30. ágúst 2012

Frönsk börn frekjast ekki

Ég bý bandarískri borg sem státar af prýðilegum almenningsbókasöfnum og almennt læsi hér um slóðir er með því besta sem gerist á landsvísu. Það kostar ekki krónu að fá bókasafnsskírteini og kom sú staðreynd mér þægilega á óvart. Ég var búin að búa hér í nærri ár þegar ég gerði mér fyrst ferð á bókasafnið. Tveggja ára sonur minn beið spenntur með krypplaðan 20 dollara seðil í lúkunni sem hann hugðist rétta miðaldra bókasafnsfræðingi íklæddum peysu skreyttri maískólfum, í skiptum fyrir skírteini. Hún saup hveljur og sagði "oh no my dear! It´s public service!"

 Það eru fjölmörg bókasafnsútibú í borginni og þjónusta við börn og heimavinnandi mæður er umtalsverður hluti af starfsemi þeirra. Jafnréttisbaráttan er nefnilega fremur stutt á veg komin hér eins og kunnugt er og ekki útlit fyrir að hún taki nein stökk upp á við í nánustu framtíð. Fæðingarorlof er ekki lögbundið og dagvistun er rándýr. Það er því mjög algengt að mæður séu heima með börn sín allt fram á skólaaldur, og jafnvel að þær annist líka heimakennslu barnanna. Í kringum þetta allt saman skapast risavaxinn heimur sem getur verið erfitt fyrir konu frá hálfköruðu, skandinavísku velferðarríki að skilja.

Flesta daga eru bókasöfnin full af börnum undir sex ára aldri í fylgd mæðra sinna sem eygja þarna kærkomna stund til þess að draga andann utan veggja heimilisins og leyfa afkvæmunum að njóta samvista við önnur börn. Þessu fylgir auðvitað heilmikið fjör og læti og hin hefðbunda hugmynd um bókasafn - musteri þagnar og þekkingar - hefur örlítið látið undan síga í mínum huga. En ekki kvarta ég því syni mínum finnst afskaplega góð skemmtun að kíkja á bókasafnið, dvelja svolitla stund í barnakróknum og velja sér bækur. Við kíkjum því reglulega eftir leikskóla til þess að kynna okkur nýjustu stefnur og strauma í barnabókmenntum og slaka svolítið á. Í króknum góða er líka hugsað fyrir því að mæður hafi eitthvað til þess að glugga í meðan börnin hafa ofan af fyrir sér. Það eru reyndar eingöngu uppskrifta- , handavinnu- og uppeldisbækur sem eru í boði. Ef maður vill lesa eitthvað annað þarf maður að standa upp og gera sér ferð yfir safnið þvert og endilegt. Ég er ekkert að láta það fara í taugarnar á mér heldur kíki yfirleitt í einhverjar matreiðslubækur, enda finnst mér mjög gaman að elda.

Um daginn sá ég bók í hillunni sem ég ákvað að taka með mér heim. Ég hafði heyrt um hana á ýmsum stöðum á internetinu og yfirleitt verið ágætlega af henni látið. Hún ber titilinn Bringing Up Bébé. One American Mother Discovers the Wisdom of French Parenting og fjallar, eins og undirtitillinn gefur til kynna, um bandaríska móður sem er sannfærð um ágæti franskra uppeldisaðferða og ákveður að kynna sér þær nánar. Mig rámar í bók sem kom út fyrir nokkrum árum um franskar konur og þeirra matarsiði, hún kom meira að segja út í íslenskri þýðingu og heitir að mig minnir Franskar konur fitna ekki. Ég las hana aldrei en þessi bók ímynda ég mér að sé skrifuð á sömu nótum. Þessar Frakkar eru að gera eitthvað frábært og rétt, förum og könnum hvað það er!Höfundurinn, Pamela Druckerman, er gift breskum manni. Áður en hún eignaðist börnin var hún blaðamaður í New York sem ferðaðist víða, m.a til Argentínu þar sem hún kynntist hinum breska Simon sem hún varð ástfangin af. Hún missir vinnuna um svipað leyti og ákveður að flytja með Simon til Parísar og þau eignast fyrsta barnið sitt stuttu síðar. Upphefjast þá miklar spekúlasjónir og samanburður á ólíkum uppeldisaðferðum milli menningarheima.

