4. desember 2011

Rökkurhæðir - Óttulundur

Bókakápan er flott.
Óttulundur, eftir Mörtu Hlín Magnadóttur, er önnur bókin í Rökkurhæðaseríunni (Hildur Knútsdóttir fjallaði um fyrstu bók seríunnar, Rústirnar, hér). Hún fjallar um hina fimmtán ára gömlu Vigdísi, sem fer að sjá og upplifa undarlega hluti heima hjá ömmu sinni, þar sem hún á sitt annað heimili á meðan móðir hennar er erlendis. Í ofanálag kemst hún smám saman að því að fullorðna fólkið hefur leynt hana einhverju alla hennar ævi og fyllist þá löngunar til að komast að leyndarmálinu og púsla saman brotunum upp á eigin spýtur.


Óttulundur er reimleikahúsasaga sem fjallar að miklu leyti um minningar sem eru Vigdísi óaðgengilegar en hvíla í húsinu. Vigdísi og Jóhönnu, frænku hennar, tekst að nálgast leyndardóma fortíðarinnar meðal annars í gegnum hluti frá liðnum tíma, þegar þær eru svo forvitnar að þær óhlýðnast ömmu sinni og fara upp á háaloft þar sem þær finna kistil með munum sem „geyma í sér“ nærveru eða minningar (mér varð ósjálfrátt hugsað til kvikmyndarinnar What Lies Beneath við lestur bókar (afsakið að ég skuli alltaf vera að bera bækur saman við bíómyndir á þessu bloggi)). Reimleikahúsasögur sem fjalla um bældar minningar eru reyndar sérstaklega skemmtileg fyrirbæri, í þeim ásækja fortíðardraugar nefnilega persónur bókstaflega í formi, tja... drauga. (fortíðarinnar!)

Bókin er óhugnanleg, en hentar eflaust börnum allt frá tíu ára aldri. Ég hefði að minnsta kosti gleypt hana í mig á þeim aldri, eins og allar bækur sem fjölluðu um eitthvað yfirnáttúrulegt eða ógnvænlegt. Óttulundur er spennandi (sérstaklega þegar maður er kominn vel inn í bókina) og skrifaður á góðu máli, en eins og Hildur fjallaði um í pistli sínum hefur Bókabeitan „það að yfirlýstu markmiði að efla bóklestur barna og unglinga með útgáfu á gæðaefni fyrir þennan hóp.“ Þetta er náttúrulega mjög mikilvægt og verðugt markmið.

Ýmislegt gerði mig bjartsýna um að bókabeituhöfundar nái, að minnsta kosti upp að ákveðnu marki, markmiði sínu. Ég er sannfærð um að þeir séu að skrifa sig inn í réttar bókmenntagreinar (hryllings/spennu/fantasíu) og mér finnst sú hugmynd að láta bækurnar tengjast í gegnum skuggalega hverfið Rökkurhæðir afskaplega góð. Bók Mörtu skilur mann eftir þannig að mann langar að lesa meira um þennan heim og þegar ég fór að lesa dóminn hennar Hildar aftur komst ég ekki hjá því að verða spennt yfir því að til væri heil bók um Önnu Þóru vinkonu Vigdísar (þar sem Vigdís kemur þá væntanlega við sögu þótt fókusinn sé ekki á hana). Svona sería ætti að geta fangað lesendur og haldið þeim spenntum fyrir næstu bókum.

Að lokum má nefna það að Marta fjallar mikið um lestraránægju í bók sinni, en það er mikilvægur þáttur í því að kynda undir bókaást. Aðalpersóna Óttulunds, Vigdís, er lestrarhestur sem kann að láta fara vel um sig og gleyma sér heilu kvöldin yfir spennandi bókum, til dæmis um vampírur. Einhverra hluta vegna er það bara þannig að lýsingar á notalegum lestrarstundum auka á lestraránægju og ýta undir löngun til að njóta fleiri bóka.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já, þetta er áhugavert. Hef samt alltaf heyrt það kallað að setja hundseyra á blaðsíðuna að brjóta upp á hornið.
Les mest bókasafnsbækur og hika ekki við að setja hundseyra á þær. Þegar bækur eru lagðar frá sér án þess að loka þeim skiptir að mínu mati miklu máli hvort þær eru settar upp í loft eða á grúfu.

Sæmundur