7. ágúst 2012

Rauðu ástarsögurnar í BDSM-dulargervi

Fifty Shades of Grey eftir E.L. James og framhaldsbækurnar Fifty Shades Darker og Fifty Shades Freed raða sér í efstu sæti ýmissa metsölulista um þessar mundir. Þetta hefur vakið athygli af ýmsum ástæðum en einkum þeirri að trílógían flokkast til erótískra bóka sem hafa talist jaðargrein til þessa, og ýmsir hafa íhugað ástæðurnar fyrir því að þær hafa náð almennum vinsældum. Í því samhengi er rafbókavæðing oftast nefnt til sögunnar og sú staðreynd að auðvelt er að láta lítið bera á bæði kaupum og lestri rafbóka. Einnig er sérlega fljótlegt að kaupa rafbækur, þegar forvitni vaknar þarf ekki marga smelli þangað til bókin er tiltæk til lestrar.

Netið leikur þó ennþá stærra hlutverk í upphaflegri útbreiðslu 50-Shades-bókanna því það skiptir vafalaust máli að frumgerðin var skrifuð og birt á netinu sem „fanfiction“ út frá Twilight-bókaflokknum (er til almennilegt íslenskt heiti yfir fanfiction?). Þótt E.L. James sé fjarri því að vera sú fyrsta sem kryddar fanfiction með kynlífi, þvert á móti skrifar hún inn í umfangsmikla hefð þar, mun hún hafa vakið tiltölulega mikla athygli fyrir að skipta skírlífu vampírunum í Twilight út fyrir kynlíf sem þótti krassandi. Svo fór boltinn að rúlla. E.L. James umskrifaði fanfiction-söguna Master of the Universe og til varð 50-Shades-trílógían sem var í fyrstu gefin út sem rafbækur hjá litlu forlagi. Þegar metsölu í rafbókaflokki var náð fóru stærri forlög að bítast um bækurnar og þær komust fljótt einnig á metsölulista prentaðra bóka.

Eins og fleiri var ég semsagt forvitin að sjá um hvað málið snerist og las fyrstu bókina um daginn. Hún kom mér nokkuð á óvart en ekki út af kynlífsþættinum og ekki á jákvæðan hátt. Það var býsna merkilegt að sjá hversu afgerandi keim bókin ber af annarri bókmenntagrein sem hefur einnig verið á jaðrinum, þ.e. þeirri sem oft er kölluð „rauðu ástarsögurnar“. Ef nokkrum kynlífslýsingunum væri sleppt og aðrar styttar svolítið myndi bókin smellpassa inn í einhverja af seríunum sem Ás-útgáfan gefur út.*

Týpurnar eru kunnuglegar öllum sem hafa lesið slatta af hefðbundnum ástarsögum.
  • Hún: óörugg en úrræðagóð, þrjóskast við að sýna sjálfstæði en lesandanum er gert ljóst að henni veiti ekki af góðri handleiðslu.
  • Hann: yfirþyrmandi sjálfsöruggur en tilfinningalega heftur.
  • Hún vekur nokkra aðdáun hans með því að vera öðruvísi en annað kvenfólk sem hann hefur umgengist.
  • Hann vekur forvitni hennar og löngun til að brjótast inn úr brynjunni.
„Hún“ í tilfelli 50-Shades-bókanna er Anastasia Steele, kölluð Ana, við það að útskrifast úr bókmenntanámi í háskóla þegar sagan hefst. „Hann“ er Christian Grey, 27 ára athafnamaður og ekki einungis sæmilega efnaður heldur tryllingslega auðugur sem er enn eitt kunnuglegt atriði úr ástarsögum þótt það sé ekki algilt í bókmenntagreininni. Málamiðlunin sem sagan stefnir að er einnig kunnugleg úr ástarsagnaheiminum: Hún telst þurfa að skera niður sjálfstæðið, hann á að gerast tilfinningavera.