Ég var svolítið efins um þær forsendur sem höfundurinn gefur sér. Hún telur, og rökstyður með dæmum, að frönsk börn séu upp til hópa sérstaklega geðug og vel upp alin. Þau borði allan mat sem fyrir þau er borinn, fái aldrei frekjuköst og grípi ekki frammí fyrir fullorðnum. Svo mikill munur sé á þeim og bandarískum börnum að franskir foreldrar hljóti að vera gera eitthvað í grundvallaratriðum allt öðruvísi en bandarískir foreldrar. Ég hef aldrei komið til Frakklands og þekki varla eitt einasta franskt barn svo ég er varla dómbær á þetta. En ég á góða vinkonu sem er gift frönskum manni og hefur búið lengi í París. Hún vildi meina að það væri eitthvað til í þessari tilgátu höfundarins. Strúktúr samfélagsins sé einfaldlega svo niðurnjörvaður og formfastur að frönsk börn séu mjög snemma steypt í ákveðið mót - þau læri að sitja bein í baki, kyssa á báðar kinnar, tala ekki þegar fullorðnir eru að tala o.s.frv. Það sé það mikil sátt um það í samfélaginu hvað teljist sjálfsagðir mannasiðir að það þarf ekki sérstakt átak foreldranna til, heldur fái börnin þetta einfaldlega með móðurmjólkinni ef svo má segja. Ég spurði hana reyndar hvort franskir foreldrar væru ekki bara mikið í því að flengja börnin og knýja þannig fram þessa einstöku hlýðni. Hún taldi svo ekki vera.

Ég held að bókin geti alveg staðið undir nafni sem chick-lit fyrir mömmur. Pamela skrifar skemmtilega og það er gaman að fylgjast með henni ströggla við að ala upp börnin sín þrjú í París. Hún fléttar uppeldiskenningum frá ýmsum tímum - allt frá Rousseau til Ferber hins umdeilda - inn í textann. Hún hefur lagst í töluverðar rannsóknir og gerir áhugaverðar tilraunir til þess að skýra sögulega ýmsar hugmyndir Bandaríkjamanna um uppeldi, til dæmis hversvegna bandarísk millistétt sé svo tortryggin út í dagvistunarstofnanir. Hún er líka meðvituð um stéttahugtakið og ræðir sérstaklega efnahag og menningarlegt kapítal foreldranna.

Pamela má eiga það að hún er á verði gagnvart mörgum klisjum sem eiga það til að poppa upp þegar Bandaríkjamaður fer til Parísar. Þá á ég ekki hvað síst við hugmyndina um Bandaríkjamanninn sem er að ærast úr spenningi yfir að drekka í sig hámenninguna, rauðvínið og sætabrauðið og síðast en ekki síst; finna ástina. Eftir nokkra daga er hann vælandi af heimþrá í ausandi rigningu, búinn að stíga í hundaskít og hefur orðið illa fyrir barðinu á kaldlyndum Frökkum sem finnst ekkert fyndið að fólk sé að prófa sig áfram í frönsku við gesti og gangandi.

Mér finnst hún ekki draga upp sérstaklega skemmtilega mynd af frönskum mæðrum - þær virka svolítið stífar. Þær eru of miklar skvísur til þess að hafa börnin sín á brjósti lengur en nokkrar vikur, sjást aldrei klifra í leiktækjum á róló og eru sko alls ekki með Cheerioshringi hringlandi í smekklegri handtöskunni eins og hér um bil hver einasta bandarísk móðir. Hún kemur raunar að því sem ég hafði látið mér detta í hug áður en ég byrjaði að lesa bókina – líkamlegum refsingum en skv. könnunum sem hún vitnar í eru um 80% franskra foreldra sem hafa beitt börn sín líkamlegum refsingum af einhverju tagi án þess að það sé farið mjög nákvæmlega í merkingu þess.

