13. september 2011

„I‘m not that guy“

Ég var kynnt fyrir Horacio Castellanos Moya á bókaballinu. Um leið og ég tók í höndina á höfundi Fásinnu þá leit hann í augu mér og sagði eins og í trúnaði: „I‘m not that guy“. Þetta var ekki bara hver önnur setning, ég skildi strax um hvern hann var að tala.

Moya er landflótta rithöfundur frá El Salvador, samt fæddur í Hondúras og segist vera landlaus. Heimsborgari sem lítur ávallt yfir öxlina heim til Rómönsku-Ameríku í skáldskap sínum. Hann er af nýrri kynslóð rithöfunda, laus undan hefð töfraraunsæis Allende og Marquez og fjallar umbúðalaust um blóðuga fortíð þessarar stríðshrjáðu álfu. Skáldsaga hans Fásinna (Insensatez) er listavel þýdd af Hermanni Stefánssyni sem kemst snöfurmannlega frá stíl Moya sem einkennist af mikilli punktafæð og setningalengd.

Fásinna hverfist um rithöfundarlufsu sem fenginn er af kaþólsku kirkjunni í það verkefni að prófarkalesa ellefu hundruð síðna skýrslu um tíu ára gamalt þjóðarmorð hersins á frumbyggjum í ónefndu ríki í Mið-Ameríku. Ýmist drukkinn eða heltekinn kynórum leggst hann yfir vitnisburði af yfirgengilegum ofbeldisverkum.

„Ég er ekki andlega heill, hljóðaði setningin sem ég undirstrikaði með gula merkipennanum, setningin sem ég gekk svo langt að hreinrita í mína eigin persónulegu minnisbók, því þetta var ekki bara hver önnur setning, hvað þá afmarkað tilvik, öðru nær ...“ (7)

Rithöfundurinn heillast af ljóðrænni orðræðu frumbyggjanna en um leið þrengir blóðugt umfjöllunarefnið sér innundir vitundina uns taugaveiklun og vænisýki heltekur hann. Hann fer að sjá morðingja í hverju skúmaskoti og sannfærist um að hershöfðingjarnir sem stýra landinu vilji hann feigan.

Landið er aldrei nefnt, en um Gvatemala er að ræða því tveir forsetar landsins, Vinicio Cerezo Arevalo og Efrain Rios Montt, eru nefndir í bókinni. Moya sagði í viðtali við Bergstein Sigurðsson hjá Fréttablaðinu að „[þ]að hefur í sjálfu sér ekkert breyst, glæpir hafa tekið við af stríðinu og dánartíðnin er enn svipuð í El Salvador og Gvatemala og hún var á dögum borgarastríðsins.“ Þetta er heimshluti sem maður ólst upp við að heyra af hjá eintóna útvarpsþulum Rúv; daglegar byltingar og valdarán af valdaræningjum.

Gott og vel: saga Rómönsku-Ameríku er hræðileg en persónan sem Moya hefur dregið fram á sjónarsviðið er hlægileg í ömurleika sínum, fyrirlitleg og döpur. Með hárbeittum gálgahúmor lætur Moya rithöfundinn engjast um í lágkúrulegum hugsunum sjálfhverfu og sjálfsmyndardofa. Konurnar sem hann hefur ekki komist yfir eru gyðjur en um leið og hann snertir við þeim breytast þær fyrir honum í glyðrur. Þessi örlög bíða Fatímu sem hafði verið miðpunktur athygli hans og kynóra, en þegar hún setur fram kröfur og mörk í samförum þá verður hún honum ógeðfelld:

„þessi líkami sem svo margir þráðu hafði skjótt glatað töfrum sínum fyrir mér, þegar hún klukkustund áður hafði spurt beint út hvort ég vildi frekar að hún tottaði mig eða runkaði mér, það var með öllu merkingarlaus spurning í ljósi þess að við höfðum í þrjár mínútur – nokkrum sekúndum til eða frá – verið að kyssast og káfa ástríðufullt hvort á öðru ... runk eða tott, sem hæfði betur harðsnúinni hóru sem réttir æstum viðskiptavininum lista yfir úrval og verð en þessari fallegu spænsku stelpu sem ég samkvæmt mínum kokkabókum hafði heillað með persónutöfrum mínum.“ (76)

Hann magnar upp í sér viðbjóðinn á stúlkunni og getur að lokum ekki fengið fullnægingu fyrir ógeði. Leggur svo í aðra tilfinningarússibanareið við að heyra af kærasta stúlkunnar sem er majór í úrúgvæska hernum og liggur það sem eftir lifir nóttu við að ímynda sér hvernig majórinn myndi drepa hann. „Ég orkaði ekki meir: ég stóð á fætur, angistin íldi út í blóðið, og fór fram í stofu í gönguferð eins og dauðadæmdur fangi, því þannig leið mér, eins og dauðadómurinn hryti í rúminu og nóttin vomaði ískyggileg framundan... “ „I‘m not that guy“ sagði Moya og fjarlægði með því sjálfan sig frá þessu titrandi mannhraki sem hann hafði skapað. Hver vill líka vera þessi maður?

Helga Ferdinandsdóttir

3 ummæli:

Kristín Svava sagði...

"Yo no estoy completo de la MENTE" - þökk sé tilþrifamiklum upplestri Moya á þessi lína vafalaust eftir að fylgja mér lengi.

En grey hann að finna sig knúinn til að kynna sig fyrir fólki með áminningu um að hann sé ekki ógeðslega fíflið sem hann bjó til.

Nafnlaus sagði...

Tilþrif hans voru stórkostleg á upplestrinum og ég er alveg sammála Kristínu.

Ég hlakka til að sökkva mér ofan í fásinnu.

Nafnlaus sagði...

Það er auðvelt að mæla með Fásinnu. Moya hefur pakkað kröftugri frásögn á fáar síður. Eðal töskubók.
Helga F