22. mars 2012

Prófessor og rithöfundur en þó ekki forseti

Ármann Jakobsson er miðaldabókmenntafræðingur og prófessor við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Eftir að hafa lagt stund á fræðistörf um allnokkurt skeið og gefið út dágóðan slatta af efni á því sviði laumaðist (tja, eða kannski fór það ekki svo leynt) hann til að gefa út skáldsöguna Vonarstræti árið 2008 og svo Glæsi 2011 og um þær hafa allir almennilegir íslenskir bókmenntavefir fjallað. Á Ármanni er að heyra að jafnvel kunni að vera von á fleiri skáldsögum frá honum einhvern tíma. Druslubækur og doðrantar tóku hann tali.

D&D: Hafðirðu látið þig dreyma lengi um að skrifa og/eða gefa út skáldsögu áður en þú lést verða af því?

ÁJ: Ég hafði sannarlega skrifað skáldsögur áður, frá 18 ára aldri var ég yfirleitt með skáldsögu í smíðum í nærfellt áratug og hef ekki tölu á því hversu margar þær urðu alls, a.m.k. fjórar eða fimm. En aldrei fannst mér þær verða nógu góðar og í þau tvö skipti sem ég ræddi við útgefendur voru þeir býsna sammála mér um það. En síðan hætti ég að hugsa um skáldskap um hríð, gafst eiginlega upp á þessum draumi. Sögurnar hættu þó aldrei að birtast í kollinum og svo kom að því að mér var nauðugur einn kostur að fara að láta draumana rætast til að geta haldið áfram tilvistinni. Ég hreinlega varð. Það á aldrei að bíða of lengi með draumana. En ég er allt annar maður en sá sem skrifaði þessar fyrri sögur. Enda kemur ekki til greina að gefa þær út, ekki einu sinni þær skárstu.


Hvernig gengur þér að samhæfa líf rithöfundarins og fræðimannsins? Verða aldrei árekstrar milli fræðimannsins Ármanns Jakobssonar og rithöfundarins Ármanns Jakobssonar? Ef svo er, hvernig ferðu að því að leysa úr þeim? (M.ö.o. hvor þeirra sigrar?)

Langflestir rithöfundar þurfa að vinna við eitthvað annað og þá jafnvel störf sem krefjast athygli og umhyggju. Í raun og veru er fræðimaðurinn rithöfundur líka, af mínum átta frumsömdu bókum í fullri lengd er minnihlutinn skáldverk. Þannig að líklega hefur fræðimaðurinn hjálpað rithöfundinum, bæði þjálfað hann í að skrifa og hjálpað honum að hafa eitthvað að skrifa um. Fyrir mér eru þetta engar andstæður heldur tvö náskyld störf, nánast sama starf. Til eru fræðimenn á mínu sviði sem líta á sig sem rithöfunda á sviði fræðiskrifa frekar en vísindamenn. Þannig að ég held að hvorugur sigri, ég held að þetta sé liðakeppni og þeir séu í sama liði.

Finnst þér að fræðimenn mættu gera meira af því að bregða sér í önnur hlutverk, t.d. rithöfundar eða eitthvað annað? Eru einhver hlutverk meira viðeigandi en önnur? Og finnst þér að rithöfundar mættu gera meira af því að prófa að gera eitthvað annað? Eða er þetta samkrull kannski eitthvað sem þú almennt ræður fólki frá að reyna?

Ég held reyndar að það sé rithöfundum almennt til gagns að geta helgað sig ritstörfunum og þurfa ekki að vinna t.d. í banka eða á auglýsingastofu eða í Háskóla Íslands – þá geta þeir lagt alla orku sína í bækurnar og veitir ekki af. Ég neita því ekki að stundum þægi ég meira næði en mér veitist í minni vinnu. En fæstir rithöfundar á Íslandi búa við þau kjör að geta helgað sig ritstörfunum eingöngu; þá er kannski gott að vera í starfi sem hægt er að fá eitthvað úr sem nýtist í bækur. Ég held að mitt starf sé þannig en eflaust á það við um fleiri störf.

Þú hefur velt fyrir þér leiðum til að gera konur sýnilegri í bókmenntasögunni, eða alla vega í miðaldabókmenntasögu. Hvers vegna finnst þér mikilvægt að þær séu sýnilegar?

Um það bil helmingur (og sjálfsagt ríflega) lesenda slíkra rita eru konur. Í venjulegum íslenskum bekk eru bæði kynin saman og þá á það helst að vera eins í bókunum. Hvers vegna ættu stúlkurnar aðeins að fá að lesa um karla í bókum af þessu tagi en ekki konur líka? Dytti einhverjum í hug að láta stráka lesa bækur þar sem ekki er sagt frá neinum karlkyns verum? Er ekki meiraðsegja verið að kvarta yfir því núna að of margar konur skrifi barnabækur og þá vanti drengina fyrirmyndir?

