19. ágúst 2011

Tvær magnaðar konur (þrjár ef maður telur Kristínu Steins með)Nú í vor kom út í kilju skáldsagan Ljósa eftir Kristínu Steinsdóttur en hún kom áður út fyrir síðustu jól. Þrátt fyrir að hafa heyrt vel af henni látið hafði ég ekki komið því í verk að lesa hana fyrr en nú í sumar. Það er skemmst frá því að segja að Ljósa hlýtur að vera ein besta – ef ekki besta skáldsaga síðasta árs.
Eins og Kristín hefur útskýrt í viðtölum byggir hún söguna á ævi ömmu sinnar, Pálínu Jónsdóttur, sem ól allan sinn aldur í sveit fyrir norðan og var margt til lista lagt en þjáðist af geðsjúkdómi sem ágerðist eftir því sem hún eltist. Sagan er eftir því sorgleg og áhrifamikil enda fá úrræði í sveitum Íslands gegn geðsjúkdómum undir lok 19. aldar og við upphaf þeirrar 20. Ljósa er ógleymanleg persóna sem hrífur lesandann með sér í skapandi maníunni og heldur samúð hans gegnum þunglyndið og erfiðustu köstin. Kristín gekk með söguna í maganum í hátt í 20 ár enda liggur mikil heimildavinna á bak við verkið. Hún segist þó syrgja að hafa ekki hafið heimildasöfnun enn fyrr þar sem svo margt sé þegar gleymt og grafið. En jafnvel meðan fólk sem hafði þekkt ömmu hennar lifði var augljóst að því var ekki tamt að tala um hana né sjúkdóminn. Séu fordómar gagnvart geðfötluðum miklir í dag voru þeir þó enn verri fyrir röskum 100 árum. Í upphafi segist Kristín hafa fyllst gríðarlegri reiði í garð samfélags sem ekki var fært um að hjálpa þessari veiku konu og lokaði hana jafnvel inn í búri þegar verst lét. En smám saman sagði hún að fæðst hefði skilningur á praktískri hlið málsins og um leið meiri samúð með aðstandendum - lífið þurfti jú að halda áfram og það varð að vera hægt að komast í búverkin – lífsbjörgin varð ofaná. En þótt frásögnin sé oft þyngri en tárum taki (og þó úthellti ég mörgum tárum) þá er hún aldrei niðurdrepandi. Hún þvert á móti leiftrar af fjöri og sagnagleði (ef hægt er að segja það klisjulaust). Hér er líka svo margt annað undir en sjúkdómur Ljósu, hér er íslensk baðstofumenning og flutningurinn úr hlýjum torfbæ yfir í heldur kaldara tréhús, samskipti manna og dýra sem og samskipti við álfa og aðra vætti. Þjóðtrúin átti svo sterk ítök í fólki (í skemmtilegri blöndu við guðsóttann) að slíkt virðist ekki síður raunverulegt og áþreifanlegt en bakstur og búverk. Álfatrúin er svo aftur ofin inn í sögu Ljósu því þegar fram líða stundir fer lesandinn að velta fyrir sér hvort sýnir Ljósu séu hluti af lifandi þjóðtrú eða birtingarmynd sjúkdóms hennar.
Kristín hefur lengst af verið þekktust fyrir barnabækur sínar enda sögur á borð við Franskbrauð með sultu, Fallin spýta og Engill í Vesturbænum löngu orðin sígild verk í bókahillum íslenskra barna. Lengi hafði þó blundað í henni að skrifa líka fyrir fullorðna en að hennar sögn þótti útgefendum það arfaslök hugmynd og drógu úr henni með slíkar fyrirætlanir - hún ætti nú bara að halda sig við barnabókmenntirnar. Í nýlegu viðtali segir Kristín að í dag myndi hún aldrei hlusta á svona vitleysu heldur gera eins og henni sjálfri sýndist en á sínum tíma dró þetta aðeins úr henni kraft og þor. Vatnaskil urðu hins vegar í skrifum hennar með bókinni Engill í Vesturbænum sem hún hlaut Norrænu barnabókaverðlaunin fyrir árið 2003 en þá bók segir Kristín í raun vera allt eins skrifaða fyrir fullorðna eins og börn. Þar leyfði hún sér að taka nýja stefnu í skrifunum og fylgja eigin sannfæringu. Það var svo skömmu síðar, árið 2004, sem fyrsta bók hennar fyrir fullorðna, Sólin sest að morgni, kom út og hafði hún þá gengið með hana tilbúna í kollinum í þó nokkur ár. Bókin hlaut góðar viðtökur og er nú uppseld og ófáanleg en sem betur fer er hægt að nálgast hana á bókasöfnum. Kristín fylgdi Sólin sest að morgni svo eftir með Á eigin vegum árið 2006 en sú bók m.a. var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Þegar ég loksins hafði drifið í að lesa Ljósu var ég auðvitað ekki í rónni fyrr en ég hafði komist yfir Á eigin vegum og ég varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum. Þetta er stutt bók, aðeins 136 bls. og kápan látlaus – lætur lítið yfir sér rétt eins og Sigþrúður, aðalsöguhetja hennar – en þar sannast hið forkveðna að ekki skildi maður dæma bók af kápunni því strax á fyrstu síðu