29. ágúst 2012

Hverjum er ekki sama um örlög skilanefndarmannsins með skemmtibátaprófið?

Dr. Ólína Þorvarðardóttir: Óvæntur áhrifavaldur í
íslenskum glæpasagnaheimi.
Ég hef aldrei verið mikill aðdáandi glæpasagna Yrsu Sigurðardóttur. Fyrstu kynni mín af þeim urðu eftir að ég rakst á Þriðja táknið í grein eftir Helga Þorláksson sagnfræðing, af öllum stöðum, en í greininni ræddi Helgi meðal annars áhrif doktorsritgerðar Ólínu Þorvarðardóttur um brennuöldina á þessa fyrstu glæpasögu Yrsu. Ég náði mér í bókina og hún reyndist nógu farsakennd til að ég skemmti mér hið besta; lík finnst í kústaskáp í Árnagarði, siðblindir og kókaínbrjálaðir BA-nemar í sagnfræði fikta við svartagaldur eftir kynni sín af doktorsritgerð Ólínu, og svo framvegis.

Þessi farsakenndi eiginleiki Þriðja táknsins – allt sem gerist í henni er gjörsamlega fáránlegt – minnir á þær bækur þar sem mér hefur þótt Yrsu takast best upp, en það eru barnabækurnar sem hún skrifaði áður en glæpasögurnar tóku yfir: Þar lágu Danir í því, Við viljum jólin í júlí og fleiri. Þar eru hressir karakterar, ævintýralegur söguþráður og endalaus aulahúmor, eins og stelpan sem þurfti að fara í fermingarhárgreiðslu á Elliheimilinu Grund af því að pabbi hennar var svo seinn fyrir í fermingarundirbúningnum. Stærsti veikleiki Yrsu er stíllinn – hún skrifar satt að segja ekki sérlega vel – en í barnabókunum var öllum stílæfingum haldið í lágmarki og sögunni sleppt lausri eins og í yfirdrifinni gamanmynd frá Hollywood. Mér fannst það virka ágætlega og hló oft eins og fífl.

Enska þýðingin á Þriðja tákninu: An
Icelandic Novel of Secret Symbols,
Medieval Witchcraft and Modern Murder.
Þótt Þriðja táknið hafi nokkuð skemmtanagildi verður seint sagt að hún sé góð glæpasaga, enda önnur lögmál sem ríkja í þeirri deild, og eftir því sem Yrsa hefur skrifað fleiri glæpasögur hafa þær orðið hefðbundnari sem slíkar. Þær hafa verið mjög misgóðar og ég hef á tilfinningunni að þær sem eru í betri kantinum séu það vegna þess að þar hafi höfundinum tekist að draga úr vægi veikleika sinna í bókinni, frekar en að hún hafi beinlínis sigrast á þeim. Eins og áður segir er stíllinn stærsti veikleiki Yrsu, sem er vissulega ekki mjög heppilegt fyrir rithöfund, og ég verð að segja að mér finnst hann alveg jafnflatur í dag og hann var fyrir sjö árum síðan.

Að nokkru leyti tengdur þessari stíllegu flatneskju er áberandi skortur á persónusköpun. Þær persónur sem koma við sögu í glæpasögum Yrsu eru einkum lögfræðingurinn Þóra, sem er spæjari bókanna, Bella ritarinn hennar, og fjölskylda Þóru; þýski kærastinn hennar Matthew, börnin hennar tvö, tengdadóttir og barnabarn. Þóra og Matthew eru bæði svo að segja alveg karakterlaus og eftir því óspennandi. Unglingssonur Þóru, kærastan hans og smábarnið þeirra eru stundum dálítið skemmtileg uppspretta hárreytinga lögfræðingsins sem þau búa inni á. Ritarinn Bella er comic relief karakter bókanna og hefur skýrust tengsl við farsakenndan frásagnarstíl Yrsu á fyrri hluta ferilsins. Hún er yfirgengileg persóna, algjörlega ótrúverðug, rífandi kjaft við viðskiptavini og ælandi á ljósritunarvélar; hún gæti mögulega verið skemmtileg í einhverju öðru samhengi en sem innlegg í glæpasögu sem að öðru leyti bisar við að vera trúverðug og alvarleg verður hún aðallega óþolandi. Aðrar tilfallandi persónur eru yfirleitt lítt afgerandi og/eða klisjukenndar.

Eins og fyrr segir virtist Yrsa á tímabili vera að læra á eigin veikleika og hún hefur sýnt ákveðinn metnað í að prófa nýja hluti. (Hér skrifaði Erna um Horfðu á mig, sem henni þótti betra en margt sem á undan hafði komið.) Undanfarnar bækur hefur hún til dæmis fært sig úr hefðbundnari glæpaplottum yfir í draugasögur og gefið yfirnáttúrunni undir fótinn. Mér hefur aldrei þótt hún sérlega góður höfundur, en heldur ekki svo slæmur að ég hafi beinlínis nennt að elta ólar við það. Þangað til núna að ég las síðustu bókina hennar, Brakið, sem kom út síðasta haust. Eftir þann lestur blöskraði mér svo að ég fann mig knúna til að setjast við lyklaborðið og nýta mér aðgengi mitt að þessari hávönduðu bókmenntasíðu. Ég er svo hneyksluð að mér þykir við hæfi að skrifa undir sem Reið húsmóðir í vesturbænum.

