kosti ein bók (ekki bara grein eða bloggfærsla, heldur hátt í 200 síðna bók) hefur þó verið skrifuð um fyrirbærið gagnkynhneigð, en það er bókin Hetero (2006) eftir hina sænsku Söndru Dahlén. Aftan á bókarkápu segir m.a. (lausleg þýðing mín): „Við höfum ekki átt því að venjast að gagnkynhneigð sé tekin sérstaklega fyrir og rannsökuð, en það er einmitt gert í þessari bók. Hver er grundvöllur hinnar gagnkynhneigðu fjölskyldu? Hvernig stunda gagnkynhneigðir kynlíf? Hver er eiginlega skilgreining þess að vera gagnkynhneigður? Hversu gagnkynhneigð eru dýrin? Og er það úti að vera heteró?“

Þetta er rosa skemmtileg bók og fróðleg. M.a. er farið í saumana á sögu gagnkynhneigðar (sem kann að koma sumum á óvart að hefur alls ekki alltaf verið jafn mikið yfirgnæfandi norm og hún er í dag), heterónormatívisminn er krufinn, fjallað um kjarnafjölskylduna og þeirri spurningu velt upp hvort mögulegt sé að „lækna“ gagnkynhneigð. Og auðvitað er boðið uppá sjálfspróf í anda lífsstílsblaða þar sem lesandinn svarar spurningum, fær stig fyrir svörin og útkoman á svo að gefa vísbendingu um kynhneigðina. Prófið er í tveimur hlutum og eru prófhlutar mismunandi að því leyti að spurningarnar í þeim fyrri eru á borð við „hefurðu átt í ástarsambandi við manneskju af gagnstæðu kyni?“ og „lékstu kynferðislega leiki sem barn með börnum af gagnstæðu kyni?“, á meðan annar hluti er hinsvegar af minna persónulegum toga og meira félagslegum: „Geturðu leitt kærastann þinn/kærustuna niðri í bæ án þess að verða fyrir aðkasti ókunnugra?“ „Hefur þú sloppið við að heyra pólitíkusa fullyrða að þú sért óhæft foreldri, byggt á því hverjum þú laðast að?“ Úr fyrsta hluta fæst annarsvegar útkoman „súperheteró!“, sem er samt bara ef maður fær fullt hús heteró-stiga, en annars fæst „kynhneigð þín er á reiki. Kannski ertu sam- eða tvíkynhneigð/ur.“ Vilji lesandi skera frekar úr um hugsanlega frávikshneigð má taka próf númer tvö, en þar eru mögulegar niðurstöður aftur „súperheteró“ og „alls ekki heteró“. Allar skilgreiningar eru þannig útfrá heteróismanum – ekki er spurt um samkynhneigð vs. ekki samkynhneigð, heldur fókuserað á gagnkynhneigðina vs. aðra möguleika – enda má kannski halda því fram að gagnkynhneigðin sé auðskilgreinanlegra og einfaldara fyrirbæri svona menningarlega séð, auk þess sem uppsetningin gagn- vs. samkynhneigð gefur lítið pláss fyrir t.d. tvíkynhneigð... eða bara sjálfkynhneigð, eða ókynhneigð! Sennilega verður meirihluti mannkyns alltaf haldinn þessari svokölluðu gagnkynhneigð, og ekkert við það að athuga í sjálfu sér – en mikið er það hressandi að sjá selvfölgeligheitin sem henni fylgja dregin í smá húmors- og fróðleiksblandinn efa.

4 ummæli:

Kristín Svava sagði...

Ég nota hvert tækifæri til að plögga þeirri áhugaverðu bók Criminally Queer: Homosexuality and Criminal Law in Scandinavia 1842-1999 (hún er til á Þjóðarbókhlöðunni). Mjög áhugaverðar greinar um kynferðislega frávikshegðun í Skandinavíu á þessu tímabili, fyrir þá sem hafa sögulegan áhuga á slíku. Þar kemur einmitt skýrt fram þessi áhersla á reðurinn, hvar hann er og hvert hann er settur, sem grundvöllinn fyrir kynlífi. Það eru mjög tragikómískar lýsingar á réttarhöldum þar sem allt veltur á því hvort konurnar tvær hafi penetrerað hvor aðra með einhvers konar reðurlíki; ef þær gerðu það ekki er það náttúrulega ekki kynlíf.

Ásta Kristín sagði...

Þetta hljómar mjög vel. Ég þarf að skoða þessa bók. Ég er líka nýbúin að uppgötva krómónormið, sem helst oft í hendur við blessaða heterónormið, þ.e. hina línulegu framþróun sem allt "venjulegt" fólk fylgir. Hegða sér í takt við aldur, eignast kærustu/kærasta, eignast börn og húsnæði, giftast, vera í vinnu, safna lífeyri, fara á elliheimili og allt þetta. Það er hressandi að skoða normin en ekki afbrigðileikann.

Arndís Dúnja sagði...

Þegar ég var unglingur las ég oft bresk og bandarísk unglingatímarit. Ég man eftir því að hafa í fyrsta skiptið á ævinni fyllst einhverju Norðurlandasnobbstolti þegar ég las Vi Unge í fyrsta skiptið. Þar var vandamáladálkur, alveg eins og í hinum blöðunum og ungur maður skrifaði í öngum sínum. Hann hafði aldrei átt kærustu, aldrei langað í kærustu, kom af fjöllum þegar félagarnir voru að tala um sætar stelpur og var í ofanálag alltaf að horfa á sæta stráka í sturtunum í leikfimi! Hvað gæti eiginlega verið málið? Væri kannski mögulegt að hann væri, þúveist, hommi?

Vi Unge svaraði dálítið öðruvísi en bresku og bandarísku blöðin sem hefðu talað um hvað unglingsárin eru erfiður og ruglandi tími og að allskonar tilfinngiar gætu alveg verið eðlilegar osfr.

Svarið byrjaði nefnilega á setningunni: "Ja, du er en bøsse."

(Svona í framhaldi af "How do I know if I'm gay" vangaveltunum)

Erla Elíasdóttir Völudóttir sagði...

nákvæmlega, Kristín Svava... penetrasjón or it didn't happen!

Góður punktur með krómónormið, það er auðvitað annar flötur á þessu.

Og það er satt, maður getur stundum ekki annað en verið stoltur af Norðurlöndunum þegar kemur að þessum hlutum!