24. ágúst 2011

Úr íslenskum torfærum í frumskóga Afríku

Ferðasögur eða ferðabókmenntir er sérstök bókmenntagrein. Í ferðasögum segja höfundar frá ferðalögum sínum til ókunnra landa og lýsa staðháttum og menningarheimum sem oft eru ólíkir þeim sem þeir eiga að venjast. Slíkar lýsingar voru auðvitað ekki síst merkilegar áður en ljósmynda- og kvikmyndatæknin kom til sögunnar og í raun eina leiðin fyrir marga til að kynnast öðrum löndum og ólíkum menningarstraumum. Þekktir rithöfundar hafa iðulega skrifað sögur af ferðum sínum sem einskonar aukabúgrein og aðrir höfundar hafa einbeitt sér að þessum flokki. Á Íslandi hafa höfundar skrifað um ferðir sínar til ókunnra landa en slíkar lýsingar koma oftast fyrir í ævisögum enda ævisagnahefðin öflug hérlendis. Hreinræktaðar ferðabókmenntir eru í raun fremur sjaldséðar.

Bókin Sorry, Mister Boss eftir Róbert Brimdal er ævisaga Þórðar Jónssonar sem kom út árið 1994 en þá var Þórður fimmtugur. Lífshlaup hans er um margt sérstakt, hann hefur frá fæðingu glímt við mikla fötlun en ekki látið það aftra sér frá því að sinna hugðarefnum sínum og ferðast um heiminn. Þórður bjó um árabil í Ródesíu en frásagnir þaðan eru stór hluti sögunnar. Það má eiginlega segja að Sorry, Mister Boss sé markaðssett sem ferðasaga, titillinn vísar í afsökunarbeiðni einkaþjóns Þórðar í Ródesíu og bókarkápan vísar sterklega til þessa tíma í lífi Þórðar. Þar má finna mynd af honum ásamt einkaþjóninum en yfir þeim gnæfir útskorin afrísk stytta. Í bakgrunni má svona greina landakort af Afríku og er myndin römmuð inn af frumskógartrjám.

Þórður fæddist árið 1944, hann var tvíburi en systir hans lést í fæðingu og sjálfum var Þórði vart hugað líf fyrsta sólahringinn og börnunum beinlínis þrýst út úr kviði móðurinnar sem hafði reynt að fæða þau í á fimmta sólahring. Það kom í ljós þegar Þórður var á öðru ári að mæna hans var skemmd og einnig hafði hann farið úr öðrum mjaðmaliðnum við fæðingu og það var orðið of seint að koma honum í liðinn. Af þessum sökum hefur Þórður aldrei getað gengið óstuddur og hefur ferðast um í hjólastól. Þórður ólst upp hjá foreldrum sínum í Keflavík og í bókinni segir frá ýmsum erfiðleikum sem fylgdu því að alast upp í hjólastól, barnaskólinn hans var til dæmis ekki útbúin fyrir hjólastóla. Sjálfsbjargarviðleitnin var hinsvegar mikil og Þórður tók þátt í leikjum vina sinni eftir fremsta megni. Fljótlega kom líka í ljós að hann var með mikla bíladellu og varð bíladellan á endanum lifibrauð hans, í lok bókar er rekur hann partasölu fyrir jeppa.