Ég hef svosem enga sérstaka skoðun á bandarísku uppeldi. Það er margt í samfélagsgerðinni sem ég held að geri margar mæður helteknari af börnum sínum og uppeldi þeirra en hollt getur talist. Sú staðreynd að margar þeirra eru heima árum saman með börn sín segir auðvitað heilmikið. Margar þeirra gera einskonar "karríer" úr móðurhlutverkinu - lesa sérhæfð tímarit um uppeldi, tileinska sér einhverja ákveðna strauma eða stefnur og verða stundum á frekar sorglegan hátt viðfang stórfyrirtækja sem vilja selja þeim allskyns varning sem á að vera ómissandi í barnauppeldinu.

Þær bandarísku mæður sem ég þekki eru margar mjög uppteknar af því að hafa uppeldið sem „náttúrulegast“ og aðhyllast stefnu sem gengur einfaldlega undir nafninu Attachment Parenting. Þær eru yfirleitt með börn sín lengi á brjósti, leyfa þeim að sofa upp í, nota taubleyjur og eru áhugasamar um heimafæðingar. Samkvæmt Pamelu nýtur þessi hugmyndafræði engrar hylli í Parísarborg. Segir hún í því sambandi frá vinkonu sinni bandarískri sem átti að fara að fæða á frönskum spítala og bað um að fá bolta til þess að rugga sér á meðan hún væri með mestu verkina og fæða svo í baði. Franski fæðingarlæknirinn benti henni kurteislega á að spítalinn væri hvorki sirkus né dýragarður og hún skyldi gjöra svo vel að leggjast á bakið í rúmið og glenna sundur fæturna ef hann ætti að taka á móti barninu.

Það kann vel að vera að frönsk börn séu sér á báti hvað varðar mannasiði og að þau séu mun þægilegri á allan hátt en bandarísk börn. Ég er samt ekki viss um að ég myndi vilja beita þessum aðferðum á mín eigin börn. Pamela bendir raunar sjálf á að það er margt sem Frakkarnir gera sem kann að vera bælandi og kúgandi fyrir börn og erfitt gæti reynst fyrir þau sem fullorðna einstaklinga að brjótast út úr mynstrinu. Hún segist t.d. þekkja margar franskar konur komnar vel á fertugsaldur sem sé lífsins ómögulegt að opna munninn að fyrra bragði yfir kvöldverði - þær tali hreinlega ekki nema á þær sé yrt. Varla getur það verið vísbending um gott og ástríkt uppeldi.

Ég hafði ágætlega gaman að Bringing Up Bébé og mér sýnist hún hafa fengið ágæta dóma víðast hvar. Ég get alveg mælt með henni fyrir þá sem á annað borð hafa einhvern áhuga á umfjöllunarefninu og mér þætti gaman ræða þetta betur við einhvern sem þekkir vel til í Frakklandi.

10 ummæli:

Kristín í París sagði...

