1. desember 2011

Bölvuð jákvæðnin

Fyrir nokkrum árum las ég Nickel and Dimed eftir Barböru Ehrenreich þar sem blaðakonan ameríska segir frá því hvernig hún wallraffaði í láglaunastörfum víðsvegar um Bandaríkin og tókst engan veginn að lifa af laununum sínum þótt hún væri í mörgum vinnum samtímis. Það var ekki beinlínis neitt sem kom mér sérstaklega á óvart í bókinni, hún lýsir misrétti og ömurlegri meðferð sem tíðkast á vinnandi láglaunafólki allt í kringum okkur og sýndi fram á að það er ekki nóg að vera „dugleg“ til að geta séð fyrir sér. Hún benti líka á að „ófaglærð störf“ eru í raun ekki til. Í störfunum sem Barbara réði sig í, hvort sem það voru umönnunarstörf, ræstingar eða afgreiðsla í verslun, þurfti hún alltaf að læra og kunna töluvert sem tengdist því sem hún gerði hverju sinni. Starfsfólkinu var hins vegar yfirleitt ekki kennt neitt heldur bara hent út á gólf og sagt að gera þetta eða hitt. Þetta könnumst við sem höfum unnið svokölluð ófaglærð störf alveg við.

Á dögunum keypti ég aðra og nýrri bók eftir Barböru Ehrenreich í sænskri þýðingu, yfirskrift hennar er Gilla läget. Hur allt gick åt helvete med positivt tänkande, en ég hafði áður gluggað í bókina í enskri útgáfu með titilinn Bright Sided. How the relentlesss promotion of positive thinking has undermined America (ég held að sama bók hafi líka komið út með titilinn Smile or Die). Þessa bók las ég í flugvél í gær og finnst hún áhugaverð og mikilvæg. Upphaf þess að höfundurinn skrifaði bókina má rekja til þess að hún fékk brjóstakrabbamein og blöskraði í kjölfarið hjal fólks um að hún yrði að vera jákvæð ef henni ætti að batna og hún fór að rannsaka markvisst jákvæðnivítið sem við fýlupúkarnir þurfum að búa í hvort sem okkur líkar betur eða verr.



Barböru Ehrenreich var sagt að jákvæðni myndi lækna hana af krabbanum og hún reiddist. Hún gagnrýnir það sem hún kallar ameríska jákvæðni (sem ég held að sé ekkert endilega sérlega amerísk, hún er allavega bráðsmitandi) og heldur því beinlínis fram að jákvæðniforaðið sé hættulegt og hafi meðal annars stuðlað að efnahagshruninu. Út um allt sá hún konur sem var batnað af brjóstakrabba og tjáðu sig hressar og kátar um þakklætið yfir að hafa veikst og hvað líf þeirra væri miklu ríkara á eftir. Engin minntist á örin sem sveið í eða vanlíðanina sem fylgdi því að missa brjóst. Það sem fór samt mest í taugarnar á BE voru fullyrðingar um að jákvæðni væri nauðsynleg til að læknast. Með öðrum orðum var því óbeint haldið fram að ef fólk læknaðist ekki þá gæti það sjálfu sér um kennt. Hún bendir líka á að bleikar slaufur, bleikir bangsar og bleikir varalitir lækni engan, en Ehrenreich segir að samtök sem berjast gegn brjóstakrabbameini í USA séu á villigötum því þau hafi lítinn áhuga á rannsóknum á orsökum heldur séu blinduð af jákvæðni og sjálfhverfri væmni. Þetta tengist meðal annars því að ef spurt er um orsakir krabbameina er opnað fyrir umræðu um umhverfismál, mengun og efnaiðnað og einkafyrirtækin sem láta fé af hendi rakna til krabbameinsrannsókna vilja ekki að kafað sé í slík mál eða steinum velt við.

