9. nóvember 2011

Langloka um sniðuga karla

Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf (sæ. Hundraåringen som klev ut genom fönstret och försvann) eftir Jonas Jonasson virðist talin söluvænleg bók. Að minnsta kosti er hún ein af þessum kiljum sem eru hafðar til sölu á bensínstöðvum og í apótekum. Framan á kápunni er vitnað í umsagnir frá Skandínavíu þar sem segir „frábærlega skemmtileg saga, kemur sífellt á óvart“ og „Villt og galin, óstjórnlega fyndin“. Aftan á kápunni segir að bókin hafi óvænt orðið „ein helsta metsölubók síðari ára í Svíþjóð og fer nú sigurför um önnur lönd“. Þar að auki hefur bókin hlotið mjög lofsamlega dóma í Kiljunni og víðar, og er þá jafnan haft á orði hve fyndin hún sé. Væntingarnar til þessarar bókar mega því vera miklar.

Í bókinni segir frá Allan nokkrum Karlsson sem skríður út um gluggann á elliheimilinu á hundrað ára afmælinu sínu og stingur af út í óvissuna. Hann verður svo óvænt lykilpersóna í atburðarás þar sem glæpagengi, morð, dansandi fíll og taska full af peningum koma við sögu. Í bókinni er svo ævi Allans jafnframt rakin. Í ljós kemur að það að verða hluti af merkilegri atburðarás er síður en svo nýnæmi í lífi Allans. Hann hefur kynnst mörgum af helstu þjóðarleiðtogum heims og með ýmsum hætti haft áhrif á heimssöguna. Miklar tilviljanir hafa legið þar að baki og má þannig líkja Allan við Forrest Gump. Munurinn er þó sá að meðan Forrest er bjáni sem kemst einhvern veginn áfram á fávisku sinni og fyrir algjöra hundaheppni þá er Allan ráðagóður og útsjónarsamur. Þó að tilviljanir og heppni komi vissulega við sögu þá er Allan sniðugur og vel fær á ákveðnum sviðum, svo sem við sprengjugerð og við að ná til fólks og tala það til. Hann hefur líka frjóa og frumlega hugsun, sem er nokkuð sem verður honum oft til bjargar.

Bókin gengur mikið út á sniðugheit og fyndni sem og óvænta atburðarás. Ég verð að segja að mér fannst hún ekki halda dampi þessar 425 síður sem hún er. Til að byrja með fannst mér hún bráðfyndin og skemmtileg aflestrar en þegar á leið og Allan búinn að hitta hvern þjóðarleiðtogann á fætur öðrum þar sem ævi hans var rakin fór þetta að verða frekar fyrirsjáanlegt og hætti að koma á óvart. Í raun er líka óþarfi að segja svona mikið um ævi Allans. Öll ævi hans er rakin á samfelldan hátt en kannski hefði verið skemmtilegra að segja bara frá brotum héðan og þaðan úr ævi Allans. Það er ekki að sjá að nein sérstök ástæða sé til að rekja allt saman svona samviskusamlega. Eins varð atburðarásin í nútímanum (eftir að Allan strýkur af elliheimilinu) eins og verið væri að teygja lopann. Sniðugheitin og óvenjulegheitin sem voru svo skemmtileg til að byrja með héldust frekar keimlík út í gegn þannig að segja má að sagan hafi sífellt þynnst út.

Persónusköpunin er fremur grunn, enda virðist bókin fremur hugsuð sem skemmtilegt léttmeti en sem eitthvað sem býður upp á djúpar vangaveltur um sálarlíf mannsins, þótt segja megi sem svo að með ákveðnum frumlegheitum takist að einhverju leyti að gefa óvenjulega sýn á lífið og tilveruna og að skemmtileg tilbreyting sé fólgin í að fá að lesa um hundrað ára gamla söguhetju. Og einmitt út af þessari grunnu persónusköpun er ekki nauðsynlegt að rekja ævi Allans svona nákvæmlega; það er ekki eins og verið sé að reyna að útskýra persónueinkenni hans með því. Auk Allans koma þarna við sögu ýmsir kyndugir karlar en heldur þykir mér hlutur kvenna rýr. Bókin fellur á Bechdel-prófinu [1]. Fáeinar konur koma við sögu í bókinni en engar tvær þeirra tala saman og bókin fjallar langmest um karla. Hver einasta kona sem kemur við sögu er gift einhverjum af körlunum í bókinni eða verður ástkona einhvers þeirra. Nei, annars, á þessu er ein undantekning: engar sögur fara af ástarmálum hinnar mannýgu hjúkrunarkonu Alice á elliheimilinu, en hún er reyndar í afar litlu hlutverki.

Lokaniðurstaðan er að það sé margt skemmtilega hugsað og ýmsar frumlegar hugmyndir settar fram en að bókin sé of löng. Hún hefði verið mun betri ef hún hefði verið helmingi styttri eða svo. Þýðing Páls Valssonar er stórfín.


[1] Bechdel-staðallinn er kenndur við teiknarann Alison Bechdel sem setti hann fram í myndasöguseríunni Dykes to Watch Out For. Hugmyndin er að kvikmynd þurfi að uppfylla eftirfarandi skilyrði: 1) Í henni þurfa að vera a.m.k. tvær konur, 2) konurnar þurfa að tala saman, 3) um eitthvað annað en karlmenn. En það má allt eins beita þessu prófi á bækur.

2 ummæli:

Elísa Jóhannsdóttir sagði...

Mikið er ég sammála þér hérna. Er langt komin með bókina og var einmitt með þónokkrar væntingar til hennar. Hún er ekki að standa undir þeim.

Sniðugheitin virðast ekki ganga út á neitt annað en sniðugheit. Grunn persónusköpun og lítil dýpta, allavega sé ég ekki betur enn sem komið er.

Hún er svo sem ekkert leiðinleg ef leiðindi eru skilgreind út frá fjörugri atburðarás. Hins vegar leiðist mér hún því hún vekur ekki upp neinar spurningar né pælingar og reynir ekkert á mann sem lesanda.

Bestu kv. Elísa

Nafnlaus sagði...

Mér fannst hún fljótlesin og ágæt afþreying. En er sammála hvað varðar grunna persónusköpun og að það teygist heldur úr lopanum eftir miðja bók. En samt var hressandi að lesa loksins reyfara þar sem tilfinningaklám er í lágmarki og að allir sem deyja fá makleg málagjöld. Það sem ég var spenntust fyrir var hvernig færi nú fyrir sökuldólgunum sem voru samt eitthvað svo saklausir og einfaldir. Ég held að vinsældir bókarinnar felist í því að lesendur eru orðnir þreyttir á klisjunum sem gera alla krimma eins. Boðskapur sögunnar var ekki að "glæpir borga sig ekki" heldur meira svona tökum eitt skref í einu og höfum það huggulegt saman.