Ég hef þúsund hluti um þetta að segja, hef mjög mjög mikið pælt í þessu og frétti einmitt nýlega af þessari bók og langar að lesa, en bara fyrir forvitni sakir. (Það var amerísk kona sem sagði mér frá henni og hún er ákveðin í að ala barnið sitt upp á franskan máta - var m.a.s. byrjuð að kenna henni frönsk orð (barnið var smákrakki).)
Börnin mín eru 10 og 8 ára og alin upp í Frakklandi, franskur pabbi. Þau eru alveg sérlega vel lukkuð eintök, bæði afar róleg, kurteis og samt bæði skemmtileg og hugmyndarík. Mér finnst það æði og þoli ekkert sérlega vel uppivöðulsemi í krökkum, þegar hún er á ákveðnu stigi. Ég tek það fram að mér finnst börn eiga að fá að vera börn og leika sér og hlæja og ég tel börnin mín ekki vélmenni.
Ég hef líka nokkrum sinnum lýst yfir áhyggjum af því hvað dóttir mín er hlýðin og einmitt í dag lentum við í furðulegri senu þar sem ég var að reyna að fá hana til að borða fallafel en henni fannst það vont og þorði samt ekki að segja mér og var að pína það ofan í sig (það var ókunnug, íslensk kona að borða með okkur) og endaði á því að fara að hágráta þegar ég fór að spyrja hvort ekki væri í lagi með hana. Henni verður svona svakalega um og ó í hvert skipti sem henni finnst ég gæti haft ástæðu til að verða "reið". Ég verð næstum aldrei reið og oftast er það þá mjög snöggt og svo búið um leið og langoftast ef ég verð sjálf hrædd (týni þeim) og þau líka og allir bara leysa úr reiðihnútnum saman.

EÐA. Þetta er eins og ég sé mig.

Fyrir um ári síðan kom hins vegar vinkona mín í heimsókn og eitt kvöldið tjáði hún mér að henni fyndist ég allt of ströng við þau, það væri hrikalegt hvernig ég byrsti mig stundum við þau. Ég kom af fjöllum.
En það er satt að ég á það til að sussa þau niður ef þau fara að verða of æst, sérstaklega inni í eldhúsi, sem er hrikalega lítið og glymurinn leiðinlegur og ég þoli mjög illa hávaða og glym, það á ekki bara við um börn, heldur allt, tónlist, sírenur og bara allt.

Mér finnst þetta ágætur punktur með niðurnjörvun og kannast við þessa ofurkurteisi sem fer stundum í mínar fínustu. Og ég var ekkert smá glöð um daginn á kaffihúsi þegar 5 ungar stelpur koma blaðskellandi og byrja að drekka áfengi og tala bara alveg ótrúlega hátt og skella upp úr og sýndu ekki nokkur merki þess að þær færu hjá sér við það. Alveg ný reynsla fyrir mér og ég vona að þær hafi séð að ég brosti mínu blíðasta yfir þeim en var ekki að hnussa og fussa.

Já, þetta er margslungið og flókið og ég gæti skrifað heilan pistil eða pistlaröð um mig sem mömmu í útlandinu, um fæðingar og slíkt (hló upphátt við að ímynda mér boltauppástunguna) og bara svo margt fleira.

Langar að koma því að að ég finn mun meiri tengingu við afrískar mæður, bæði þær svörtu og þær arabísku, m.a.s. líka gyðingamæðurnar. Þær eru uppáhaldið mitt, því þær vaða upp í klifrugrindur og setjast á hnén í sandkassann eins og ég, nema að ég er drusla á gallabuxum en þær eru ofurskvísur í stuttum kjólum og pinnahælum.

Kristín í París sagði...

Og, ég held að í raun sé margt til í bæði því að franskar konur fitni ekki og börnin frekist ekki og að það sé sama hliðin á sama peningnum... En hver er vinkona þín í París, Hilma? Ég er forvitin :)

Þórdís Helgadóttir sagði...

Mér finnst rugl gaman að þið séuð að spjalla um þessa bók. Ég las hana um daginn og er búin að vera að blaðra um hana við alla, mér finnst svo margt sniðugt í henni. (Líka margt snarbilað eins og að rassskella, gefa ekki brjóst og vera með þyngdina á heilanum alla meðgönguna.)

Kristín, kannast þú við þetta "sais sage"-viðkvæði sem hún skrifar um í bókinni? Eins og ég skildi það þá bjó að baki einhver hugsun um það að fá börnin til að nota sjálf eigin dómgreind til að ráða fram úr aðstæðum, og það heillaði mig svo ofsalega mikið. Hún talaði um fleira í sama dúr, að ala börnin upp til að verða sjálfstæð og dugleg - eins og þessi þriggja ára sem stóð upp á eldhússtól og bakaði smákökur alveg sjálf á meðan mamman slappaði af og fékk sér kaffi með vinkonu. (Ég á 18 mánaða kríli og lít svo á að ég hafi klúðrað öllu ef við verðum ekki búin að ná þessu fyrir 3ja ára afmælið!)