Bók Ehrenreich fjallar samt um miklu meira en jákvæðni og krabbamein. Hún heldur því fram með beittum rökum að jákvæð hugsun sé andstæða gagnrýninnar hugsunar og dómgreindarlaus jákvæðni sé þar af leiðandi eitt af því sem stuðlaði að síðasta efnahagshruni. Amerísk fyrirtæki heimta gjarna að allir séu rosa jákvæðir og ógagnrýnir, það má ekki tala niður hlutina og starfsmennirnir ganga um brosandi og jánkandi yfirmönnunum. Er þetta nokkuð sérstaklega amerískt fyrirbæri, já og hefur eitthvað breyst að undanförnu?

Í bókinni er líka töluvert rætt um málflutning allskonar sjálfshjálparpredikanta, lífsstílsspekúlanta og hinna og þessara sem stöðugt kvaka um nauðsyn á jákvæðni, sem á að tengjast svokallaðri velgengni í lífinu (viðkomandi eiga oftar en ekki ríkra hagsmuna að gæta því þeir eru mjög oft að selja sjálfa sig). Yfirleitt halda þessir lífsstílspáfar því fram að þeir sem hafa náð árangri í lífinu séu eins og þeir sjálfir; vel stæðir fjárhagslega, líkamlega heilbrigðir og í kjörþyngd, á dýrum bíl og svo framvegis. Umrædd gleðihugmyndafræði, að fólk eigi að mæta öllu mótlæti með brosi og hressileika, elur á gagnrýnisleysi og Barbara Ehrenreich fer í bókinni í gegnum allskonar rannsóknir sem sýna að það er afar vafasamt að halda því fram að jákvæðni lækni sjúkdóma. Það er auðvitað þægilegast fyrir þá sem eru í kringum sjúklinginn að geta hlegið sig í gegnum meðferðina, eða í besta falli verið í einhverskonar samúðarkrúttkasti, en þegar þessi hugmyndafræði er allsstaðar vaðandi uppi þá er hún mjög slæm. Hún segir líka frá rannsókn sem sýndi að jarðbundnu fólki, fólkinu sem ekki er sannfært um að líf þess verði gott að eilífu, gengur betur að vinna sig í gegnum áföll sem allir lenda fyrr eða síðar í. Það er nefnilega nokkuð ljóst að við þurfum öll að takast á við sjúkdóma, dauða, slys eða almennar hremmingar, hvort sem við erum jákvæð, neikvæð eða bara hreinlega með báðar lappir á jörðinni. BE fjallar líka um bókina The Secret og alla hugmyndafræðina í kringum hana („Guð vill að við séum rík og við þurfum bara að hugsa jákvætt til að peningarnir streymi inn“), hún ræðir hugmyndafræði George Bush sem var þekktur fyrir að vilja alls ekki hafa svartsýnisfólk nálægt sér (það þarf varla að ræða hvernig sá maður fór að ráði sínu). Hún tekur líka dæmi um menn sem lyftu vísifingri og gagnrýndu fjármálamarkaðinn en voru reknir fyrir vikið. Í þessu samhengi mætti kannski taka dæmi um fólk sem varaði við því að Björgólfsfeðgum yrði seldur banki, en á það var ekki hlustað.

Barbara Ehrenreich bendir á að jákvæðnikapítalisminn (þetta snýst að sjálfsögðu mikið um peninga – það er ekki ókeypis að fara á jákvæðninámskeið og sjálfshjálparbækur kosta pening) stuðli að því að samfélagslegri ábyrgð sé ýtt til hliðar og flestu komið yfir á einstaklinginn. Það er mikil trúarstemning í kringum jákvæðniáróðurinn og sjúkdómar og fátækt eru af mörgum álitnir á ábyrgð hvers og eins sem þarf að þola slíkt. Þeir sem eru veikir og batnar ekki eru of neikvæðir, fátæklingar eru ekki nógu andlega sinnaðir og duglegir. Annað sem er umhugsunarvert í þessu samhengi er sífellt tal um hamingjuna sem fólk á víst stöðugt að vera að leita að, ef ekki aleitt með vasaljós í myrkrinu þá í hópefli á kyrrðardögum, við lestur sjálfshjálparbóka eða á námskeiðum hjá tönuðum námskeiðshöldurum. Eru virkilega allir alltaf að leita að hamingjunni? Já og hafa ekki margir ástæðu til að vera leiðir og niðurdregnir? Er ekki farsælast að hugsa gagnrýnið, umgangast gott fólk og gera það sem maður hefur gaman að í stað þess að vera endalaust að berjast við að ganga um brosandi til að sýna öllum hvað maður sé vel lukkaður og hamingjusamur sigurvegari? Að gera þær kröfur til fólks að það sé hamingjusamt og glatt yfir öllu sem á það er lagt, hvort sem um er að ræða fátækt, sjúkdóma eða almenn óþægindi, er í raun ekkert annað en ósanngjörn og ill meðferð á fólki. Hér er í grunninn um að ræða alþekkta kúgunartilburði af hálfu þeirra sem réttlæta ríkjandi valdastrúktúr, fólk ruggar auðvitað bátnum með því að vera gagnrýnið og  það er best að reyna að þagga niður í því með því að segja því að hætta barlómi og neikvæðni og vera bara brosandi og jákvætt.

