23. september 2011

Mælt með fornum reyfara: Double Indemnity e. James M. Cain

Svo ég hefji nú þennan pistil á að endurtaka mig úr þeim síðasta, þá les ég lítið af glæpasögum og þær sem ég hef (ansi handahófskennt) lesið undanfarin ár hafa mér í besta falli fundist ágætis afþreying. Um daginn rakst ég þó á eina sem mér finnst vert að mæla með: Double Indemnity eftir James M. Cain.

Double Indemnity birtist fyrst sem framhaldssaga í Liberty Magazine árið 1936. 1943 kom sagan út á bók og ári síðar var gerð kvikmynd, var Raymond Chandler annar handritshöfunda og af söguþræði að dæma er um sanna ‘film noir’ að ræða.

Aðalpersónan og sögumaðurinn Walter Huff er hvorki rannsóknarlögreglumaður, rannsóknarblaðamaður né annað sem dæmigert væri fyrir aðalpersónu glæpasögu – heldur tryggingasölumaður. Starf tryggingasölumannsins kann að virðast (og er reyndar vafalaust) fyrst og fremst bjúrókratískt, en getur þó vissulega krafist strategískrar hugsunar og góðrar þekkingar á þeim lævísu brögðum sem fólk beitir til að svíkja út tryggingafé. Þegar Huff kynnist ungu auðmannsfrúnni Phyllis Nirdlinger sér hann strax í gegnum það yfirvarp að hún vilji spara sér og manni sínum óþarfa áhyggjur með því að líftryggja þann síðarnefnda án hans vitundar. Þar sem Huff heillast sjálfur af konunni, og þekkir innviði tryggingakerfisins flestum betur, liggur beint við að þau leggi í sameiningu drög að fullkomnu morði og stórfelldum tryggingasvikum.

Ég hafði mjög gaman af Double Indemnity, lagði hana ekki frá mér fyrr en ég var búin (hún er reyndar ekkki nema nóvella, 115 síður). Frásagnarhátturinn er grípandi og flæðir vel, á kæruleysis-snaggaralegan hátt sem er líklega þessi svonefndi hardboiled-stíll. Misdökkar kenndir og þrár ólga svo undir harðsoðnu yfirborðinu, sem vera ber – aftan á eintakinu sem ég las er vitnað í rithöfundinn Edmund Wilson, sem sagði Cain vera „a poet of the tabloid murder“.

Gegnir segir mér að sagan hafi verið þýdd á íslensku, af Sölva Blöndal – ekki þó kenndum við Quarashi, þetta var 1948 – undir heitinu Tvöfaldar skaðabætur („skaðabætur“ finnst mér óneitanlega hljóma hversdagslegri og bjúrókrasíuleiðinlegri en latínan í frumtitlinum...). Þýðingin er til á bókasöfnum víða um land, og á Aðalsafni Borgarbókasafnsins er meira að segja eitt eintak á frummálinu – í hillu þegar þetta er ritað!

- - -

Af öðrum verkum Cains má nefna morðsöguna The Postman Always Rings Twice, sem hefur verið kvikmynduð hvorki meira né minna en fjórum sinnum – í Frakklandi árið 1939, á Ítalíu 1942 og tvisvar í Bandaríkjunum, árin 1946 og 1981. Af nýrri framleiðslu er það að segja að fyrr á þessu ári framleiddi HBO fimm þátta sjónvarpsseríu byggða á skáldsögunni Mildred Pierce (1941), sem einnig var kvikmynduð 1945 með Joan Crawford í titilhlutverki.

6 ummæli:

Hildur Knútsdóttir sagði...

Ég sá myndina í afar skemmtilegum rökkurmyndakúrsi í HÍ. Mér fannst hún megagóð!

Erla Elíasdóttir Völudóttir sagði...

Geðveikt! Ég er búin að verða mér úti um hana en á eftir að horfa.

Annars horfði ég á þessa Mildred Pierce þætti á dögunum og varð fyrir vonbrigðum. Kate Winslet og Guy Pearce eru gordjöss og öll umgjörðin flott, en mér fannst sagan eiginlega bara leiðinleg...

Erla Elíasdóttir Völudóttir sagði...

Hef samt ekki lesið bókina.

guðrún elsa sagði...

Leiðinlegt að heyra með þættina... Mildred Pierce með Joan Crawford í aðalhlutverki er æði.

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Ú já, mér fannst þessi afar góð. Las slatta af Cain og félögum hans í tengslum við reyfarakúrs í háskólanum. The Postman Always Rings Twice er líka góð, álíka svart plott og skemmdar persónur sem fokka hver upp í annarri.

Oh, hvað það er leiðinlegt að heyra að þættirnir séu ekki góðir. Þetta var líka eiginlega of gott til að vera satt.

Erla Elíasdóttir Völudóttir sagði...

Ég segði nú samt ekki að þeir væru algjör tímasóun, þeir eru vel gerðir að mörgu leyti. En ég varð fyrir vonbrigðum með söguna. Hef náttúrlega ekki lesið bókina svo ég átta mig ekki á því hvort handritið er bara svona gelt... þyrfti að tékka á þessari með Joan Crawford líka!