Bókin hefst á því að Ana þarf að taka viðtal við Christan fyrir stúdentablaðið í staðinn fyrir vinkonu sína sem er lasin. Hún roðnar og kiknar í hnjánum oftar en tölu verður á komið svo augljóslega er þess ekki langt að bíða að það hitni í kolunum. Í grundvallaratriðum fylgir frásögnin síðan dæmigerðu ástarsagnamynstri með öllum tilheyrandi klisjum. Þessar línur eru t.d. afar lýsandi fyrir hugmyndaheiminn:
„We're coming near to the end of the bridge, and the road is once more bathed in the neon light of the street lamps so his face is intermittently in the light and the dark. And it's such a fitting metaphor. This man, whom I once thought of as a romantic hero, a brave shining white knight -- or the dark knight, as he said. He's not a hero; he's a man with serious, deep emotional flaws, and he's dragging me into the dark. Can I not guide him into the light?“
Sem fyrr segir gerir fjöldi og umfang kynlífslýsinga það að verkum að bókin telst til erótískra sagna og BDSM-kynlífið sem nokkur áhersla er lögð á hefur vakið sérstaka athygli og umræður. Drjúgur hluti af kynlífinu í bókinni er þó „venjulegra“ því Anastasia Steele er hefðbundin siðprúð ástarsagnakvenhetja og því með öllu reynslulaus í kynlífi. Christian Grey tekur að sér að vígja hana inn í þann heim og fer því varlegar að henni í byrjun en hann hafði annars hugsað sér. Þrátt fyrir að Anastasia hafi ekki svo mikið sem fróað sér – eða „snert sig“ eins og það er orðað í bókinni – gengur fyrsta skiptið vægast sagt glimrandi og hún fær hverja fullnæginguna af annarri.

Grunnregla í BDSM-kynlífi mun að jafnaði vera upplýst samþykki og eindreginn vilji beggja. Í bókinni er á yfirborðinu byggt á þeirri reglu því gegnumgangandi er ítarlegur samningur sem Christian vill gera við Anastasiu um málið. Reyndin er hins vegar sú að allt annað mynstur er undirliggjandi. Anastasia hummar fram af sér að skrifa undir samninginn, enda hugnast henni BDSM-kynlífið ekki. Christian setur samt af stað drottnunarleiki án fullkomins samþykkis og þótt Ana njóti fullnæginganna sem hún fær ítrekað kann hún ekki við þá. Einnig er ætlast til þess að hún lúti stjórn hans í daglegu lífi. Þótt hún veiti nógu mikla mótspyrnu til að teljast óvenjuleg og áhugaverð í augum Christians fellir hún sig samt að töluverðu leyti við það munstur, enda vill hún aðallega ást og umhyggju og hugsar íróníulaust:
„It's very simple: I want his love. I need Christian Grey to love me. This is why I am so reticent about our relationship – because on some basic, fundamental level, I recognize within me a deep seated compulsion to be loved and cherished.“
Christian viðurkennir að hann sé tilfinningalega heftur en eins og við er að búast í ástarsögu opnar hann sig að einhverju marki fyrir Anastasiu. Í samræðum þeirra er löngun Christians til að drottna skýrð með rassvasasálfræði um erfiða frumbernsku sem er ekki útlistuð nánar í þessari bók.

Valdamynstrið milli Christians og Anastasiu birtist á öllum sviðum sögunnar, þar á meðal í flatneskjulegum textanum sem er afar endurtekningasamur. Ég vildi óska að ég hefði t.d. talið skiptin þar sem Christian lítur niður til Anastasiu (bókstaflega) og/eða tekur í hökuna á henni og lætur hana líta upp til sín (aftur bókstaflega). Og alltaf kiknar hún í hnjánum og fellur í fangið á honum (ýmist í bókstaflegri eða yfirfærðri merkingu). Enn og aftur kunnulegt stef úr ástarsögum.

Helsta meginfrávikið frá rauðu ástarsögunum er að Fifty Shades of Grey lýkur ekki á fullum sáttum og hamingjusöm-til-æviloka-stemmingu eins og venja er í þeirri bókmenntagrein en það skýrist væntanlega af því að hún er fyrsti hluti af trílógíu. Ég er ekki með öllu laus við forvitni um hvort seinni bækurnar tvær eru eins bjánalegar en efast samt um að ég nenni að lesa tvo doðranta í viðbót. Kannski ég leiti bara uppi endursagnir á netinu.

