20. ágúst 2011

Tekið í (bóka)spil


Í bloggfærslu dagsins hyggst ég sameina tvö af mínum helstu áhugamálum. Ég er nefnilega ekki bara lestrarhestur heldur líka spilanjörður og veit fátt skemmtilegra en að taka krefjandi, skemmtilegt og/eða spennandi spil í góðra vina hópi. Það var því sem ég hefði himin höndum tekið þegar ég bjó á stúdentagörðum í Wales og var kynnt fyrir spilinu Ex Libris, sem einn af sambýlingum mínum hafði fengið í afmælisgjöf. Spilið hafði verið keypt á British Museum og var á þeim tíma aðeins fáanlegt í útvöldum spila- og safnbúðum, en er núna auðveldara að finna, a.m.k. úti í Bretlandi.

Ex Libris er bókaspil sem útheimtir þó ekki bókmenntakunnáttu öðru fremur heldur allra helst ímyndunarafl, útsjónarsemi og ritfærni. Undirtitill þess er “A Game of First Lines and Last Words”, og eins og nafnið bendir til snýst leikurinn um að semja og giska á upphafs- eða lokalínur misþekktra bóka. Í stuttu máli sagt byggist spilið upp á svipuðu kerfi og Fimbulfamb; þátttakendur skiptast á um að sitja við stjórnvölinn og í hverri umferð er dregið spjald með titli bókar, höfundi og stuttri lýsingu á söguþræðinum auk helstu persóna. Ákveðið er hvort taka eigi loka- eða upphafsorð (í mínum kreðsum er yfirleitt skipst á) og þegar stjórnandinn hefur lesið af spjaldinu taka þátttakendur til við að semja sem trúverðugasta setningu í púkkið. Öllu er svo safnað saman og setningar þátttakenda lesnar ásamt með þeirri réttu. Svo er reynt að giska á þá réttu og fólk fær stig fyrir að geta rétt, auk þess sem stig fást ef aðrir þátttakendur trúa skáldskapnum manns.

Í spilinu eru bækur og höfundar af öllum sortum, bæði þekktir og óþekktir. Stundum eru lýsingarnar á bókunum viðbjóðslega fyndnar, og ekki leiðinlegt að reyna að semja sem fáránlegust upphaforð fyrir eldgamla vísindaskáldsögu, hádramatíska ástarvellu eða miðaldasagnabálk. Þarna leynast Danielle Steel, Jules Verne, P.G. Wodehouse og Tolkien innan um minni spámenn. Einstaka sinnum þekkir maður upphafið/lokin, t.d. hjá Jane Austen eða Herman Melville, en yfirleitt er þetta passlega snúið.

Þetta er óheyrilega skemmtilegt spil! Eini gallinn er sá að fólk þarf (augljóslega) að skrifa reiprennandi ensku til að geta tekið þátt, og þess vegna fæ ég ekki nærri því nógu oft að spila Ex Libris eftir að ég flutti heim. Hins vegar er ekki úr vegi að búa bara til sitt eigið bókaspil á íslensku eftir sömu forskrift – fletta upp í Vigdísi Gríms, Kristmanni Guðmunds, Bósa sögu, Steinari Braga eða Birgittu Halldórs og setja saman hressilega kvöldstund fyrir fjölskyldu eða vini.

Og spurt er um upphafsorð Hraunfólksins eftir Björn Th. Björnsson:

a) Þeir gengu upp með flákanum, séra Páll og Magnús Ólafsson.

b) Moldarbingurinn á leiðinu var enn ótyrfður.

c) Guðrún hét stúlka.

d) Í Bláskögum skyldi haldin veisla.

e) Það eru viðtekin sannindi að vel stæður karlmaður er ávallt í leit að æskilegu kvonfangi.


http://www.oxfordgames.com/ex-libris.html

3 ummæli:

Dúnja sagði...

Það er skemmtilegur bókafídus í íslenska spilinu Heilaspuna. Þar er kastað fram titli og menn eiga að segja deili á bókinni, og þá gefst oft vel að skrifa textann í svona baksíðutextastíl. Svo er viðhaft sama kerfi og þú lýsir - allar lýsingar, auk þeirrar réttu, eru lesnar. Hafi maður lýst réttri bók er lýsingin ekki lesin upp og maður fær tvö stig, en lýsi maður rangri bók svo sannfærandi að aðrir giski á hana fær maður eitt. Kemur margt skemmtilegt út úr þessu.

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Ú! Þetta hljómar vel. Ég hef bara einu sinni spilað Heilaspuna og það var í stórum hópi á jólum, í miklu kaosi, rauðvínsglamri og desertaáti, þannig að þessi flokkur hefur alveg farið framhjá mér. Ég þarf greinilega að kynna mér Heilaspuna betur.

Kristín í París sagði...

Hva? Ætlar enginn að taka þátt í getrauninni? Ég giska á c. Þetta spil hljómar stórkostlega skemmtilegt, eins og Fimbulfamb er reyndar líka.