6. september 2011

Lárviðarskáld og ljóðakennsla

Carol Ann Duffy - mynd úr Guardian
Í vor var ég á Vitabar með Þorgerði þegar tvo prófessora bar að. Meðal annarra orða spurði annar prófessorinn mig hvort ég hefði lesið einhver ljóð eftir Carol Ann Duffy. Ég svaraði neitandi, enda þekkti ég ekkert til hennar. Þá sagði viðkomandi að ég ætti endilega að kynna mér verk þessa skálds og það varð til þess að um daginn lét ég verða af því að panta mér tvö ljóðasöfn eftir Carol Ann Duffy.

Ég fékk bækunar fyrir helgi og er bara rétt byrjuð að glugga í aðra. Þetta er sem sé ekki bókablogg um ljóð eftir Carol Ann Duffy, ég sat bara í hálftíma á kaffihúsinu Trúnó í dag og las nokkur ljóðanna, en er ekki komin lengra svo það er engan veginn tímabært að ég tjái mig um skáldskapinn. En konan er sem sé lárviðarskáld, sem þýðir að hún er einskonar ríkisljóðskáld í Englandi. Eins og sjá má á Wikipediu eru þó nokkur lönd með svona ríkisljóðskáld á sínum snærum, dálítið spes finnst mér en kannski voða sniðugt fyrirkomulag. Carol Ann Duffy er fyrsta konan, fyrsti Skotinn og fyrsta opinberlega tvíkynhneigða manneskjan sem hefur verið úthlutað þessum skáldheiðri í Englandi.
Lárviðarskáldið heilsar drottningunni

Nú er það einhvernveginn þannig að stundum þegar einhver minnist á eitthvað við mann sem maður hefur aldrei heyrt um áður þá fer maður skyndilega að rekast á ýmislegt sem tengist viðkomandi manni eða málefni. Í gær rakst ég á viðtal við Carol Ann Duffy á bókasíðu Guardian, en viðtalið er tekið í tilefni af því að hún er búin að skipuleggja ljóðasamkeppni meðal skólakrakka, sem sett verður í gang á morgun.

Skáldkonan líkir ljóðum við sms-skilaboð. Hún er á því að smáskilaboðin sem ungmenni dagsins í dag senda hvert öðru út og suður eigi eftir gera þau að spennandi framtíðarljóðskáldum. Carol Ann Duffy heldur að ljóðið verði bókmenntaform 21. aldarinnar. Ljóð eru náttúrlega oft fremur knöpp (eins og sms) svo það er kannski eitthvað til í þessu hjá henni. Hún brennur líka mjög fyrir ljóðakennslu og segir ljóðið vera gott tæki til að tengja ungmenni við tungumálið – it's language as play. Sinn eigin frama í ljóðagerð segist hún eiga því að þakka að hún var kynnt fyrir ljóðum í skóla á sjöunda- og áttunda áratugnum, hún ólst upp í bókarlausu húsi og foreldrar hennar lásu ekki ljóð.

Þið lesið auðvitað viðtalið við Carol Ann Duffy í Guardian ef þið nennið en lokaorð hennar finnst mér alveg mega íhuga af alvöru:
I think poetry can help children deal with the other subjects on the curriculum by enabling them to see a subject in a new way. So you'd have a maths lesson, and the teacher would hand out a poem about mathematics. Poetry is a different way of seeing something, and seeing a subject in a different way is often a very good tool to better learning.

14 ummæli:

Sigfríður sagði...

Frábært - þarf að kynna mér þessa lárviðarlady. Mér finnst þetta ótrúlega skemmtilegt fyrirbrigði að vera með svona hirðskáld - King Olafur R. ætti að spá í þetta.

Nafnlaus sagði...

Hún poppar upp hjá Eymundssyni:
http://www.eymundsson.is/nanar/?productid=881c674e-0e03-4859-888f-d891cadd738e

Eiríkur Örn Norðdahl sagði...

Það eru nú oft óttalegir plebbar sem fá þessar stöður.

Annars skrifaði pólski bókmenntafræðingurinn Olga Holownia – sem hefur verið mikið á íslandi – doktorsritgerð þar sem hún bar saman verk Carol Ann Duffy og Þórarins Eldjárn.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Já, ég hefði einmitt haldið að þetta væri plebbastaða en eftir gúggl-rannsóknarvinnu sýnist mér þessi kona alveg geta verið töffari. Hvað finnst þér um ljóðin Eiríkur Örn?

Já og ég er ekki frá því að ég hafi séð umrædda Olgu í gær.

Þórdís Gísladóttir sagði...

... og því má bæta við að nú er staðan sú að þau ljóð sem ég hef lesið í bókunum sem ég fékk, The Other Country og Love Poems, höfða ekkert sérstaklega til mín.

Kristín Svava sagði...

Voru ekki einhver íslensk skáld að prófa sig áfram með sms-ljóð fyrir nokkrum árum? Voru það Huldar Breiðfjörð og Hallgrímur Helgason?

Annars finnst mér pínu hallærisleg stemmning yfir þessu, að það sé verið að hoppa á "eitthvað sem krakkarnir fíla", en kannski er það ósanngirni í mér.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Tjahh, hafandi verið menntaskólakennari þá held ég að það sé ekki svo vitlaust að reyna að finna eitthvað sem krakkarnir fíla.