Bókin er tileinkuð öllum þeim sem bera með sér einlæga ósk um að sjá drauma sína rætast og vinna gagnlegt verk í þjóðfélaginu en það er Þórði einmitt efst í huga að geta séð fyrir sér með vinnu og hafa fjárhagslegt sjálfstæði. Þetta reynist oft erfitt þar sem hann þarf töluverða hjálp í hinu daglega lífi. Baráttan er afskaplega áþreifanleg í frásögninni og lesandinn fær mikla tilfinningu fyrir erfiðleikunum sem mæta fötluðum í samfélaginu. Þórður er hinsvegar ekki manngerðin sem gefst upp og það má segja að fyrsti áfanginn til sjálfstæðis náist þegar hann tekur bílpróf. Á yngri árum vinnur hann meðal annars á bílaverkstæði hjá vini sínum við það að svara í símann en til lengdar gengur það ekki upp og svo er hann líka í húsnæðisvandræðum. Þegar hann er um þrítugt verða svo sannarlega þáttaskil í lífi Þórðar. Hann heimsækir vini sína sem hafa sest að í Ródesíu sem nú heitir Zimbabwe. Ródesía hafði verið bresk nýlenda en hafði þegar þarna var komið sögu fengið heimastjórn. Blökkumenn voru í miklum meirihluta í landinu en höfðu þó ekki kosningarétt á þessum tíma og öll samfélagsgerðin er gegnsýrð af aðskilnaðarstefnu sem var viðhaldið dyggilega af þáverandi forsætisráðherra Ian Smith en stjórn hans var einungis viðurkennd af stjórnvöldum í Suður-Afríku, aðrar þjóðir viðurkenndu stjórn Ian Smith ekki. Það var þannig mikil spenna á milli kynþátta í landinu og einnig hafa lönd Sameinuðu þjóðanna sett viðskiptabann á Ródesíu. Framtíðin er ekki björt á Íslandi fyrir fatlaðan mann í hjólastól sem vill vera sjálfstæður og Þórður kemst að því í heimsókn sinni til Ródesíu að þar geti hann lifað ágætu lífi. Örorkubætur frá Íslandi duga til þess að borga einkaþjóni laun og jafnframt að getur hann til að byrja með leigt sér ágætis herbergi á hóteli. Árin í Ródesíu eru viðburðarík, Þórður sýnir þar að hann er hæfileikaríkur braskari og er í ýmisskonar bílaviðskiptum og smyglar jafnvel peningum á milli landa, hann kaupir líka og rekur matvöruverslun um skeið. Hann fær líka það verkefni að líta til með hópi svartra myndhöggvara sem Brendon vinur hans, sem er hvítur Ródesíubúi, hafði ráðið til að búa til styttur fyrir sig sem hann seldi svo með miklum hagnaði í Suður-Afríku en annars staðar var ekki hægt að selja þessar vörur. Þar fær hann borgað allt að tífalt hærra verð en hann greiðir fyrir þær. Brendon hefur látið útbúa aðstöðu fyrir myndhöggvarana lengst inni í skógi við grjótnámurnar sem þeir fá efnivið sinn frá. Nú ber svo við að halda á sýningu á afrískum munum á Kjarvalsstöðum í Reykjavík þetta vor og hefur Brendon fengið það verkefni að útvega listmuni á sýninguna. Þess vegna er mikilvægt að listamennirnir haldi sig við efnið og til þess þarf hvítur maður að sitja yfir þeim að sögn Brendons. Þórður dvelur í tvær vikur í skóginum með myndhöggvurnum og á ýmis áhugaverð samskipti við þorpsbúa.

Það kemur víða í ljós í bókinni að Þórður er nokkuð tvístígandi þegar kemur að kynþáttaumfjöllun og kynþáttafordómum. Í ritdómi í Morgunblaðinu gagnrýndi Jón Stefánsson, líklega sá sem nú heitir Jón Kalman Stefánsson, Þórð harðlega fyrir kynþáttafordóma og segir meðal annars: Á einum stað segir Þórður frá því þegar vinur hans skýtur blökkumann í bakið svo að bani hlýst af – fyrir það eitt að hnupla vínflösku. Þórði finnst auðvitað langt gengið og telur sig lausan við kynþáttafordóma. En því miður er ég ekki sammála honum í því. 

Jón tekur nokkur dæmi úr bókinni og segir síðan: Eins og Þórður tekur nokkrum sinnum fram í bókinni er hann trúaður maður. Það er því hreint og beint skelfilegt, að Paradís skuli hann kalla þann stað þar sem blökkumaðurinn er kúgaður, fyrirlitinn, arðrændur. Paradís Þórðar var helvíti á jörð fyrir blökkumanninn. Og það hlýtur að kallast mikil sjálfselska og fyrirlitning að vonast heitt og innilega eftir því að Ródesía verði áfram fyrir þá helvíti á jörð. Það er mikil synd af þessum þætti bókarinnar, því vel gæti ég trúað að seigla Þórðar og velgengni í þjóðfélaginu, gæti verið öðrum fötluðum örvun og fordæmi. Skrásetjari Þórðar, Róbert Brimdal, er einn helsti vinur hans. Ég er ekki viss um að svo náin tengsl séu heppileg, því skrásetjari þarf að hafa vissa fjarlægð á þann sem segir frá. Ég velti líka fyrir mér, hvort þeir Þórður hafi áttað sig á þeim viðhorfum sem skína í gegn í Ródesíuhlutanum, hvort þeir hafi áttað sig á þeim ótrúlega hroka sem felst í því að kalla slíkt land Paradís á jörðu.

