1. mars 2012

Kvöldverður móðurástarinnar og typpi í mjólkurflösku

Tveggja ára sonur minn hefur mikla unun af því að láta lesa fyrir sig og í gegnum hann er ég að uppgötva heim barnabókmenntanna upp á nýtt. Ég las sjálf mikið sem barn og unglingur og átti himinháa stafla af bókum. Ég var líka daglegur gestur á skólabókasafninu og bar með mér heim allskyns bækur í kílóavís. Þetta efni var misjafnt að gæðum eins og gerist og gengur – sumt er hrein og klár klassík, annað hefur elst ágætlega og svo er annað sem ég held að hafi aldrei getað talist sérlega vandað. Ég fór ósjálfrátt að hugsa um þetta lesefni æsku minnar þegar ég heyrði Egil Helgason ræða það stuttlega í Kiljunni við Kollu og Pál að hann teldi að börn í dag hefðu aðgang að miklu betri bókum en hann hafði sem strákur og margt af því sem hann las hefði verið óttalegt drasl. Nú er ég dulítið yngri en Egill Helgason en ég er ekki frá því að ég geti tekið undir þetta hjá honum. Ég las barna- og unglingabækur móður minnar upp til agna og þar var Enid Blyton í aðalhlutverki. Mamma átti líka ýmsa bókaflokka sem fjölluðu sérstaklega um stúlkur, eins og Beverly Gray sem var heljarmikill bandarískur bálkur um metnaðarfulla stelpu sem gerist blaðakona og ferðast um heiminn, verður ástfangin og fer svo að leysa glæpamál minnir mig. Af sömu ætt voru Nancy bækurnar og fleiri slíkar. Svo var líka til heilmikið íslenskt efni á heimilinu, eins og Hjaltabækurnar eftir Stefán Jónsson og Kári litli og Lappi eftir Stefán Júlíusson. Ég hafði ágætlega gaman af þessu á sínum tíma en oft fannst mér eins og ég væri að lesa sömu bókina aftur og aftur, þetta var voðalega keimlíkt alltsaman. Þessi skýra kynjaaðgreining í öllu þessu barnaefni fer líka í taugarnar á mér og ég efast um að ég muni halda þessum bókum að mínum eigin börnum.
Þegar ég var að byrja að lesa sjálf hélt ég upp á Smjattpattana og Rasmus klump. Ég hef prófað að endurnýja kynnin við Rasmus ásamt syni mínum og líkar ágætlega. Sú persóna sem mér þykir þó líklega hvað vænst um er Einar Áskell og kannski er enginn annar karakter heimsbókmenntanna sem hefur haft meiri áhrif á mig.



Sonur minn virðist hafa erft ást mína á bókabúðum og saman getum við hangið í hverfisbókabúðinni okkar tímunum saman. Hér í Ameríku er úrvalið auðvitað kæfandi en við höfum fundið marga höfunda sem okkur þykja mjög skemmtilegir. Vinkona okkar kom færandi hendi á dögunum og gaf syni mínum tvær bækur eftir bandaríska höfundinn Maurice Sendak (f. 1928). Hann er fæddur og uppalinn í New York, sonur pólskra innflytjenda. Eftir smá gúgl komst ég að því að hann var sjálfur sérlega bókelskt barn sem byrjaði snemma að dunda sér við að búa til sögur og myndskreyta þær. Hann var heilsuveill og neyddist til þess að liggja fyrir stóran hluta barnæsku sinnar. Stytti hann sér þá stundir með því að lesa, skrifa og teikna. Hann sá svo Disney myndina Fantasíu í bíó þegar hann var 12 ára og eftir þá reynslu var hann staðráðinn í því að gerast teiknari.

