13. júlí 2012

Bókasöfn á gististöðum, 13. þáttur: Druslubókadama gerist bókasafnslögregla



Í íbúð sem ég leigði gegnum BHM á Geldingsá í Vaðlaheiði er úrval lesefnis heldur rýrt, en þó vel þess virði að um það sé fjallað hér. Fyrst ber að nefna afar áhugavert úrval gamalla tímarita:

1) Þrjú tölublöð af Frjálsri verslun frá 2009 og 2010, sem ég verð að játa að ég nennti ómögulega að lesa.

2) Eitt tölublað af hinu prýðilega riti Se og hør, nánar tiltekið 16. tölublað, 57. árgangur, sem kom út árið 1996. Á forsíðunni er sagt frá einhverjum Dönum sem ég kann ekki nánari deili á en þar kemur fram að Morten Stig sé einhleypur eftir að hafa flutt frá konunni, að Maria Hirse hafi gift sig að vori í einhverri höll og að Ole Ernst sé líka að fara að gifta sig eftir tíu ára sambúð. Svo er mynd af Friðrik krónprins og sagt að hann hafi lent í einhverju flugvéladrama og mynd af Alexöndru sem var á þessum tíma gift yngri prinsinum Jóakim (þau skildu svo víst síðar, sem ég skil vel, ekki vildi ég þurfa að vera gift prinsi), í frekar ljótri jólapeysu með hund fyrir framan sig. Sé blaðinu flett má finna umfjöllun um ýmsa Dani sem ég þekki ekkert, nema ég kannast við fyrrnefnda Alexöndru og Jóakim, Leonardo DiCaprio er sýndur í leðurfötum, Jodie Foster, Tom Hanks (með mynd af honum á sundskýlu fylgir athugasemd um holdafar hans) og Sigourney Weaver (við fáum að sjá mynd úr íbúðinni hennar) og við sjáum nærmynd af Jóhannesi Páli II páfa að kyssa beran fót. Eitthvað er svo fjallað um Friðrik krónprins og einhverja kærustu sem heitir Katja. Eftir því sem ég best veit er hann giftur annarri konu í dag þannig að líklega hefur slitnað upp úr þessu hjá þeim Kötju. Svo eru tvær myndir sem sýna aftan á lærin á Díönu Bretaprinsessu og athygli vakin á því að hún sé með appelsínuhúð. Díana þó! Hvernig gastu gert okkur þetta? Inni í miðju blaði er allsber stelpa (Se og hør-pigen) og seinni helmingur blaðsins lagður undir sjónvarpsdagskrá á hvolfi. Sem sagt er blaðið ákaflega keimlíkt því Se og hør sem ég las samviskusamlega vikulega heima hjá ömmu minni og afa, 9 ára gömul, og sjálfsagt er það eins enn í dag. Það eina sem breytist er það hver er með hverjum og hver fær mesta athygli, og svo breytist eitthvað klæðaburðurinn hjá fólkinu með tískusveiflunum.


3) Nýtt líf, 5. tbl. 18. árg. 1995. Í blaðinu er meðal annars talað við hjón sem heita Sigurbjörn og Nanna, Hlín Agnarsdóttur og systurnar Birnu, Hrafnhildi, Selmu og Guðfinnu Björnsdætur sem þykja listrænar. Það er fjallað um villt blóm í brúðarvöndinn, kjaftasögur og svo er umfjöllun sem kynnt er sem matarumfjöllun blaðsins en er augljóslega auglýsing fyrir Hagkaup. Má það? Mátti það kannski 1995? Svo eru tveir dálkar sem virðast ganga út á að hampa útjöskuðum kynjaklisjum. Steingrímur Ólafsson tuðar í dálkinum Konur yfir því að konur séu með hreingerningaræði og þurfi alltaf að fara að ryksuga þegar karlarnir vilji horfa á boltann. Jónína Leósdóttir alhæfir um karla í dálkinum Karlar og talar um að þeir geti nú alveg tileinkað sér færni við heimilisstörf.