Finnst þér fólk í kringum þig sýna því skilning að það sé mikilvægt að hafa konurnar með í bókmenntasögunni? Gildir það um fólk af báðum kynjum?

Ja, einir 30 manns mættu á erindi mitt um þetta efni. En raunar verð ég að viðurkenna að fremur fáir aðrir sýndu efninu verulegan áhuga. Held að enginn karl hafi spurt mig út um þetta erindi nema Eiríkur Guðmundsson raunar sem kom og ræddi við mig fyrir Víðsjá. Ólíkur er Eiríkur öðrum mönnum, svo að ég vitni í Njálu.

Á RIKK-fyrirlestrinum þínum um daginn voru karlar í miklum minnihluta meðal áheyranda. Er það yfirleitt svoleiðis þegar þú heldur fyrirlestra eða er það bara þegar þú talar um konur í bókmenntasögunni?

Konur eru gjarnan í meirihluta á fyrirlestrum í hugvísindum hérna við Háskólann og ekki síst í bókmenntum, hvað þá þegar komið er að konum í bókmenntasögunni. Ég neita því ekki að stundum þægi ég fleiri karla í salinn, ekki síst þegar þetta er umræðuefnið.

Mér er það minnisstætt frá því að ég var í menntaskóla að einhverjir skólabræður mínir sem þóttust vera miklir bókmenntaáhugamenn sögðust ekki hafa áhuga á að lesa bækur eftir konur. Heldurðu að þetta eigi við enn í dag og líka um fullorðna karlmenn?

Höfðu Astrid Lindgren, Enid Blyton og Tove Jansson gengið svona gjörsamlega fram af þeim? Svo að ekki sé minnst á Agöthu Christie? Ég held að „þóttust“ sé lykilorð í þessari setningu. Miklir bókmenntaáhugamenn geta ekki leitt hjá sér kvenkyns rithöfunda. Og þegar ég hugsa um það ætti kannski að gera þetta að viðmiði um hversu marktækir menn séu í umræðu. Þeir sem ekki geta nefnt fimm kvenrithöfunda sem þeir hafa dálæti á, þeir skuli þagna tafarlaust. Þá fengi ég að tala lengi lengi.

Það virðist vera dálítið algengt í ýmsum fræðigreinum að karlar, jafnvel þeir sem vilja vel, gleymi að hafa konur með, hvort sem það er í bókum sem fjalla um sögu einhvers, safnritum með greinum eftir fræðimenn (núlifandi sem látna) eða þegar verið er að skipuleggja ráðstefnur. Af hverju heldurðu að það sé?

Ég hef ekki orðið mjög var við þetta sjálfur í mínu fagi. Núna er að koma greinasafn um fornaldarsögur Norðurlanda sem ég ritstýri og þar eru tólf höfundar konur en átta karlar. Raunar eru hinir tveir ritstjórarnir báðir konur líka og ritstjórnarfulltrúinn og ritstjórinn okkar hjá Háskólaútgáfunni líka. Ekki man ég eftir að við höfum velt fyrir okkur kynjahlutfalli fyrirfram en raunar varð ég ekki heldur var við það að konur bæðust undan að taka þátt, eins og sumir þáttastjórnendur í sjónvarpi kvarta undan. Kannski er þetta óvenjulega gott hlutfall en ekki óalgengt í norrænum fræðum, held ég. En ég skal ekki rengja það að stundum gleymi ritstjórar konum og það er þá væntanlega af því að þeir búi í karlmiðuðu umhverfi þar sem öll athyglin beinist að körlum og verkum þeirra. Mig grunar að það eigi við jafnvel í sumum greinum hugvísinda.

Skiptir kyn sögupersóna máli í skáldsögum þannig að t.d. rithöfundur beri ákveðna ábyrgð á því að skapa persónur af báðum kynjum, gæta sín á kynjaklisjum og þar fram eftir götunum? Ef svarið er já, finnst þér þú hafa staðið undir þeirri ábyrgð í þínum skáldsögum?