Móa sagði...

Já þetta þykir mér athyglisverð bók, enda alin upp í frakklandi og með hrikalega fordóma fyrir ameríkönum sem ég á erfitt með að losa mig við. Ég get ekki sagt að ég sé neinn sérstakur sérfræðingur um franskt uppeldi, en finnst þetta óskaplega miklar alhæfingar.
Hins vegar viðurkenni ég að ég rek mig oft á það í mínu eigin uppeldi að mér finnst börnin mín stundum uppivöðslusöm og ókurteis en þá er ég kannski að gera franskar kröfur til þeirra...og þau eru nú bara íslensk. Þegar ég kom í íslenskan grunnskóla fyrst kom mér mjög á óvart að hlusta á börnin svara kennaranum fullum hálsi, ekki standa upp þegar hann kom inn og lengi gæti ég talið. Mér var t.d. kennt að standa upp þegar eldra fólk kæmi inn í herbergið, leyfa eldra fólki að fá sæti mitt í strætó, segja fyrirgefðu endalaust...
Kurteisi er í heiðri höfð í miðevrópu sem er ekki hægt að segja um ísland...Hér í skotlandi eru allir svo kurteisir að mér verður stundum nóg um, kennari yngstu dóttur minnar er t.d. alltaf að þakka mér fyrir stuðningin...við mitt eigið barn!
Veit ekki hvað skal segja um bandarísk börn. en hjá íslenskum börnum er ýtt undir aðra eiginleika s.s. hreinskilni.
sois sage, viðkvæðið eða vertu þægur kannast ég við! bæði frá íslandi og frakklandi...
Að lokum held ég að franska mamman á pinnahælunum og í minipilsinu sem gefur ekki brjóst og rassskellir sé ein af margs konar frönskum mömmum, sú er jafnvel líka með sígarettu í munnvikinu því hún vill ekki hætta að reykja svo að hún fari nú ekki að fitna...það eru ýmsar hliðar á þessum peningi eins og Kristín segir. Móa

Þórdís Helgadóttir sagði...

Já, sois sage, heitir það! En spælandi - ég las það út úr þessu að franskir foreldrar væru agalega mikið að höfða til skynsemi barnanna sinna í staðinn fyrir að skipa þeim að haga sér vel "bara af því að ég segi það". Veit ekki hvort það er Pamela eða bara ég....

Hilma sagði...

Takk fyrir þessi skemmtilegu komment!

Kristín - ég sé að ég hef skrifað eins og Jennifer vinkona mín búi enn í París, en hún flutti fyrir nokkrum árum aftur til USA eftir að hafa verið við nám þar og er núna að klára doktorsritgerðina sína hér í frönsku. Maðurinn hennar er frá Réunion eyju og þau kynntust í París.

Það er mjög margt í þessu sem er áhugavert að pæla í og hún tekur mörg skemmtileg dæmi. Almennt finnst mér út frá bókinni að Frakkar leggi mikið upp úr því að vera ekki að ala á "aumingjaskap" hjá börnum sínum. Franskur læknir ávítaði t.d. Pamelu þegar hún bað barnið sitt afsökunar á því að hafa farið með það í sprautur. Sagði bara eitthvað á þá leið að sprautur væru hluti af lífinu og það væri engin ástæða til að biðjast afsökunar á þeim.

Svo tala ég eins og Attachment Parenting eigi miklu fylgi að fagna almenn í USA, en líklega er það nú bara sérstaklega mikið í kringum mig. Amk hefur sú hreyfing ekki náð að breyta neinu í sambandi við fæðingar hér á spítölunum því þær eru mjög sjúkdómsvæddar finnst mér og algjörlega á hendi lækna, ljósmæður þekkjast varla.