Það er áhugavert að Jón skuli velta því fyrir sér hvort skrásetjari og sögumaður átti sig á viðhorfum í garð blökkumanna í þessari bók. Það er nefnilega nokkuð mikil meðvitund um viðhorf höfundar í skrifunum en viðhorfið er svo sannarlega tvíbent. Þórður gagnrýnir misrétti og fordóma gagnvart blökkumönnum á mörgum stöðum en jafnframt viðurkennir hann að hann sé litaður af ríkjandi viðhorfi hvítra Ródesíubúa. Það má velta fyrir sér hvort Þórður endurskoði afstöðu sína til svartra þegar hann lítur til baka, það líða tæplega tuttugu ár frá því að Þórður flytur frá Ródesíu og þar til að bókin er skrifuð. Það verður ekki hjá því litið að velsæld Þórðar í Ródesíu byggir á kynþáttamisrétti og það er áberandi í bókinni að ekki er gengið nærri sögumanninum hvað þetta varðar en viðhorf hans varðandi kynþáttafordóma viðruð á mun almennari nótum. Það má greina óöryggi í því hvernig fjallað er um þessi mál í bókinni, eins og höfundur viti ekki alveg hvernig hann eigi að taka á þeim.

Eitt atvik úr Ródesíudvölinni er Þórði minnisstæðara en önnur. Eitt sinn er hann á leið heim til Ródesíu frá Jóhannesarborg í Suður-Afríku þar sem hann hafði keypt bílavarahluti. Öll slík ferðalög voru áhættusöm vegna yfirvofandi árása skæruliða og í þessari ferð fer Þórður ekki varhluta af þeim hættum. Skæruliðar stöðva bílinn hans og hirða allt verðmætt, þeir eru í miðjum klíðum þegar heyrist í vélhjólum og skæruliðarnir bíða ekki boðanna og skjóta á vélhjólakappana. Þórður og bílstjóri hans björguðust naumlega úr þessari svaðilför. Þórður var aldrei samur maður eftir þennan atburð og verður hann í raun til þess að Þórður fer aftur til Íslands og leggst inn á sjúkrahús Keflavíkur sér til hvíldar og heilsubótar um tíma. Hann stefnir á að fara aftur til Ródesíu en úr því verður aldrei. Stjórn Ians Smith hefur verið steypt af stóli og allar líkur á að peningar sem Þórður á inni á banka hafi verið þjóðnýttir. Þórður fær úthlutað íbúð í Hátúni 12 en íbúðir í því nýbyggða húsi voru ætlaðar fötluðum. Þar kynnist hann tilvonandi eiginkonu sinni, Ingibjörgu Ólafsdóttur sem er einnig fötluð, en hún er afar heyrnarskert og hafði verið úrskurðuð vangefin, eins og segir í bókinni, fyrir misgáning. Síðar kemur í ljós að Ingibjörg á einungis í erfiðleikum með að tjá sig sökum heyrnarleysisins og er hún í endurhæfingu þegar hún kynnist Þórði. Það er merkilegt að lesa um fordómana og viðhorfið sem parið mætir í heilbrigðiskerfinu þegar í ljós kemur að Ingibjörg er barnshafandi, en þeim er ítrekað sagt að barnið geti orðið aumingi og þau fá jafnvel skammir í hattinn. En dóttir þeirra fæðist og reynist alheilbrigð. Það má segja að í lok bókarinnar hafi Þórður Jónsson eignast það sem hann þráir mest og við hin tökum mörg sem gefnu. Við sögulok lifir hann venjulegu lífi, á fjölskyldu, húsnæði, starfar í eigin fyrirtæki og fer til útlanda í sumarfríum.

Brot úr útvarpsþætti sem Þórdís og Þorgerður gerðu fyrir RÚV um nokkrar ævisögur íslenskra karlmanna.

1 ummæli:

Steinunn Þóra sagði...

Takk fyrir þetta. Ég ætla á bókasafnið strax á morgun og ná mér í þessa bók.