30. ágúst 2011

Murakami og kettirnir

Ensk þýðing á nýjustu bók Haruki Murakami mun koma út í október, aðdáendum japanska rithöfundarins til mikillar gleði. Í nýjasta hefti New Yorker eru birtar heilar níu blaðsíður upp úr bókinni, sem nefnist 1Q84, og er hægt að lesa þær hér á vefsíðu tímaritsins1Q84 kom út í Japan 2009-10 í þremur bindum, en mun víst vera gefin út í 1.000 blaðsíðna doðranti vestanhafs, en í tveim bindum í Bretlandi. Bókin varð alger metsölubók í Japan og seldist í einni milljón eintaka á innan við mánuði. Glöggir lesendur Druslubókabloggsins hafa að sjálfsögðu kveikt á því að nafn bókarinnar er vísun í 1984, bók George Orwells, en talan níu hljómar víst eins og stafurinn Q á japönsku. Þetta er ekki tilviljun því frásögnin mun vera óður til bókar Orwells.

Bókarbrotið í New Yorker er birt undir fyrirsögninni „Town of Cats“ og í því kynnumst við annarri af aðalsöguhetjum 1Q84, manni að nafni Tengo, þegar hann ákveður skyndilega að heimsækja föður sinn er býr á heimili fyrir heilabilaða. Feðgarnir eru ekki nánir og Tengo hugsar til þess á meðan hann bíður eftir lestinni: „They were two separate human beings who had come from—and were heading toward—entirely different places. By chance, they had spent some years of life together—that was all. It was a shame that it had come to that, but there was absolutely nothing that Tengo could do about it.“

Þetta væri ekki Murakami ef ekki væri ofin súrrealísk dæmisaga inn í aðalfrásögnina af feðgunum. Á þessum níu blaðsíðum er það smásagan Town of Cats sem Tengo les í lestinni á leiðinni í heimsóknina. Maður þarf ekki að vera mikill túlkunarfræðingur til að nema vísanaþyngsli sögunnar í samskiptum Tengo og pabbans heilabilaða:

“Hey, do you smell something human?” one of the cats says. “Now that you mention it, I thought there was a funny smell the past few days,” another chimes in, twitching his nose. “Me, too,” yet another cat says. “That’s weird. There shouldn’t be any humans here,” someone adds. “No, of course not. There’s no way a human could get into this town of cats.” “But that smell is definitely here.”

Þeir sem hafa lesið 1Q84 vilja meina að hún sé í kunnuglegum Murakami stíl þar sem súrrealískur hliðarveruleiki og hversdagsleg rauntilvist persónanna er í stöðugu flökti inn og út af sögusviðinu. Bókinni var ekki síður vel tekið af gagnrýnendum í Japan og var álit manna að hér væri eitt höfuðverk skáldsins á ferðinni.

1Q84 verður komin í búðir í lok október sem gefur manni nægan tíma til að hita upp með lestri á uppáhalds Murakami bókunum, Hard-Boiled Wonderland and the End of the World, A Wild Sheep Chase og The Wind-Up Bird Chronicle.

Helga Ferdinands

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þúsund síður? Er það ekki of langt?

Nafnlaus sagði...

jú, klárlega voldugur doðrantur. Þrátt fyrir að maður myndi ekki segja að lengd sé gæðamerki. Þá voru Stríð og friður, Hringadóttinssaga, Don Quixote, Gone with the Wind, Les Miserables og Suitable Boy allar um og yfir 1000 síður og mín útgáfa af Bleak house er 987 bls!
Helga F