12. ágúst 2011

Loftslagsbreytingar í skáldskap




Margaret Atwood
Á bókasíðu The Guardian er frétt um að út komi fljótlega smásagnasafnið I'm With the Bears, með sögum eftir nokkra þekkta höfunda. Þema allra sagnanna er áhrif loftslagsbreytinga. Starfsmaður forlagsins Verso, sem gefur bókina út, fékk hugmyndina frá Ian McEwan sem skrifaði bókina Solar, sem er kómísk skáldsaga sem fjallar einmitt um hið ófyndna efni loftslagsbreytingar. Ian McEwan fékk hins vegar hugmyndina að Solar þegar hann var staddur á umhverfisráðstefnu á Svalbarða árið 2005. McEwan er mikill áhugamaður um umhverfismál og tekur virkan þátt í fjölbreyttri umhverfisbaráttu og einnig í velgjörðarverkefnum sem eiga að stuðla að betra umhverfi, m.a. í Afríku. Hann gagnrýndi harðlega stóru umhverfisráðstefnuna, Climate Change, sem haldin var í Kaupmannahöfn 2009 (á hana mættu 1600 vísindamenn frá 80 löndum) og sagði hana algjöran skrípaleik sem engu myndi skila af viti.

Sögurnar í I'm With the Bears gerast á ýmsum tímum og eiga að gefa mynd af lífinu eftir að olíubirgðir heimsins eru þrotnar. Meðal höfunda eru Margaret Atwood, David Mitchell og TC Boyle.