30. ágúst 2012

Norskur tregi

Undirrituð druslubókadama stendur í flutningum um þessar mundir og við slík tilefni finnur maður ýmislegt skrítið og skemmtilegt úr eigin fórum, meðal annars ógrynnin öll af bókum (sé maður þannig innréttaður) sem vekja alls kyns hugrenningatengsl. Ég á mjög erfitt með að skiljast við bækur, sem sést á því að í þessum flutningum hafa aðeins tvær ratað í Góða hirðinn, annars vegar einhver skrítin sjálfshjálparbók sem einhver fyrri kommúnubúa hefur skilið eftir og hins vegar mjög vond íslensk ljóðabók. Ég hef aftur á móti fundið heilan helling af góðraminningabókum (svona fyrir utan allar þær sem ég á eftir að lesa). Ein þeirra sem ég fann í vænum stafla var bókin Meðan enn er glóð eftir Gaute Heivoll sem ég ætlaði alltaf að blogga um, var meira að segja búin að punkta hjá mér eftir lesturinn en missti einhvern veginn af lestinni á sínum tíma sökum anna og þvíumlíks. Þetta er ein uppáhaldsbókin mín af þeim sem ég hef lesið á árinu svo hún á alveg skilið eins og eina bloggfærslu.

Gaute Heivoll er (tiltölulega) ungur norskur rithöfundur sem hefur sent frá sér um tug bóka af ýmsum toga - skáldsögur fyrir fullorðna og börn, ljóð og smásögur. Meðan enn er glóð kom út hjá Máli og menningu í fyrra í þýðingu Sigrúnar Árnadóttur, en bókin - sem á frummálinu heitir Før jeg brenner ned - hlaut góðar viðtökur í Noregi, vakti umtal og var m.a. verðlaunuð með Brageprisen 2010. Það fór ekkert sérlega mikið fyrir útgáfunni hérlendis, a.m.k. hef ég þá misst af því, en ég fékk bókina senda frá Kiljuklúbbnum og las hana án þess að vita nokkuð fyrirfram. Mér finnst það yfirleitt besta mögulega aðkoman að skáldsögu (ég er káputextafælin með meiru).

Í bókinni fléttast í raun tvær sögur saman; höfundurinn sækir sér yrkisefni í atburði sem urðu á æskuslóðum hans og náðu hápunkti aðfaranótt sunnudagsins sem Gaute litli var borinn til skírnar. Í Finnslandi í Suður-Noregi gekk brennuvargur laus vorið 1978 og vakti mikinn óhug meðal íbúa á svæðinu. Gaute Heivoll segir sögu brennuvargsins (undir formerkjum skáldskaparins) en rekur jafnframt eigin þroskasögu og ákveðna atburði sem urðu til þess að hann ákvað að helga sig því að skrifa. Hann býr til portrett af tveimur ungum mönnum og einhvers konar tilvistarlegri glímu; á yfirborðinu eru sögurnar ólíkar en það er einhver sammannlegur, tregafullur og viðkvæmur strengur sem tengir þær.
Báðir takast þeir á við einsemdina og lesandinn fylgist með því hvernig veröld þeirra þrengist og raunveruleikinn tekur á sig einkennilegri mynd; sjá má hliðstæður með andlegu ástandi ungu mannanna tveggja og þannig nær höfundurinn að skapa þrívíða mynd af manninum sem fremur brotin, án þess þó að draga úr alvarleika þeirra. Annar sterkur þráður er nefnilega samfélagslýsingin; litla samfélagið þar sem allir þekkja alla og telja sig hafa fast land undir fótum er sem í heljargreipum þetta spennuþrungna vor. Hið kunnuglega verður ókunnugt og engu er hægt að treysta. Heivoll býr til innilega og trúverðuga mynd af fólkinu í Finnslandi 1978, hann velur nokkra sveitunga sína sem hann setur í öndvegi og segir einnig frá örlögum eigin fjölskyldu.

Formið á bókinni er einkar áhugavert og vekur upp spurningar um mörk skáldskapar og raunveruleika. Sjálfur hefur Heivoll tekið það skýrt fram að um skáldskap sé að ræða, enda setur hann sig í hlutverk hins alvitra sögumanns og teiknar upp tilfinningalíf persónanna sem eru þannig sannarlega uppskáldaðar þótt þær séu byggðar á raunverulegu fólki. Þannig virkar jú skáldskapurinn (sem fólk virðist fatta misvel, samanber undarleg upphlaup hér heima og víðar yfir sögulegum skáldsögum eða bókmenntum sem nota raunverulegar persónur/atburði sem stökkpall). Heivoll byggir þó einnig mikið á heimildum, t.d. dagbókum ömmu sinnar, dagblaðaúrklippum, fréttamyndskeiðum, myndum og viðtölum, en það er ómögulegt fyrir lesandann að vita að hve miklu leyti þessar heimildir eru raunverulegar og hversu nákvæmlega er farið eftir þeim. Enda skiptir það engu máli; að minnsta kosti fann ég aldrei fyrir óþægilegri togstreitu við lestur bókarinnar og var framan af ekki viss um að hún væri byggð á raunverulegum atburðum (svo kom herra Gúggl sterkur inn). Leitin að fótfestu í eigin sjálfi rennur saman við leitina að fótfestu í fortíðinni og Heivoll tekst vel upp með alla þessa ólíku þræði.

Það sem heillaði mig við þessa ágætu bók var frásagnarformið, þessi tregafulli tónn og ljóðrænan í textanum. Fegurðin í hinu hversdagslega og einfalda er dregin fram og hið smáa fær vægi. Einfaldar senur á borð við kaffidrykkju andvaka mæðinga um miðja nótt: "Nú voru þau bara tvö ein. Það var gott, og dálítið óvenjulegt, og óvefengjanlegt, og hún óskaði þess eins að þannig yrði það alltaf." (bls. 81) Það er kyrrð í þessari bók en undirliggjandi kvíði. Sigrún Árnadóttir þýðir bókina fallega og tungutakið sem hún hefur valið fellur vel að sögunni. Það eina sem ég setti spurningarmerki við í þýðingunni var ósamræmi í þýðingum á nöfnum; stundum eru nöfnin íslenskuð (Hlíðarvatn, Kári, Ólafur) og stundum ekki (Kristiansand, Gaustad), án þess að ég sæi beinlínis röklegt samhengi. Íslenskunin truflaði mig fyrst í stað ansi mikið en eftir nokkra kafla hætti ég að taka eftir henni. Það er auðvitað alltaf spurning hvernig fara eigi með slík mál í norrænum þýðingum - þýði maður úr ensku er yfirleitt tómt mál að tala um einhverjar þýðingar á nöfnum/heitum en það er auðvelt að heimfæra norsku sveitina á þá íslensku.

Meðan enn er glóð lætur ekki mikið yfir sér en ég mæli hiklaust með þessari fínu norsku skáldsögu. Þótt umfjöllunarefnið sé ekki af léttasta toga og framvindan hæg og bítandi fremur en brjáluð aksjón þá þótti mér hún hreint ekki erfið aflestrar; þvert á móti var hún verulega spennandi og ég las hana á tveimur kvöldum. Þannig er það stundum með vel skrifaðar bækur.

2 ummæli:

Erna Erlingsdóttir sagði...

Ég kveikti ekki á þessari bók þegar hún kom út en nú langar mig mikið að lesa hana.

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Mæli algjörlega með henni! Ég hefði eflaust seint kveikt á henni ef ég hefði ekki fengið hana í klúbbnum.