Það er skemmst frá því að segja að Brakið er óásættanlega vond bók. Aldrei þessu vant get ég tekið heils hugar undir með gagnrýnendum Kiljunnar, en þau fóru ófögrum orðum um Brakið fyrir jól og bentu réttilega á að það hefði þurft miklu meiri tíma til að vinna bókina, þó ekki væri nema til að koma henni á sæmilega íslensku. Ég veit ekki hvað þeim ritdómurum gekk til sem gáfu henni stjörnurnar sem birtar eru á bókarkápunni; ég hefði haldið að hvert mannsbarn ætti að geta séð að ekki einungis er textinn álíka stirður og öll frosnu líkin sem hann inniheldur, heldur meikar fjárans sagan engan sens.

Í stuttu máli fjallar bókin um starfsmann skilanefndar sem fer til Lissabon með fjölskyldu sinni til að ganga frá pappírum í kringum snekkju sem gera á upptæka af auðmanni nokkrum. Snekkjunni á síðan að sigla til Íslands. Einn af áhafnarmeðlimunum slasast í Portúgal og þar sem skilanefndarstarfsmaðurinn er með einhvers konar skemmtibátapróf er ákveðið að hann hlaupi í skarðið og taki alla fjölskylduna með sjóleiðis, konu sína og tvær dætur. Hinir áhafnarmeðlimirnir eru allir hinir dularfyllstu og skapstyggustu, loft er strax lævi blandið og fljótlega fer ýmislegt sérkennilegt að gerast. Mörgum dögum síðar kemur snekkjan til hafnar í Reykjavík – mannlaus. Þóra lögfræðingur fer strax að garfa í málinu fyrir hönd foreldra skilanefndarmannsins, sem hafa í fjarveru hjónanna passað yngstu dóttur þeirra (sem heitir Sigga Dögg; mér varð hugsað til kynlífsfræðings Fréttablaðsins í hvert einasta sinn sem þetta tveggja ára barn kom við sögu).

Brakið hefur alla þá hefðbundnu galla sem eru gjarnan á bókum Yrsu Sigurðardóttur, en í óvenju ríkum mæli; textinn er sérlega flatneskjulegur og stirður, samtölin klæjandi ósannfærandi og persónurnar svo leiðinlegar að manni stendur fullkomlega á sama um örlög þeirra, ef maður óskar þeim ekki beinlínis limlestinga og dauða. Það sem mér þótti þó sérstaklega áberandi í Brakinu var algjör skortur á innra röklegu samhengi. Í hefðbundnum glæpasögum er það viðtekin venja að spæjarinn, og lesandinn með honum, reki sig smám saman í átt að lausn gátunnar með því að draga ályktanir af þeim spilum sem hinn alvitri höfundur kýs að sýna þeim. Í þessu tilviki virðist höfundurinn hins vegar ekki nenna að teikna upp sannfærandi vísbendingar um réttu lausnina og lætur persónurnar frekar draga fáránlegar ályktanir af atriðum sem engin leið er að sjá að tengist viðkomandi hugmynd hið minnsta. Lögfræðingurinn Þóra verður eins og Leslie Nielsen á köflum, dragandi spjöld upp úr skúffum og hrópandi „bingó!“ án þess að lesandinn sé nokkru nær um hvað hún á við:


Þetta samhengisleysi gerir lesturinn, og sérstaklega glórulaus samtölin milli persónanna, að ótrúlega frústrerandi reynslu.

Ég velti því fyrir mér meðan á lestrinum stóð (og ég var farin að fara ansi hratt yfir sögu sums staðar) hvort hitt og þetta hefði mátt laga með nógu hörðum yfirlestri. En við nánari umhugsun held ég að gallarnir á þessari bók séu of stórir og margir til að hægt sé að ætlast til að óbreyttur yfirlesari gæti kippt þeim í liðinn. Þetta er bara of hroðvirknislega unnið af hálfu höfundar.

Það rennur mér til rifja þegar glæpasögur eru mærðar án þess að eiga það skilið. Glæpasagnaformið getur verið fullt eins skemmtilegt og aðrar bókmenntir og á sem slíkt ekki skilið að vera gert að sérlegum fulltrúa alls sem andlaust er og forheimskandi. Maður hefði haldið að það gríðarlega magn af glæpasögum sem rutt er út á hverju ári ætti að geta hvatt til almennilegrar samkeppni og betri bóka - en þá mega lesendur heldur ekki slá af kröfunum undir þeim formerkjum að þetta sé „bara reyfari“.

Kveðja,
reið húsmóðir í vesturbænum

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Fyrst talað er um góða íslensku - ekki nota uppskrúfaða orðskrípið "áhafnarmeðlimur". Frekar á að nota orð eins og skipverji. Miklu áheyrilegra, og betra.

Nafnlaus sagði...

En ef um áhafnarmeðlim í flugvél er að ræða? Flugverji? Áhafnarmeðlimur finnst í ritmálsskrá frá því um 1950.

Nafnlaus sagði...

'Flugliði'

Nafnlaus sagði...

Orð þarf ekki að vera gott þó það finnist í ritmálsskrá frá því um 1950. Það þarf ekki einu sinni að góð íslenska. Líklega er "áhafnarmeðlimur" bein þýðing úr "crew member". Orðskrípi.

Nafnlaus sagði...

Áhöfn er fallegt orð. Og þau sem leidd eru af því líka.
Kveðja, Kata.

Nafnlaus sagði...

Skipverji gæti misskilist enda alþekkt slanguryrði yfir smokkapakka.

Eyja M. Brynjarsdóttir sagði...

Þú talar sjálfsagt góða íslensku kæra/kæri Nafnlaus, en þarftu ekki eitthvað að taka þig á í mannasiðunum? (Svo skil ég heldur ekki hvers vegna þú talar svona við sjálfa/n þig og skiptir í sífellu um skoðun en það er önnur saga.)