Mig minnir að bókin The Secret hafi verið þýdd á íslensku og markaðssett með látum en það á ekki við um bækur Barböru Ehrenreich.  Því miður.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábær pistill, ég hef nokkrum sinnum rekist á þennan titil og alltaf ætlað að lesa hana.

Ég lenti einu sinni fyrir einhverja kaldhæðni örlaganna inni á mjög vafasömum sjálfstyrkingarfyrirlestri og það var svo krípí og fasískt að ég fæ hroll við að rifja það upp. Þar kom krabbamein við sögu í þeirri myndlíkingu að hinn neikvæði væri "krabbameinið í hópnum". Svo fóru allir út að knúsa ókunnuga.

-kst

HarpaJ sagði...

Frábært pistill. Ég þarf að lesa þessa pók. ,Þeir sem eru veikir og batnar ekki eru of neikvæðir" - ég (eins og svo margir aðrir) hef svo sannarlega fengið að finna fyrir því skal ég segja ykkur, og frá ólíklegasta fólki, líka innan hins svokalla heilbrigðisgeira.

Nafnlaus sagði...

Margt merkilegt sem þessi Barbara hefur gert. Og hugsið hve oft er talað niðrandi um "ófaglærð störf" og gefið í ljós að það seú bara lúserar sem gegna þei störfum til lengdar...
En þetta með jákvæðnina: ef menn taka einhverja hugmynd eða stefnu og gera hana að einni sönnu, erum við oftar en ekki á hættulegri braut. Jákvæðni í hófi getur gert lifið skemmtilegt og hjálpar manni yfir smá mótbáru, en allt í hófi, allt í hófi. Einu sinni kom til okkar maður sem var ekki ykja jákvæður. Hann er mjög fróður, en þegar við höfðum talað marga klukkutíma um allt sem miður fer og hvað er logið að fólki og svo framvegis, fór mér að líða frekar illa. Þannig að allt í hófi!
kv. Tapio

Nafnlaus sagði...

Já, ég held að hófið sé málið. Ég á alla vega ferlega erfitt með fólk sem eilíflega veltir sér upp úr því hvað það á bágt (fer furðulega oft saman við að eiga erfitt með að setja sig í spor annarra, reyndar). En svo er ég líka komin með nóg af fólki sem segir manni alltaf að maður líti vel út, af því það lærði það á námskeiði. Og á einmitt mjög erfitt með að þola þetta með sjúklinga eða syrgjendur og jákvæðni. KJ

Nafnlaus sagði...

Já og svo er það þessi óþolandi hetjuímyndin sem sumir vilja klessa á mann fyrir það að takast á við það sem fylgir því að greinast með krabbamein. Ég meina, fólk á tæpast annara kosta völ en takast á við sjúkdómin og afleiðingarnar og hvaða helv. hetjuskapur er fólginn í því?
Og hver sá sem segist vera þakklátur fyrir að hafa þurft að takast á við krabbamein og afleiðingarnar lýgur bæði að sjálfum sér og öðrum.
Svo er annað mál að neikvæðni hjálpar manni ekki að komast í gegnum draslið sem fylgir þessu, smá húmor gerir það aftur á móti.

Ég hefi viljað lesa þessa bók en það er sennilega ekki nógu jákvætt að þýða hana á íslensku.
ÁH