2. júní 2012

Dýrasögur eftir David Sedaris

Bók David Sedaris, Squirrel Seeks Chipmunk, hefur fengið vægast sagt blendnar viðtökur síðan hún kom út haustið 2010. Einn viðskiptavinur Amazon hefur látið eftirfarandi orð falla um bókina: „These stories are brutal, vulgar, even hateful. [...] The only commentary seems to be that people are awful, and life is misery.“ En annar segir: „Simply amazing...“ Ég ætla að vera alveg hrikalega flippuð og segja: hún er svona la la. Ágæt. Bara fín.

Bókin er safn stuttra sagna og sumar þeirra eru ótrúlega fyndnar, aðrar ekki. Ian Falconer myndskreytir sögurnar virkilega skemmtilega. Þetta er fyrsta Sedaris-bókin sem ég les, þannig að ég varð ekkert sár yfir því að sögurnar væru ekki allar algjör snilld (eins og margir aðdáenda hans sem tjá sig á amazon.com). Þótt sögurnar í Squirrel Seeks Chipmunk fjalli um dýr, er viðfangsefni þeirra í raun manneskjur eða manngerðir. Það mætti kannski kalla þær dæmisögur Esóps fyrir fullorðna, fyrir utan það að í þeim leynist enginn boðskapur. Dýrin eru breysk, sum þeirra reyndar alveg snarvitlaus, og samtölin þeirra á milli eru oft ótrúlega fyndin. Það er bara eitthvað við dýr sem gædd eru mannlegum eiginleikum, ég held að það sé eiginlega ekki til neitt skemmtilegra. Næstum því allir brandararnir á internetinu (sem eru eitthvað fyndnir) fjalla um dýr sem haga sér eins og manneskjur

Myndirnar sem prýða bókina eru frábærar.
Hugmyndin að bókinni var afskaplega góð og margar sagnanna voru vissulega vel heppnaðar. Ég las bókina á meðan ég var í stuttu ferðalagi og reyndi að treina mér hana, leyfði mér bara lesa eina sögu í einu af því annars hefði hún strax verið búin. Það gerði lesturinn held ég ánægjulegri, því ég fann yfirleitt eitthvað skemmtilegt til að lesa upp fyrir ferðafélagann (mömmu) þegar ég dvaldi lengi við sögurnar, Sedaris er svo skemmtilegur penni. Stundum las ég reyndar heilu sögurnar upphátt og lék dýrin, sem varð til þess að við mamma hermum ennþá eftir móðurlausa birninum úr sögunni „Motherless Bear“ þegar okkur finnst við vera dottnar í sjálfsvorkunn. Ég mæli sérstaklega með „The Toad, the Duck and the Turtle“, sem fjallar um halakörtu, önd og skjaldböku sem eru í röð sem leiðir að óskilgreindu kvörtunarborði og tengjast vinaböndum við að tala illa um slönguna sem vinnur á borðinu. „The Grieving Owl“ er líka frábær, en hún fjallar um óvenjugáfaða uglu og sníkjudýr sem búa í endaþarmi flóðhests. Þetta er að bók sem allir sem eru örlítið antrópómorfískir ættu að minnsta kosti að kíkja á.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég fór að skæla yfir djass-sögunni á tilfinningasömu kvöldi. Mæli annars með The Santaland Diaries ef þig langar að lesa eitt af því fyndnasta eftir Sedaris. Held hún sé m.a.s. á netinu einhvers staðar.

Salkmundur