opnast gluggi inn í líf merkilegrar og magnaðrar konu. Sigþrúður er ekkja á efri árum, býr í kjallara í Norðurmýrinni, heldur ketti og ber út póst. Hún á engan að og vinagarðurinn er heldur rýr í höfuðborginni enda er hún fædd og uppalin á landsbyggðinni. Hér ganga sum stef úr Ljósu aftur (eða fram – Á eigin vegum var jú skrifuð á undan) en unnið er úr þeim á annan máta. Hér er aftur komin kona sem bindur bagga sína ekki sömu hnútum og samferðamenn. Eins og Ljósa hefur Sigþrúður löngum verið örlítið utangarðs í samfélagi manna. Mein Ljósu var ósýnilegt framan af - innvortis - en það er undarlega sköpuð vinstri höndin á Sigþrúði sem gerir hana öðruvísi. Hér eins og áður er samfélag manna fordómafullt og skilningssljótt gagnvart þeim sem skera sig úr og grimmd manna og barna er mikil. En það er þó yfirleitt góðmennska hinna einstöku fremur en grimmd fjöldans sem hreyfir við hjarta manns. Kristín er líka fjarri því að draga upp einsleitar persónur og það er sjaldnast gefið frá upphafi hverjir munu reynast vel og hverjir bregðast. Lífið hefur ekki leikið við Sigþrúði en því fer fjarri að Kristín skrifi sögu hennar til þess eins að vekja með okkur samúð því þrátt fyrir allt er Sigþrúði hreint engin vorkunn. Þótt hún sé ein er hún langt frá því að vera einmana og ímyndunarafl, húmor og greind hefur hún svo sannarlega í ríkum mæli. Þó að Sigþrúður veki mann til umhugsunar um allt það líf, allar þær margslungnu sögur sem leynast jafnan bak við manneskjur sem við mætum á degi hverjum án þess að taka raunverulega eftir þeim, þá biður hún ekki um vorkunn. Sigþrúður þarf ekki á okkur að halda en við lesendurnir erum hins vegar forréttindadýr að fá að kynnast henni og fá innsýn í hugarheim hennar. Það er vel af sér vikið að draga upp mynd af konu sem samkvæmt almennum mælikvörðum samfélagsins hefur farið halloka – og gera hana ekki að fórnarlambi heldur þvert á móti að hógværum og lífsglöðum sigurvegara.
Það sem tengir Ljósu og Á eigin vegum við verk Kristínar fyrir yngri kynslóðirnar eru öðru fremur sérstaklega sannfærandi lýsingar á upplifun barnsins á umhverfi sínu og ótrúlega skýrar og lifandi myndir sem brugðið er upp fyrir lesandanum. En um leið er hér margt sem skilur að – djúpstæður harmur en ekki síður allt það ósagða sem liggur milli línanna og er svo þakklátt fyrir lesandann að sökkva sér í. Sólin sest að morgni og Á eigin vegum eru stuttar bækur – rétt um hundrað blaðsíður - og þótt Ljósa sé talsvert lengri er hún þó knöpp í stílnum á sama hátt. Kristín segir sjálf að hún vilji skrifa stuttar bækur – Ljósa hafi hins vegar verið svo stór saga að hún hafi neyðst til að hafa hana aðeins lengri. Kristín þarf enda merkilega fá orð til að draga upp sterkar myndir. Textinn er ljóðrænn í einfaldleika sínum og svo fallegur að hvað eftir annað neyddi ég mig til að hægja á lestrinum svo ég gæti notið hans betur – það var þó hægara sagt en gert því sagan var svo spennandi. Í einhverjum ritdóminum um Á eigin vegum sagði gagnrýnandi að um leið og hann hefði lokið lestrinum hefði hann fundið sig knúinn til að byrja aftur frá byrjun og ég er ekki frá því að það eigi við um Ljósu. Heimur bókanna er svo litríkur og magnaður að þrátt fyrir að þar búi vissulega sorg og harmur þá seiðir hann lesandann aftur til sín. Nú liggur leiðin svo bara á bókasafnið að taka Sólin sest að morgni.

(þessi pistill var fluttur í Víðsjá í júlí)

3 ummæli:

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Ein sú besta í bransanum í dag! Mér finnst svo magnað hvað prósinn hennar er látlaus og sterkur í senn. Það er engu ofaukið en samt hafa bækurnar mikil tilfinningaleg áhrif á mann. "Á eigin vegum" er nota bene bók sem ég hef gefið mjög oft, held ég hafi gleymt að minnast á það í gjafabókakommenti mínu hér um daginn. Það hafa nefnilega alls ekki nógu margir lesið hana, en vonandi þó fleiri í kjölfar vinsælda Ljósu.

Erna Erlingsdóttir sagði...

Já, hún er algjört æði og getur sagt svo ótrúlega margt í örfáum orðum. Komment Sölku minnir mig á að ég þarf endilega að gefa bækurnar hennar Kristínar miklu oftar.

Garún sagði...

Vekur upp löngun til þess að lesa þessar tvær bækur. Heimsókn á bókasafnið verður klárlega á listanum næstu daga. Takk fyrir þetta Maríanna.