Það væri Stellu líkt að taka sér frí frá átökunum við undirheimana til að draga þessa á tálar. Eða eins og hún lýsir tveimur kynæsandi lögregluþjónum: „Tveir gómsætir svartfuglar. Eggjandi samloka.“ |
Það er líka eitthvað skrítið við þessar bækur. Það er stundum eins og höfundinum sé ekki full alvara með þeim, eins og þetta sé bara eitthvað flipp – en hver nennir að teygja svona flipp í fimmtán ár og skrifa sjö heilar bækur út á það? (Sem hafa sumar hverjar meira að segja verið þýddar og gefnar út erlendis.) Það er greinilega enginn auli sem heldur á pennanum, bækurnar eru ekki heimskulegar á sama hátt og til dæmis reyfararnir eftir bestu vinkonu druslubókakvenna, Camillu Läckberg, þar sem höfundurinn er annað hvort ekki nógu skýr í kollinum sjálfur til að koma frá sér trúverðugri sögu eða heldur að lesendurnir séu of vitlausir til að gera sér grein fyrir metnaðarleysinu. Stella sver sig í ætt við harðsoðna bandaríska reyfara og er augljóslega tilraun til að hrista svolítið upp í klisjum hefðarinnar, en oftar en ekki er þessi leikur með klisjurnar svo yfirborðskenndur og asnalegur að maður fær á tilfinninguna að það hljóti að vera um einhvers konar tvöfalda íróníu að ræða. Stíllinn á til dæmis að vera í anda hins harðsoðna; stuttar, skornar, beinskeyttar setningar:
„Nú þegar fertugsdómurinn bíður mín. Á miðju sumri. Eftir aðeins örfáa mánuði. Eins og ískalt, óumflýjanlegt svarthol.“
en minnir mig eiginlega meira á þann tilgerðarlega ritstíl sem Eyja Margrét gerði nokkur skil hér.
Stella Blómkvist er að mörgu leyti dæmigerður harðsoðinn spæjari; kjaftfor, óttalaus, mjög upp á kven-(og karl-)höndina, og drekkur gjarnan viskí (Stella að fróa sér í baði með Nonna Daníels á kantinum er ákveðið stef). Sennilega er kyn hennar og kynhegðun tilraun til að leika sér með harðsoðnu hefðina – í Morðinu á Bessastöðum er Stella meira að segja búin að eignast barn – en ef ætlunin var að skapa með því skemmtilega og spennandi persónu þá mistekst það hrapallega. Stella er óþolandi hallærisleg týpa, gjörsneydd öllum persónutöfrum og því undirliggjandi sálarmyrkri sem oft ljær harðsoðnu spæjurunum lúmskan sjarma. Hún vappar um miðbæinn eins og hrægammur í eldri kantinum, í „kryddpíulegum leðurkjól“ og svörtum stígvélum upp á mið læri („í anda Viktoríu“), hristandi „síða ljósa hárið. Gersemina mína. Birtan í myrkrinu“ – þetta getur bara ekki verið alvara. Stella talar um nýjustu viðbótina við villtan karakter sinn, tveggja ára dóttur sína Sóleyju Árdísi, eins og púðluhund; harðsoðna móðirin kallar hana sjaldnast annað en „dúlluna sína“.
Eins og harðsoðnum spæjara sæmir glímir Stella við gjörspillt yfirvald og siðblinda undirheimaforingja, en þeir sem minna mega sín eiga öruggt athvarf hjá lögfræðingnum hrjúfa. Plottið er í þynnra lagi og gengið ansi langt í því að kynna til sögunnar mörg mál í upphafi sem svo reynast, fyrir ótrúlega tilviljun, öll vera náskyld. Í þessari bók slæst Stella í vaxandi hóp íslenskra glæpasagnahöfunda sem nota búsáhaldabyltinguna sem bakgrunn að sögu og naív en hjartahrein baráttustúlka úr byltingunni kemur við sögu. Auk þess er morð framið á Bessastöðum, kertastjökum stolið, stelpu rænt og eiturlyfjum smyglað, og í dálítið Arnaldarlegri hliðarsögu er hinsta ósk gamals bónda með dularfulla fortíð að finna aftur ættleidda dóttur sína.
Eins og glöggir lesendur hafa ef til vill tekið eftir er kominn nýr flokkur hér hægra megin á síðunni, Bókmenntir íslenskra kvenna 2012-2014, þótt enn sem komið er sé aðeins ein bók þar undir, en við druslubókadömur fengum styrk á síðasta ári til að fjalla um öll fagurbókmenntaverk eftir konur sem koma út á Íslandi á þessu tímabili. Það væri sennilega eðlilegast að fella Stellu í þann flokk. Ég verð hins vegar að viðurkenna að ég trúi því rétt tæplega að höfundur bókanna um Stellu Blómkvist sé raunverulega kvenkyns. Það er bara eitthvað við baðrúnkið með Nonna Daníels og endalausar tilraunir hennar til að draga lettneskar nektardansmeyjar og feimnislegar lögreglukonur á tálar í klofháum leðurstígvélum. Þetta gætu næstum verið senur í bók eftir Helga Jónsson:
„„Hvað áttu við með kattarþvotti?“ spyr Ludmilla.
„Þú veist að kettir fara aldrei í alvöru bað til að hreinsa sig,“ svara ég. „Þeir þykjast bara þvo sér með tungunni.“
Þegar þulurinn fer að segja þrautfúlar fréttir af deilum um stærð loðnustofnsins við Ísland halla ég mér aftur á bak í sófanum. Með litlu, sætu dúlluna mína í fanginu.
„En ég get auðvitað sýnt þér dæmi um ljúfan kattarþvott þegar Sóley Árdís er sofnuð,“ bæti ég við með bros á vör.““
3 ummæli:
Ein af fáum bókum sem ég hef hent í ruslið eftir nokkra kafla var fyrsta Stellu bókin sem ég fékk í Ugluklúbbnum fyrir margt löngu. Sé ekki eftir því og hef ekki svo mikið sem litið á titil Stellu bóka síðan! :-)
Ég er sannfærð um, og hef lengi verið, að Stella Blómkvist sé mjög þekktur karlkyns rithöfundur sem býr suður með sjó.
Ég prófarkalas fyrstu Stellubókina, sem mér fannst afspyrnuvond, og hef forðast að lesa fleiri.
Skrifa ummæli