Því miður er ég engin galdrakona í höndunum en hef samt mjög gaman af hannyrðum og blaða oft í bókum um slík efni mér til skemmtunar (að eignast barn og vera heima dottandi yfir sjónvarpinu öll kvöld hefur ekki dregið úr áhuga mínum). En það er misjafn sauður í mörgu fé (ullartengd orðatiltæki eiga vel við hér þykir mér) og slíkar bækur misvel heppnaðar. Um daginn rak á fjörur mínar Litríkar lykkjur úr garðinum eftir Arne og Carlos sem er nokkuð forvitnileg þó að mér sýnist hún kannski ekki endilega vera sérsniðin að mínum þörfum. Hannyrðafólk man jafnvel eftir Arne og Carlos en þeir eru heilarnir á bak við bókina Jólakúlur Arne og Carlos sem kom út fyrir síðustu jól.Litríkar lykkjur úr garðinum er ansi lagleg að öllu leyti – hún er stór og mikið af fallegum myndum og litadýrðin gríðarleg. Hugmyndin að baki bókinni er skemmtileg – ef nokkuð sértæk. Þeir Arne og Carlos sækja innblástur í garðinn sinn sem er byggður á yfirgefinni brautarstöð í norsku fjöllunum. Það þarf því kannski ekki að undra að blóm, fiðrildi, blómálfar og slíkt koma víða við sögu. Yfirskriftin er: Heklað, prjónað og saumað út að sumarlagi (svo ég ætti kannski ekki að vera að lesa þessa bók þegar langt er liðið á október). Myndirnar eru eins og áður sagði margar, litríkar og sérlega blómlegar og þær eru ekki síður af garðinum, veröndinni og huggulegum húsbúnaði þeirra félaga – þær myndu sóma sér vel í hvers kyns „lífsstíls“ bókum og sumar æpa hreinlega á að vera instagramaðar.
Þarna má finna uppskriftir að ýmsu sniðugu og hagkvæmu eins og hitaplöttum, pottaleppum, stólsessum og tehettum – en ansi stór hluti prjónauppskriftanna eru eins konar blómálfar sem þeir hafa sérhæft sig í að prjóna – og föt á þá ... og þar verð ég að segja að leiðir okkar Arne og Carlosar skilja ... en þetta er að sjálfsögðu smekksatriði og ef prjónaðir blómálfar höfða til manns, þá er þetta stórkostleg bók!





