6. nóvember 2011

Íslenskur náttúruhryllingur: Hálendið eftir Steinar Braga

Óhugnarlegar hendur.
Koverið minnir mig á atriði úr
Baywatch Nights-þætti.
Nýjasta skáldsaga Steinars Braga, Hálendið, fjallar um tvö pör sem fara saman í ferðalag upp á hálendið, týnast í þokunni einhvers staðar norðan við Vatnajökul og eyðileggja bílinn sinn. Pörin eru ekkert sérstaklega vön að bjarga sér í náttúrunni, þau eru borgarplebbar á stórum jeppa sem fóru í ferðalagið til að grilla humar og drekka sig full í stórbrotinni náttúru. Inn í hryllingssöguna af týndum ferðalöngum fléttast persónuleg saga þeirra. Þau eru, eins og persónur í bókum Steinars Braga eru gjarnan, alveg dásamlega fucked-up. Sem betur fer, því það er miklu skemmtilegra að fylgjast með samskiptum og sjálfsskoðun þannig persóna í erfiðum aðstæðum. Sögupersónur, þá ekki síst karlarnir sem eru frekar vafasamir góðærisgæjar, eru líka settar í samhengi við hrunið og andrúmsloftið sem var ríkjandi fyrir það, en það gefur sögunni einhvern veginn enn óhugnarlegra yfirbragð.

Manni finnst eins og það hljóti bara eitthvað skrýtið að gerast í villtri íslenskri náttúru. Annað hvort eitthvað heillandi-skrýtið eins og í kvikmynd eftir Friðrik Þór, eða óþægilegt-skrýtið eins og í þessari bók Steinars Braga. Í Hálendinu er náttúran (og allt sem henni tilheyrir) fjandsamleg borgarbörnunum sem villast í henni, alveg frá því þau týnast er allt einhvern veginn svolítið „off“ - óþægilegt, á skjön. Þegar líður á bók verður umhverfið martraðakennt - það verður að stað án endimarka sem gleypir fólk og neitar bókstaflega að sleppa því. Mig langar ekki að gefa of mikið upp um söguþráðinn og koma með spoilera og þess vegna er kannski fínt að pæla bara aðeins í náttúrunni í sögunni, en hennar hlutverk má túlka á margvíslegan hátt; kannski sjáum við þarna arðrænda náttúru sem hefnir sín loksins á kúgara sínum, manninum. Svo getur líka verið að náttúran sé bara svona óviðráðanleg - að við séum pínulítil og máttlaus í samanburði, að þrátt fyrir öll okkar GPS-tæki sé ekkert mál að raska jafnvæginu eða þeirri stjórn sem mennirnir telja sig hafa náð á aðstæðum. Á kápu bókarinnar er hún skilgreind sem þjóðsaga og það er því líka hægt að skoða náttúruna sem dulrænt fyrirbæri sem felur í sér allskonar óhugnað. (Þið megið semsagt velja eina af þessum túlkunarleiðum þegar þið lesið bókina, gjöriðisvovel.)

Í Hálendinu má sjá ólíka þræði hryllingshefðarinnar fléttast saman, hún minnti mig sérstaklega á náttúruhryllingsmyndir eins og The Descent (2005) og náttúruhefndarmyndir á borð við Long Weekend (2008), en líka á myndir eins og Texas Chainsaw Massacre (1974) (um geðveikislega krípí landsbyggðarfólk), reimleikahúsamyndir eins og The Shining (1980) og jafnvel zombímyndir sem fjalla um fólk sem einangrast saman í óþægilegum aðstæðum og þarf ekki bara að verjast aðsteðjandi ógn, heldur líka vinna úr persónulegum árekstrum innan hópsins (t.d. Night of the Living Dead (1968)).

Ég er mjög hrifin af þessari bók og svo ég sé alveg hrikalega lágmenningarleg, þá langar mig helst að líkja henni við kvikmynd sem mér tókst að treina mér í viku og las til þess að verða hrædd fyrir svefninn. Ég ætla að lesa hana aftur seinna til að greina hana betur, en núna langar mig helst að dæma hana út frá líkamlegum og tilfinningalegum viðbrögðum mínum, því þetta er tveggja martraða bók (ég hrökk tvisvar upp við eigin hróp eftir að hafa lesið mig í svefn) sem gerði mig myrkfælna og nojaða í heila viku. Það er ansi gott bara.

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það mætti sko algjörlega halda að kápan væri vísun í Baywatch Nights! Það er allavega það eina sem mér dettur í hug þegar ég sé hana.

-kst

Nafnlaus sagði...

Set þessa á jólabókagjafalistann, fyrst þið mælið svona með henni.

Og mér datt svolítið annað í hug þegar ég sá kápuna en Baywatch Nights ( http://jthorsson.com/2011/10/25/tvifarar-dagsins/ )

guðrún elsa sagði...

Já, ef þú ert hrifinn af hrollvekjum og/eða Steinari Braga, þá mæli ég svo sannarlega með henni.

Og The Human Centipede! Hahaha.

Erna Erlingsdóttir sagði...

Það er sennilega víða hægt að finna myndir í svipuðum dúr, ég rakst á eina á Spiegel í dag: http://www.spiegel.de/wissenschaft/mensch/0,1518,795483,00.html

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Mér finnst Hálendið frábær. Get ekki sagt að ég hafi sofið mikið nóttina sem ég las hana, en hún er helvíti góð.

Mér finnst hún líka mjög áhugaverð út frá genre-pælingum, sérstaklega hryllingshefðinni en líka ævintýramyndum og -bókmenntum, og jafnvel tölvuleikjum. Þorpið og brúin og beinin og allt það fannst mér eins og settöpp í ótrúlega spennandi, óhugnanlegum tölvuleik.

Þurfum að ræða um hana á skrifstofunni, Gelsa ...

guðrún elsa sagði...

Já, Salka! Það er alveg rétt, hún minnir líka á ævintýramyndir/bækur og tölvuleiki.

En já, við þurfum að ræða þetta á skrifstofunni. Jafnvel plana eitt "myndir sem minna okkur á Hálendið"-vídjókvöld!

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Já takk!

Svo er ég mjög spennt fyrir þessari Baywatch Nights-tilvísun ...

guðrún elsa sagði...

Já, ég skelli inn skjáskoti um leið og ég kem heim af bókasafninu í kvöld! Annars verðurðu eiginlega líka að sjá þáttinn, mig minnir að hann heiti "Curse of the Mirrored Box". Við Kristín Svava höfum ekki verið samar eftir hann.

Guðrún Lára sagði...

Ég hef aldrei upplifað eins líkamleg viðbrögð við nokkurri bók eins og þegar ég las Konur. Mig svimaði meira og minna allan tímann og var létt flökurt. Það finnst mér magnað vald yfir lesandanum!

Nafnlaus sagði...

Ég var einmitt að reyna að gúgla í morgun. Í gúgúl-reitnum á Firefoxinum mínum stendur ennþá "baywatch nights hands out of wall". Skilaði ekki miklu.

-kst

Nafnlaus sagði...

Arg! Nú verð ég að lesa þessa bók, og ég sem var búin að ákveða að ég mætti ekki við meiri hryllingi... Ég fæ martraðir út árið sko.
Katla Ísaks