Halla Oddný sagði...

Mér finnst mér þessi lárviðarskáldastaða líka hreinn unaður, mig minnir að launin séu ekki bara væn peningasumma heldur einhver ógrynni af sérríi. Sem sýnir auðvitað næman skilning enskra á þörfum skálda - einkanlega þeirra skálda sem hafa komið sér í klandur á borð við að þurfa að yrkja krýningar-, afmælis-, skírnar-, erfi-, lof-, sigur- og hátíðarkvæði fyrir mónarkinn og hans fjölskyldu sýknt og heilagt.

Þess má svo til gamans geta að "hin" flippaða skáldastaðan í Englandi, Professor of Poetry í Oxford (sem ég held að sé laus við alla kennsluskyldu utan eitt þakkarávarp í byrjun - og guð veit hvaða sérrí-hlunnindi fylgja henni!) var einmitt (næstum) skipuð konu í fyrsta skipti í hitteðfyrra, í kjölfar kosninga sem venju samkvæmt voru opnar öllum kennurum og fræðimönnum háskólans. Sigurvegarinn var Ruth Padel, en hún sagði af sér áður en hún tók formlega við embættinu.

Ég veit ekki hvort einhverjir á Íslandi fylgdust með fjölmiðlafárinu í kringum þessa stöðuveitingu en ég held að í Englandi hafi ekki verið slúðrað jafnmikið um skáld síðan á tímum Byrons eða eitthvað. Það vantaði bara skálda-paparazzi frá bókablogginu.

Þegar "kosningabaráttan" stóð sem hæst komst nefnilega í blöðin að fjölda fræðimanna innan háskólans hefði borist ómerkt umslög með ljósritum af áratugömlum ásökunum á hendur keppinauti Ruthar, Nóbelsverðlaunahafanum Derek Walcott, um kynferðislega áreitni gegn nemendum hans í Harvard. Derek dró sig úr keppninni og Ruth vann öruggan sigur á þriðja keppinautnum, indverska skáldinu Arvind Mehrotra (enda barnabarnabarnabarn Darwins og miklu betur þekkt).

Skömmu eftir sigurinn játaði svo Ruth að hafa "í framhjáhlaupi" minnst á þessa fortíðardrauga Dereks við blaðamann í aðdraganda kosninganna og þannig líklega orðið kveikjan að herferðinni gegn honum, hvort sem það var ætlunin eða ekki. Fárinu lauk með áðurnefndri afsögn hennar, staðan var ómönnuð í heilt ár en var skipuð Geoffrey Hill í fyrrahaust og situr hann enn, þótt þær kosningar hafi ekki með öllu verið lausar við ásakanir og almenn læti.

Hah! Blessuð skáldin. Alltaf að koma sér í eitthvert klandur!

(Ó sjitt þetta er allt of langt komment. Fyrirgefið!)

Þórdís Gísladóttir sagði...

Takk fyrir þetta. Mér líst eiginlega ljómandi á þessar serrístöður og væri alveg til í eina slíka gegn því að semja einhverja vellu í hóflegu magni.

Mig rámar eitthvað í þetta mál með ómerktu umslögunum, gaman að rifja það upp.

Já og það má alveg endilega setja inn löng komment hérna - absolútt.

Kristín Svava sagði...

Alveg rétt, ég heyrði af þessu. Það var einhver bók um ljóð eftir Ruth Padel á leslista hjá Sigurði Páls í ljóðlistinni hér um árið, en ekki datt mér í hug að ég ætti eftir að heyra svona djúsí sögur af henni.

Sigfríður sagði...

Mér finnst nú svosem Ted Hughes ekki beinlínis hafa verið plebbi ... en kannski þarf maður að vera pleb til að nenna að skrifa drápur um Söruh Ferguson, hvað veit maður. Ég skil nú ekki að breska kóngahúsið hafi haft mikla nennu í að lesa Rain Charm for the Duchy - en kannski hef ég þau fyrir rangri sök!

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ég hafði einmitt gert mér þá mynd af Ted Hughes að hann væri plebbi.

Sigfríður sagði...

Ég er örugglega bara ekki nógu vel að mér í plebbataxonómíu;)Mér finnst frekar svona fólk sem fer á íslenska kúrinn vera plebbar, en það er sjálfsagt frekar leim og plebbalegt að vera sjérrídrekkandi lárviðarskáld!

Nafnlaus sagði...

Áhugaverður punktur þetta:

"Sinn eigin frama í ljóðagerð segist hún eiga því að þakka að hún var kynnt fyrir ljóðum í skóla á sjöunda- og áttunda áratugnum, hún ólst upp í bókarlausu húsi og foreldrar hennar lásu ekki ljóð."

Vinkona mín sem er bókasafnsfræðingur hefur rannsakað hvað hefur áhrif á lestur barna og unglinga. Meðal niðurstaða: Foreldrar og kennarar hafa neikvæð áhrif. Börn og unglingar virðast síður vilja lesa það sem yfirvaldið otar að þeim.

Kemur kannski ekki á óvart.
Skondið samt að Duffy sé nú sjálf í stöðu yfirvaldsins, sem fyrir tilstilli eigin rebelisma fékk áhuga á ljóðagerð.