Þórdís - ég skildi einmitt sois sage á svipaðan hátt og þú, að það væri verið að reyna að höfða til skynsemi barnanna og láta þau sjálf taka ákvarðanir.

Franskar mömmur eru án efa mjög fjölbreyttur hópur, en þær sem Pamela er að skrifa um held ég að séu flest allar milli- og efri millistéttarkonur.

Kristín í París sagði...

Já, ég þreytist ekki á að furða mig á því hvað franskar konur eru óduglegar að gefa brjóst. Skil það ekki. En um leið hef ég tvisvar orðið vitni að því að á Íslandi upplifðu vinkonur mínar nýbakaðar mæður þar hálfgerðan brjóstamjólkurfasisma, sem var alls ekki gott heldur. Önnur hafði farið í brjóstaminnkun og ljósan tönnlaðist á því að það hefði verið óráð og hún gæti þá sjálfri sér kennt ef brjóstagjöf gengi illa (það gekk allt svona líka príma vel að lokum), hin meikaði ekki brjóstagjöf og upplifði sig sem mislukkað eintak af konu.
Ég bjóst við að eiga í erfiðleikum með að fá að gefa brjóst á kaffihúsum og svoleiðis, en það var aldrei nokkuð einasta mál. Parísarbúar hafa náttúrulega þann undursamlega eiginleika að skipta sér ekki af lífsskoðunum annarra í of miklum mæli, umburðarlyndi sem ég kann óskaplega vel við. Ef þú gefur brjóst ertu engin hetja, bara gott hjá þér. Ef þú gefur ekki brjóst ertu ekki kvikindi, bara gott hjá þér.

Sois sage og Tu vas tomber! og C'est caca. Þrjár setningar sem ég þoli illa úr franska foreldramálinu. Vertu þæg(ur), Þú dettur! og Þetta er kúkur (um allt sem barnið snertir úti á götu).


Og já, ég skildi þetta algerlega þannig að þú ættir íslenska vinkonu í París!

Hildigunnur sagði...

heh Kristín, ekki hef ég á tilfinningunni að þú ofagir börnin þín! Nákvæmlega ekkert að því að slá á yfirdrifinn hávaða hjá börnum.

Bókin er annars spennandi, best að setja hana á amazon listann. Attachment parenting finnst mér mjög scary fyrirbæri en ég hef svo sem ekki kynnt það mér alveg út í ystu æsar.

Nafnlaus sagði...

Vá ég næli mér í þessa á kindelinn eftir þennan lestur. Eftir að ég eignaðist mitt fyrsta barn í vor hef ég kynnt mér attachment parenting og finnst það mjög heillandi en það er alltaf gaman að lesa sér til um ólíkar stefnur í þessu eins og öðru.

//Margret

Hildur Ýr sagði...

Ég þekki ekkert til uppeldis í öðrum löndum, en hins vegar vekur þetta með að höfða til skynsemi barnanna upp áhuga hjá mér.
Á leikskóla barnanna minna er þeim kennd tækni til vandamálalausna. Kennararnir leysa vandamál þeirra alls ekki, heldur hjálpa þeim að leysa þau sjálf. Ef það er rifrildi eru þau látin leysa það. Ef þau eru leið yfir einhverju eru þau látin fá hugmyndir sjálf til að laga það mál. Ef allt er komið í hnút grípa kennararnir inn í, en það gerist afskaplega sjaldan.
Ég er afskaplega hrifin af þessari aðferðafræði og hef tekið hana upp heima hjá mér. Yngri börnin mín tvö eru bæði hávær og uppátækjasöm en oft koma þær mér á óvart hvað þær (þriggja og fimm ára) eru duglegar að leysa úr málunum sínum sjálfar og finna lausnir sem henta þeim, oft mikið betur en ef ég hefði verið að skipta mér af því.