4) Vikan, 17. september 1992 og 3. júní 1993. Í fyrra tölublaðinu er rætt við líksnyrti, sem er líklega það sem er áhugaverðast í því. Jú, ég rakst líka á mynd af frænku minni að selja boli sem hún málaði á og seldi á þessum tíma og ég var búin að steingleyma þessum bolum. Í því seinna er til dæmis fjallað um lýtalækningar og rætt við Sigrúnu Bjarnadóttur, sem var síðasti ábúandinn á Hesteyri í Jökulfjörðum. Þar er líka að finna umfjöllun um bókina Backlash eftir Susan Faludi sem ég held að margir hefðu gott af að lesa í dag.

5) Nokkur tölublöð af Séð og heyrt, frá 1996, 1999 og 2004. Í þeim er að finna nokkurn veginn það sem búast má við. Það sem vakti einna helst athygli mína er að landsþekktur rithöfundur (í dag) virðist hafa verið einn mikilvirkasti blaðamaður þess rits árið 1996. Fólk skiptir um vettvang með tímanum, sem er líklega ágætt.

6) Að lokum vil ég nefna Samúel frá 1991. Þar kemur fram að Julia Roberts og Kiefer Sutherland séu hætt saman, að svokölluð gæsa- og steggjapartí séu að ryðja sér til rúms hér á landi og svo er þar ítarleg kynning á glænýrri íslenskri kvikmynd sem á að bera nafnið Veggfóður.

Auk tímaritanna var þarna að finna tvær bækur, en þær hef ég á brott með mér. Bækurnar voru nefnilega kyrfilega merktar Borgarbókasafni og mér datt í hug að kanna hvort einhver hefði gleymt þeim í íbúðinni og hvort bókasafnið saknaði þeirra. Ég beitti því samböndum mínum innan múra þess ágæta safns og spurði bókavörð nokkurn um þessar bækur. Hann kannaði málið og komst að því að skiladagur væri löngu liðinn og bækurnar væru báðar skráðar týndar. Ég mun því koma bókunum í traustar hendur bókavarðar við mikinn fögnuð allra starfsmanna Borgarbókasafns þar sem kálfi verður slátrað til heiðurs glötuðu bókunum, eða þannig sé ég það fyrir mér. Umræddar bækur eru báðar ættaðar frá Frakklandi. Önnur er krimmi, eða einhvers konar þriller, eftir Gilbert Gallerne og heitir Le prix de l’angoisse, sem þýðir víst eitthvað á borð við Gjald angistarinnar. Hún kom út 2002. Hin er leikrit frá 18. öld eftir Marivaux, Le jeu de l’amour et du hasard (Leikur ástar og hendingar). Í þessari útgáfu má finna texta leikritsins á frönsku en inngang á ensku, ritaðan af D.J. Culpin. Um er að ræða rómantískan gamanleik eftir ítalskri Commedia dell’artehefð þar sem fígúran Arlequino kemur við sögu og elskendur beita brögðum og margmisskilja hver annan áður en þeir ná saman að lokum.

Einhvern veginn þykja mér þessar bækur þesslegar að mun líklegra sé að einhver dvalargestur hafi gleymt þeim í húsinu en að þeim hafi verið stolið af bókasafninu í því skyni að nota gestum til skemmtunar. Án efa eru þetta prýðilegar bækur en ég er ekki viss um að frönskukunnátta sé það útbreidd hérlendis að það þyki henta að hafa bækur á frönsku til taks á gististöðum. En þökk sé snuðri Druslubókakvendis munu áhugasamir nú geta tekið þessar bækur að láni á Borgarbókasafninu frá og með næstu viku eða svo.

2 ummæli:

guðrún elsa sagði...

En hvað það er yndislegt að þú munir koma þessum bókum til skila -það bjargar án efa deginum hjá bókaverðinum sem tekur við þeim. (Ég er ekki frá því að lýsing þín á slátruninni til heiðurs bókunum sé nokkuð raunsönn bara.)

Ég vil líka grípa tækifærið og ítreka mikilvægi þess að koma bókasafnsbókum sem maður finnur til skila.

Hver er annars landsþekkti rithöfundurinn sem skrifaði í Séð og heyrt árið 1996?

Varríus sagði...

Ég hélt að það væri í lögum (sennilega Evrópusamþykkt) að í öllum sumarbústöðum ætti að vera eintak af Poppbókinni eftir Jens Guð og amk ein bók eftir Þorgrím Þráinsson.