7. ágúst 2011

Ástarsaga aldarinnar?

Fljótlega eftir að byrjaði að lesa Einn dag, eftir David Nicholls, fannst mér ég sjá skyldleika með bókinni og verkum Nicks Hornby. Þegar ég var búin með hana og las mér til á netinu kom í ljós að ég er síður en svo ein um þessa tengingu, Nick Hornby himself skrifaði meira að segja sérdeilis lofsamlega um bókina á bloggið sitt á sínum tíma.

Bókin fjallar um líf Emmu og Dexters sem virðast henta hvort öðru fullkomlega en átta sig ekki alveg á því eða taka allavega ekki þau skref sem þau hefðu átt að taka. Sagan hefst 15. júlí 1988, þau eru nýútskrifuð frá Edinborgarháskóla og sofa saman eina nótt en síðan skilja leiðir. Í framhaldinu er sagt frá hvað er að gerast í lífi þeirra þennan sama dag næstu tuttugu árin. Þetta er ansi sniðug aðferð hjá höfundinum, sagan tekur ýmsar vendingar á milli kafla og lopinn er ekki teygður um of.

Em og Dex halda vináttusambandi og mestan part er það vinasamband fallegt, þó að skugga beri á og sambandið sé ekki eins og lesandann – og þau sjálf – langar til að það sé. Þau eru ólík, hann er sjálfhverfur og hálfmontinn yfirstéttarstrákur og flagari en hún kemur úr annarskonar umhverfi, er óörugg með sjálfa sig og vill berjast fyrir betri heimi.

Það er áhugavert fyrir lesendur á aldur við parið að fylgjast með breytingunum og rifja upp liðin ár og svei mér þá ef ég var ekki með sömu fyrirsjáanlegu bók og tónlist og Emma í herberginu mínu á sínum tíma; Óbærilegan léttleika tilverunnar og plötu með Tracy Chapman.

Það er óþarfi að ég sé að afhjúpa ævisögu Emmu og Dexters en bókin er fyndin, írónísk og sorgleg og ég bæði hló og táraðist yfir henni, en það gerist sífellt sjaldnar að steinhjarta mitt meyrni við lestur ástarsagna. Einn dagur er mikill yndislestur.

Hér er umfjöllun um bókina úr New York Times og fyrir þá sem lesa sænsku er hér ágætt viðtal við höfundinn úr menningarkálfi Sænska dagblaðsins.

3 ummæli:

Hildur Knútsdóttir sagði...

Ég sá James Franco fyrir mér sem Dex allan tímann sem ég var að lesa þessa bók og var svolítið skúffuð að sjá að það var svo ekki hann sem leikur hann í bíómyndinni.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ég gúgglaði James Franco og sá einhvern soldið öðruvísi fyrir mér. Ég man ekki hver leikur Emmu en það er einhver leikkona sem er miklu snoppufríðar en Emma í bókinni. Það er alltaf þannig.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ingrid leikur einhver sem talar íslensku. http://www.castingcallpro.com/uk/view.php?uid=347328