Það skiptir sannarlega máli að skáldsögur fjalli um bæði kynin en hins vegar finnst mér ekki endilega að allar skáldsögur þurfi að gera þeim jafnt undir höfði, það fer eftir umfjöllunarefninu. Í seinustu sögu minni eru karlmenn yfirþyrmandi en ég held samt að hún sé ekki endilega mjög klisjukennd hvað varðar kynhlutverkin. Sögumaðurinn í þeirri sögu er sannarlega enginn jafnréttissinni og þeir sem telja nafngreindar konur í bókum yrðu sannarlega ekki ánægðir með þessa þar sem sögumaður minn kýs að nafngreina ekki þrjár mikilvægustu konurnar í lífi sínu. Ég man ekki eftir að neinn ritdómari hafi beinlínis nefnt þetta en sjálfum finnst mér þetta mjög undarlegt og er eitt af mörgum dæmum um að sögumaðurinn sé frekar undarlegur. Sagan þar á undan var að mestu frá sjónarhorni konu og ég hitti nokkra lesendur sem fannst ég eiga lof skilið fyrir að geta sett mig í spor konu. Ég man aldrei eftir að kvenkyns höfundi hafi verið hælt fyrir að geta sett sig í spor karls en kannski hefur það komið fyrir. Stundum gleymist að fólk er ekki aðeins karlar og konur heldur líka margt annað og allir höfundar þurfa að setja sig í spor einhvers. Persónulega fannst mér þessi tiltekna kona heldur nálægari en karlinn sem ég gerði að sögumanni í næstu sögu. Nú er kannski ekki mjög ráðlegt að minnast á ósamdar sögur en sú sem ég hef næst á prjónunum verður um bæði kynin og ég tel að hún muni standast hið illræmda „Bechdel-próf“ sem allir karlrithöfundar óttast öðrum fremur, næstum meir en vefsíðuna hennar Hildar Lilliendahl.

Þegar þú varst barn, hvað ætlaðirðu að verða þegar þú yrðir stór? Voru miðaldabókmenntafræðingur og/eða rithöfundur inni í myndinni?

Ég var alltaf sannfærður um að ég yrði mikilmenni af einhverju tagi. Held að rannsóknir á miðaldabókmenntum hafi ekki verið mér ofarlega í huga en hitt man ég að mér þótti ekki ólíklegt að ég yrði bæði doktor og prófessor, án þess að ég vissi nákvæmlega hvað það merkti. Árið 1980 fannst mér ekkert annað koma til greina en að ég yrði forseti Íslands. En núna er ég orðinn nógu gamall og enn engar áskoranir farnar að berast.

Hvernig finnst þér bókmenntaumfjöllun á Íslandi í dag? Er eitthvað sérstakt sem þú vildir sjá breytast?

Ja, það þýðir ekkert að kvarta yfir henni meðan ég kenni bókmenntir við Háskóla Íslands. Hverjum öðrum en okkur er það að kenna ef bókmenntaumfjöllunin er ekki nógu góð? En auðvitað finnst mér að hún mætti vel aukast og auðvitað væri líka gott ef meira rými væri fyrir dýpri bókmenntaumfjöllun, þ.e. umfram ritdóma um nýútkomnar bækur. Þessir blessuðu fjölmiðlar hér á landi fjalla lítið um bækur á nýstárlegan hátt, stundum er eins og fólki með ímyndunarafl sé harðbannaður aðgangur að þeim. Og þó veit ég ekki nema að blaðamenn reyni en fá sjálfsagt litlar undirtektir stundum hjá kollegunum. Annars held ég að bókmenntaumfjöllunin sé öll að aukast, örugglega ekki síst fyrir tilstilli netsíðna eins og þessarar. Grasrótarstarfið skiptir máli.

Lofaðu að fara ekki að telja: Hvert myndirðu giska á að væri kynjahlutfallið meðal þeirra höfunda sem fjallað er um á Druslubókum?

Vonandi er það sem jafnast en mér þætti ólíklegt að kvenrithöfundar væru fleiri en karlar, jafnvel á þessari ágætu síðu.


***

Áður en við ljóstrum upp svarinu við síðustu spurningunni sem lögð var fyrir Ármann væri gaman að fá nokkrar ágiskanir frá lesendum. Sem sagt: Notið endilega athugasemdakerfið til að giska á kynjahlutfall höfunda sem fjallað er um á Druslubókum og doðröntum.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sælar
Ég er handviss um að kynjahlutföllin eru um það bil jöfn.
Kveðja
María Hrönn

Kristín Svava sagði...

Ég hef sjálf ekki hugmynd um hvert kynjahlutfallið er - sennilega ekki mikil slagsíða í hvoruga áttina - en vildi benda á að Auði Övu Ólafsdóttur var mikið hrósað fyrir að hafa getað sett sig í spor ungs karlmanns í Afleggjaranum.

Nafnlaus sagði...

Sælar dömur. Ég myndi giska á að hlutfallið væri kannski 60-40 körlum í hag?

Kveðja,
Birgir

Kristín í París sagði...

Ég myndi giska á að þau væru nokkuð jöfn en leyfi mér um leið að efast um að þið sjálfar hafið mikið pælt í því alla jafna.