Hefðbundnar ástarsögur eru sívinsælar en þær hafa orðið svo mikil jaðargrein að þær eru ekki alltaf taldar með þegar bókmenntasviðið er til umfjöllunar. Fyrrnefndar bækur sem Ás-útgáfan gefur út* eru t.d. flokkaðar sem tímarit og þess vegna ekki inni í myndinni þegar bóksala er skoðuð (auk þess skilst mér að drjúgur hluti þeirra sé seldur í áskrift og fari því ekki gegnum bókabúðir). Ef horft er á 50-Shades-trílógíuna í því samhengi þurfa vinsældirnar því kannski ekki að koma á óvart þótt vissulega sé merkilegt að bækurnar hafi komist af jaðrinum inn í meginstrauminn. Virðuleg bókaforlög keppast nú við að ýmist gefa út þessar bækur eða fá sneið af kökunni og finna eitthvað annað sem þau geta selt undir merkjum erótíkur. Vonandi tekst einhverjum þeirra að finna skárri sögur en Fifty Shades of Grey. Það væri alveg góðra gjalda vert að gefa út erótískar bækur sem eru ekki eintómar útjaskaðar klisjur.

–––––––––––––––––––––––––––––
* Ás-útgáfan gefur nú út fimm ástarsagnaseríur mánaðarlega undir samheitinu Rauða serían: ástarsögur, ást og afbrot, sjúkrahússögur, örlagasögur og tímarit mánaðarins. Samkvæmt Gegni hafa alls 1406 bækur komið út undir merkjum Rauðu seríunnar frá árinu 1985.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vá þetta hljómar hræðilega! Ég var búin að ákveða að lesa hana eftir mikil meðmæli nokkura kvenna en ég fékk hroll við að lesa dóminn svo ég held að ég sleppi þessari :-)

Margret

Unknown sagði...

Ég hef fyrir satt að bækurnar í Rauðu seríunni séu mun erótískari í frumgerðum sínum en þær eru í íslenskri þýðingu. Sá þetta haft eftir forstjóra Ás-útgáfunnar fyrir löngu svo kannski á þetta ekki við lengur.
En lýsing þín á Fifty Shades of Gray staðfestir algerlega þá ályktun sem ég dró af að hraðlesa búta hér og þar í henni og varð til þess að ég þáði hana ekki að láni (og það var ekki af blygðunarsemi).

Nafnlaus sagði...

Þessi manneskja hefur lesið allar bækurnar og skrifað um þær, meira að segja með því mikla netfyrirbæri gifffum. http://www.goodreads.com/review/show/340987215

Ragnhildur.

Erna Erlingsdóttir sagði...

Já, ég heyrði líka einhvern tíma fyrir löngu að kynlífslýsingarnar í Rauðu seríunni væru styttar. Skil ekki alveg af hverju, ég hefði haldið að drjúgur hluti lesenda væri ekki síst að sækjast eftir þeim.

Erna Erlingsdóttir sagði...

Þessi umfjöllun á Good Reads er vægast sagt stórkostleg! Kærar þakkir fyrir linkinn!

Erna Erlingsdóttir sagði...

Svo er ég búin að rekast á fleiri góðar úttektir á 50-Shades-seríunni í dag. Á Huffinton Post er t.d. stórfínn pistill þar sem Soraya Chemaly skoðar bækurnar líka út frá ástarsagnavinklinum og tekur jómfrúrmynstrið sérstaklega fyrir:
"The series' sales are unexceptional and their content ultimately traditional for the simple reason that the books are about romance in the context of VIRGINITY, SUBMISSION and the transformative power of what filmmaker and writer Therese Shechter calls "the magical penis" which awakens and transforms a woman in these narratives." http://www.huffingtonpost.com/soraya-chemaly/50-shades-of-grey_b_1441008.html

Erna Erlingsdóttir sagði...

Svo má bæta við að ég held að t.d. bækurnar í Rauðu seríunni hjá Ás-útgáfunni séu almennt betur skrifaðar í grunninn þótt þýðingarnar hafi liðið fyrir það, síðast þegar ég vissi, að vera lítt eða ekkert yfirlesnar.

Unknown sagði...

Gott orð yfir fanfiction er áhugaspuni.

Erna Erlingsdóttir sagði...

Mér finnst áhugaspuni reyndar ekki gott orð. En takk samt.