Where the Wild Things Are (1963) er líklega þekktasta verk Sendaks. Þar segir frá drengnum Max sem kvöld eitt klæðir sig í úlfabúning og lætur öllum illum látum á heimili sínu. Hann eltir köttinn með gaffli og öskrar hástöfum á móður sína. Í refsingarskyni er Max sendur inn í herbergi án kvöldverðar og látinn jafna sig. Þar flýr hann á vit ímyndunaraflsins og við fáum að fylgjast með ferðalagi hans til landsins sem bókin dregur nafn sitt af. "The wild things" eru einhverskonar furðuverur sem gera Max að konungi sínum en hann saknar á endanum fjölskyldu sinnar og finnur ljúfan ilm af kvöldverði sem móðir hans er að laga frá grunni og því snýr hann til baka í herbergi sitt þar sem hann finnur heitan mat sem móðir hans hafði skilið þar eftir handa honum. Þetta er heilmikil og töfrandi fantasía sem myndskreytingar Sendaks lyfta á æðra plan. Sagan lætur mér líða vel. Þegar Max er er lokaður inn í herbergi er hann fullur af reiði og neikvæðum tilfinningum, hann hefur hagað sér illa og hann skammast sín. Hann nær að komast út úr þessari tilfinningaflækju með hjálp ímyndunaraflsins, ástarinnar og alls þess góða. Heiti kvöldverðurinn innsiglar svo ástina og öryggið og Max er ánægður piltur í lok sögunnar. Raunar virðist það vera rauður þráður í verkum Sendaks hvernig börn kljást við neikvæðar tilfinningar; reiði, afbrýðisemi og ótta, og ná sáttum við þær og komast aftur í takt við raunveruleikann.

Hin bókin eftir Sendak sem sonur minn fékk að gjöf heitir In the Night Kitchen (1970). Þar segir af draumförum drengsins Mickeys en í draumnum lendir hann í eldhúsi þar sem hann aðstoðar bakara við að baka köku morgundagsins. Mickey lendir ofan í deginu og atburðarrásin er einkar súrrealísk. Þegar nokkuð er liðið á bökunartímann stekkur Mickey upp úr deginu og gerir athugasemdir við það að bakararnir hafi gleymt að setja mjólk í deigið. Mickey útbýr sér flugvél úr kökudeiginu og flýgur ofan í risavaxna mjólkurflösku sem hann eys upp úr mjólk til að nota í degið. Þannig bjargar hann kökunni  og vaknar sæll að morgni í rúmi sínu. Á meðan á öllu þessu bardúsi stendur er Mickey kviknakinn og við sjáum typpi hans og pung einkar vel þegar hann veltir sér upp úr deiginu og syndir sæll og kátur í risavaxinni mjólkurflösku. Ég pældi nú reyndar ekki í því þegar ég var að lesa söguna en með gúgli komst ég að því að þetta vakti heilmikla hneykslun árið 1970. Mjólkurhvítur vökvinn og risavaxna flaskan vöktu ýmis hugrenningatengsl sem þóttu ekki við hæfi í barnabók og raunar hefur sagan verið umdeild allt fram á þennan dag vegna þessa. Mér finnst þessi súrrealíski heimur bókarinnar einstaklega heillandi og ég veit að ég á eftir að lesa bókina óendanlega oft fyrir son minn og mig sjálfa.


Maurice Sendak er enn á lífi og býr í Conneticut. Fyrir nokkrum árum missti hann lífsförunaut sinn til 50 ára og býr hann nú einn með hundi sínum. Hér má lesa ansi skemmtilegt viðtal við hann.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

"Maurice Sendak penis white liquid scandal 1970"

Þórdís Gísladóttir sagði...

Mér fannst bækurnar um Beverly Gray skemmtilegar. Hún þeysti um heiminn með ritvélina sína og var alltaf að lenda í ævintýrum. Já og svo voru bækurnar þýddar á íslensku af Kristmundi Bjarnasyni, kommúnista í Skagafirði.

Eyja M. Brynjarsdóttir sagði...

Mér fannst það einn af stóru kostunum við að búa með börn í Bandaríkjunum hvað úrvalið af barnabókum var mikið meira en ég hafði vanist, enda liggur það beint við ef stærð íslensks og ensks málsvæðis eru bornar saman. Þetta gilti ekki síður þegar dætur mínar urðu eldri, þær (þ.e.a.s. þær tvær eldri, sem fluttu læsar heim frá USA) héldu áfram að lesa mjög mikið á ensku vegna þess að þá höfðu þær svo margfalt meira úr að moða en ef þær hefðu bara haldið sig við barnabækur á íslensku.